Forsíđa   

Hvað eru draumar, hvernig myndast þeir og hvert er hlutverk þeirra?


Trú á merkingu drauma fyrir sálarlíf og heilsu dreymandans og fyrir heill samfélaganna er samofin sögu mannkyns svo og trúin á draumaráðningar. Eru Íslendingar þar engin undantekning. Enn í dag eru menn að velta upp spurningunum hvað draumar séu, hvernig þeir myndist og hvaða hlutverki þeir þjóni.


Goðsögur margra þjóða byggjast á draumum, s.s Gilgamesharkviða Súmera, og hafa þær löngum verið drjúg uppspretta nýrrar sköpunar meðal þjóðanna, þær lúta þeim lögmálum að vera utan tíma og rúms og tala táknmál sem skynjað er dýpri skilningi og vekur sterkar tilfinningar meðal þeirra er sækja í óræða visku þeirra.


Í kristinni trú og fleiri trúarbrögðum hefur það viðhorf löngum ríkt að suma drauma beri að líta á sem opinberanir guðdómsins en á aðra sem tóman hugarburð. Snemma gerðu menn sér þó ljósa grein fyrir mikilvægi svefns og drauma fyrir heilsu og sálarlíf og settu t.a.m. Fornegyptar og Grikkir á laggirnar svefn-og draumahof í lækningaskyni og átti þá hinn sjúki að geta fengið lækningu með aðstoð sinna drauma og annarra. 


Meðal grískra heimspekinga sem létu sig drauma skipta voru þeir Parminedes og Aristóteles. Parminedes sem var kennifaðir Plató lagði áherslu á læknandi mátt drauma og forspárgildi þeirra og þjálfaði lærisveina sína í draumleiðslu (Incubation) í þessu skyni. Aristóteles leit svo á að draumar væru tilkomnir vegna svefntruflana og hugaróróa og að draumar þjónuðu engum tilgangi nema þá helst að birta skynjanir úr vökunni sem dreymandanum hefði yfirsést og væri hægt að ráða þá út frá því.


Artemidorus af Dalis (á 2. öld e.Kr.) hélt því fram að sumir draumar væru skilaboð frá guðdóminum en að hugurinn framkallaði aðra.  Hann áleit forspárgildi drauma skipta mestu og hvað slíkir draumar gætu sagt um framtíðina. Einnig að um mismunandi birtingarmyndir drauma væri að ræða og ólíkar túlkanir þeirra. Hann safnaði draumum, flokkaði þá og gerði skrá yfir helstu draumaþemu eins og að missa tennur í draumi, drauma sem tengdust náttúrunni, veðráttu og skýjafari, ám, trjám og fjöllum, drauma um mannlega hegðun, valdsmenn og guðlegar verur. Einnig taldi hann að við túlkun drauma skyldi leitast við að læra um persónu og líf dreymandans, lesa sér til um drauma og treysta eigin reynslu og innsæi en taka ekki bara hugmyndir draumráðningabóka sem algilda túlkun. Nútímaflokkun fræðimanna á draumum endurómar þessa frumskiptingu Artemidorusar svo og sálfræðileg túlkun drauma.

 
Þegar saga sálfræðinnar bæði hér heima og erlendis er skoðuð kemur eitt merkilegt í ljós: hún er nátengd draumunum! Helstu forvígismenn vestrænnar sálfræði, þeir Sigmund Freud, Carl Gustav Jung og William James sýndu allir draumum mikinn áhuga og skrifuðu um þá og eins sína eigin drauma. Staðreyndin var nefnilega sú að allir urðu þeir fyrir þeirri reynslu ungir að aldri að draumarnir þeirra voru sumir svo ljóslifandi og merkilegir og höfðu svo djúp áhrif á þá að þeir gátu ekki annað en tekið mark á þeim. Var Jung t.a.m. snemma afar berdreyminn.Ein fyrsta rannsókn í sálfræði hér á landi var gerð í upphafi 20. aldar af tveim heimspekiprófessorum við Háskóla Íslands, þeim Ágústi H. Bjarnasyni og Guðmundi H. Finnbogasyni á draumspökum manni af Langanesi og má segja að með henni hafi þeir sýnt hinum forna þjóðararfi og trú Íslendinga á drauma mikla virðingu.(sjá Rannsóknir).

 

Freud taldi að draumar vernduðu svefninn og væru konungsvegurinn að undirdjúpum sálarlífsins, Jung vildi skyggnast dýpra og fara veginn niður til undirvitundar og þaðan til æðri vitundar og dýpri umbreytingar en James lagði sérstaka áherslu á forspárgildi drauma og flokkun drauma eftir því hvers eðlis þeir væru. Er enn í dag stuðst við þessa draumflokkun James.


Hugmyndir Freud um drauma:

Draumar eru vörður svefnsins, þeir leyfa sálarlífinu að hvílast, í svefninum getur   hið ómeðvitaða, þrár, hvatir, tilfinningar og hugsanir sem ekki má tjá í vökunni birst án þess dreymandinn vakni.

Draumar eru ákveðinn blekkingarleikur hugans, myndrænar birtingar hugsana, tilfinninga, minninga og menningartengdra tákna.

