Draumfræðistofnun Íslands
Draumasetrið Skuggsjá
Draumfræðistofnun Íslands - Draumasetrið Skuggsjá er þjóðleg menningarmiðstöð um drauma með alþjóðlega skírskotun sem er ætlað að stuðla að nýsköpun og varðveislu menningararfs okkar; draumasafn og hugmyndasafn. Jafnframt að kynna land og þjóð á innlendum sem erlendum vettvangi. En ekki síður vekja fólk til umhugsunar um sálfræðilegt mikilvægi drauma og þá krafta sköpunarinnar sem tengja það við innra líf og hinn ytri umheim.
Draumar eru farvegur fyrir hina duldu sköpun sem ekki má glata sjónar á, eða eins og Laxness orðaði það: Dáið er alt án drauma. Draumar eiga sér sitt innra mál og er það birt í myndum og táknum, þeir varpa mynd sinni á skuggsjá hins óræða og verða tími og rúm þar afstæðar stærðir. Draumurinn á í vök að verjast í nútíma hraða og streitu vestrænna lifnaðarhátta og neysluhyggju og því er brýn þörf á að varðveita hann og virða og miðla til komandi kynslóða. Í hinu stærra heildarsamhengi tengir draumurinn okkur við landið, söguna, tunguna og gróandi þjóðlíf.
Skuggsjá er með aðsetur á Akureyri og á Laugarbakka í Miðfirði og með aukaaðsetur á Djúpavogi. Er Draumasetrinu ætlað að safna, skrá og varðveita drauma, stunda eigindlegar og megindlegar rannsóknir á sviði svefns og drauma, standa að sýninga- og fyrirlestrahaldi, stunda útgáfustarfsemi, halda úti vefgagnasafni og standa fyrir ýmsum viðburðum. Skuggsjá vinnur í nánu samstarfi við innlendar og erlendar menningar- og menntastofnanir um draumfræði og með alheimssamtökum draumfræðinga sem hafa aðalmiðstöð sína við John, F. Kennedy háskólann í San Francisco.
Styrktar- og samstarfsaðilar
Helstu styrktaraðilar Skuggsjár hafa verið Vaxtarsamningur Eyjafjarðar svo og fyrirtæki á Akureyri, Petra ehf. og Súlan ehf. og Menningar og viðurkenningarsjóður KEA svf. Einnig hafa Menningarmálanefnd Akureyrar og Menningarráð Eyþings og Menningarráð Austurlands styrkt ýmis verkefni setursins.
Aðalsamstarfsaðilar hafa verið Capacent/Gallup á Íslandi, Háskólinn á Akureyri, Amtsbókasafnið á Akureyri, Héraðsskjalasafnið á Akureyri, Minjasafnið á Akureyri, Menningarhúsið Berg, Dalvík og Djúpavogshreppur/Langabúð, safn Ríkharðs Jónssonar.
Hafa samband:
Draumasetrið Skuggsjá, Fjólugata 8, 600 Akureyri.
Forstjóri Skuggsjár: dr. Björg Bjarnadóttir, þróunarsálfræðingur,
sími 461 5311. Netfang: skuggsja@skuggsja.is
* Skuggsjá er gamalt íslenskt orð sem kemur fyrir í merkingunni spegill eða tæki til að varpa mynd á vegg. Og táknar það samspil ljóss og skugga sem gerir endurvarp eða speglun mögulega; að sjá sem í skuggsjá í óræðri mynd.
Orðið Skuggsjá lýsir vel þeirri merkingu sem felst í draumtímabilum svefnsins yfir nóttina. Þá eru það augun, spegill sálarinnar sem hreyfast hratt, líkt og verið sé að horfa á kvikmynd. Dreymandinn sér sjálfan sig, vitund sína í spegli.
Sálfræðistöðin Strönd akademía
Strönd akademía er sálfræðimiðstöð með aðsetur að Fjólugötu 8, Akureyri og á Laugarbakka í Miðfirði. Strönd býður upp á margháttaða sálfræðiþjónustu, greiningu og meðferð ásamt ráðgjöf til einstaklinga, fyrirtækja og stofnana. Strönd er sérhæft kvennafyrirtæki á sviði sálfræði og það eina sinnar tegundar á Norðurlandi. Miðstöðin var stofnuð árið 2002 með þróun nýrra leiða í sálfræðiþjónustu að leiðarljósi og vinnur gegn atvinnuleysi kvenna á þjónustusvæðinu. Hafa allmargar konur sem búið hafa við tímabundið atvinnuleysi hlotið starfsþjálfun í ýmsum verkefnum hjá Strönd. Ennfremur eru yfirlýst markmið Strandar að berjast fyrir bættum hag barna og fjölskyldna í íslensku samfélagi, gegn misrétti og fátækt. Helstu styrktaraðilar Strandar hafa verið Jóhönnusjóður Félagsmálaráðuneytis, Atvinnuleysistryggingasjóður og nokkur fyrirtæki á Norðurlandi.