Draumar birta duldar óskir og hugsanir án beinna tengsla við birtingarmyndirnar.

Draumar ná fram uppfyllingu óskanna á hinu innra leiksviði og létta þannig á togstreitu vegna óuppfylltra hvata og þarfa og leiða til aukins jafnvægis í vökunni og betri hæfni til að takast á við vandamál líðandi stundar.

 

Hugmyndir Jung um drauma:

Draumar bæta upp ójafnvægi í hinum meðvitaða persónuleika. Ómeðvitaðir þættir sem hafa verið bældir eða látnir eiga sig fá tjáningu í draumi.

Draumar myndast út frá efnivið í persónulegri undirmeðvitund dreymandans, hugsunum hans, tilfinningum og reynslu í daglegu lífi.

Draumar myndast út frá reynslu kynslóðanna sem hefur safnast saman í hinni ævafornu og tímalausu dulvitund allra manna. Hið fjölbreytta og flókna táknmál og myndmál þessarar vitundar er draumunum eðlilegur farvegur. Birtast þeir þá á alheimslegu tákngerfi sem t.d. sólin, skugginn og dauðinnn.

Draumar stuðla að samræmi og heildun vitundarinnar og þróa með dreymandanum dýpri sjálfsvitund og aukið jafnvægi.

Draumar eiga sér dýpri uppsprettu sem er hið raunverulega afl þeirra og kemur frá sviðum sem eru handan persónu dreymandans. Sumir draumar hafa forspárgildi og “stórir draumar” leiða til djúprar umbreytingar á persónu og lífi dreymandans en slíka drauma fær hann örsjaldan á lífsleiðinni og hvetur Jung viðkomandi til að huga að þeim alveg sérstaklega.

 


Aðrar kenningar um drauma s.s. kenningar  skynheildarsálfræði og tilvistarsálfræði


Hér er af mörgu að taka: Alfred Adler sem byggði á djúpsálfræðikenningu Freud, skynheildarsálfræðingurinn Frederick Perls og tilvistarsálfræðingurinn Medard Boss og persónuleikasálfræðingarnir Thomas French og Erich Fromm. Þessir um margt ólíku kennismiðir afneita sumir hugmynd Freud um að draumar eigi uppruna sinn í djúpum undirmeðvitundarinnar. Þeir telja að draumar myndist vegna sömu persónleikaformgerða og eru til staðar í vökunni, þeir tala um „lífsstíl,“  „að vera til í heiminum; og sköpunarstreymi“ og leggja áherslu á tengsli milli hins dreymandi sálarlífs og vökumynstra persónleikans og jafna draumi við vitræna formgerð.


Adler leit á drauma sem sjálfsblekkingu sem væru helst gagnlegir til greiningar á veikleikum og göllum í persónuleikanum. Hann dregur þar með úr hinu jákvæða uppbyggilega og skapandi hlutverki drauma. Adler leggur sérstaka áherslu á þær tilfinningar sem vakna við drauminn og tekur þær sem mikilvægar vísbendingar um lífsstíl dreymandans.


Boss, French og Fromm og Perls töldu líka að draumar væru gagnlegir til greingar á sálrænu ástandi dreymandans en þeir töldu ennfremur að draumar gætu verið farvegur fyrir nýja og skapandi orku sem leiddi dreymandann handan sviðs venjulegra hæfileika sinna í vökuvitundinn. Perls kallaði drauma konungsveginn til einingar vegna hæfileika þeirra til að hjálpa fólki að endurvinna tengsl við þá hluta sjálfs síns sem það hefur misst af. Einnig litu French og Fromm svo á að draumar væru skapandi aðferð sálarlífsins til þess að leysa vandamál í lífi dreymandans. Boss áleit að hið einstaka frelsi sem fólk upplifir í draumum sínum hjálpi því að uppgötva sönn æðri gildi mannlegrar tilveru.


Síðan eru þeir fræðimenn sem telja drauma einvörðungu hugarrugl og afurð heilastarfsemi og sé hægt að útskýra alfarið út frá starfsemi miðtaugakerfis. Hugrænir atferlissinnar hafa einnig lagt orð í belg á undanförnum misserum og líta á drauma sem úrvinnslu á atburðum og hugarferlum dagsins fyrst og fremst.


Samtímalist og draumar


Djúpsálfræðikenningar og skynheildarkenningar um drauma hafa margar haft heilmikil áhrif innan bókmennta og lista. Súrrealisminn hefur einkum leitað þar fanga og setur hann enn á ný og í auknum mæli mark sitt á samtímalist.


Af erlendum höfundum sem skrifa undir áhrifum draums og surrealisma má nefna norður-írsk/skoska höfundinn Ian McDonald (sjá River of Gods og Brasyl) og breska höfundinn David Mitchell (sjá Number nine dream og Cloud Atlas) og íslensku höfundana Bjarna Bjarnason (sjá Borgin bak við orðin; Mannætukonan og maðurinn hennar og Andlit), Jón Kalman Stefánsson (sjá Sumarljós og svo kemur nóttin) og Stefán Mána (sjá Hótel Kalifornía og S
kipið).


© 2007 Draumasetriđ Skuggsjá Hönnun Design EuropA