Af verkefnum Strandar má nefna ráðgjöf og vinnu í málefnum barna, unglinga og fjölskyldna fyrir Skóla-og fjölskyldudeild Félagsþjónustu Akureyrarbæjar og Blönduóssbæjar og VIRK starfsendurhæfingu. Strönd hefur sérhæft sig í handleiðslu til fagfólks í menntageiranum og á sviði félags- og heilbrigðismála. Ennfremur boðið upp á fyrirlestra og námskeiðahald og tekið þátt í ráðstefnum heima og erlendis.
Framkvæmdastjóri og aðaleigandi Strandar er dr. Björg Bjarnadóttir, sálfræðingur, sem hlaut doktorsgráðu (Ph.D.) í þróunarsálfræði frá Stirling háskóla í Skotlandi árið 1996. Að námi loknu tók hún að sér að setja upp nýja Dagdeild um langtímamðeferð og endurhæfingu á vegum Geðdeildar FSA (Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri) og veitti henni forstöðu um árabil. Áður hafði Björg verið forstöðumaður Sálfræðideildar skóla í Norðurlandi vestra og fyrsti lektor í sálfræði við Háskólann á Akureyri. Björg starfar nú sem yfirsálfræðingur á Fjölskyldusviði Húnaþings vestra.
Strönd hefur unnið að ýmsum spjaldasýningum, til að mynda ritstýrði Björg stórri yfrlistssýningu fyrir Nonnahúss um ævi móður Nonna, Sigríði Jónsdóttur frá Vogum. Hefur sú sýning víða verið sett upp, s.s. í Zontahúsi, Vesturfarasetrinu á Hofsósi og Þjóðarbókhlöðu. Strönd hefur stuðlað að notkun listgreina í faglegu starfi og m.a. komið á fót vinnusmiðju í póstlist (mail art) í samstarfi við Háskólann á Akureyri og kanadíska fagmenn. Undirbúningur að stofnun Draumasetursins Skuggsjár síðla árs 2003 var í höndum Strandar og hefur Strönd síðan haft faglega umsjón með sálfræðiþáttum hinna ýmsu verkefna Skuggsjár.
Undanfarin ár hefur Strönd kynnt sér sálfræðilega listmeðferð (psychoarttherapy) í Bretlandi og Kanada og Björg sótt þangað fræðslu og endurmenntun. Nýlega lauk starfshópur við Háskólann á Akureyri skýrslu um möguleikann á meistaranámi í listmeðferð við skólann og var Björg fh. Strandar sérfræðilegur ráðunautur hópsins. Af öðrum verkefnum má nefna verkefnið Lengi væntir vonin sem felur í sér þróun meðferðar fyrir börn og unglinga sem eiga um sárt að binda vegna alvarlegra veikinda, áfalla, slysa eða dauðsfalla í fjölskyldum sínum og þjást af áfallastreitu. Standa vonir til að verkefnið verði vísir að sérhæfðu úrræði í sálfræðilegri listmeðferð fyrir börn á Norðurlandi. Síðustu misseri hefur Strönd unnið í samstarfi við Öldrunarfræðistofnun Stirling háskóla í Skotlandi og kynnt sér nýjungar í hugmyndafræði og aðbúnaði varðandi umönnun aldraðra.
* Mannfólkið er börn Náttúrunnar eins og aðrir sem byggja Jörðina. Á ströndinni mætast haf, jörð og himinn og þar sjást glögg merki himintunglanna í gangi sjávarfalla, flóðs og fjöru. Sólin hefur áhrif á dægursveifluna - vöku og svefn - og vellíðan almennt. Í óeiginlegri merkingu tengir Ströndin vitundarsvið mannsins, hina innri sálarheima og ytri raunheim.
Til nýrrar strandar lítur dagur hver.
(J.W. von Goethe).
Hafa samband:
Strönd akademía, Fjólugata 8, 600 Akureyri.
dr. Björg Bjarnadóttir, forstöðusálfræðingur, sími 461 5311.
Netfang: bbjarna@skuggsja.is eða bbjarna@strondakademia.is
|