Forsíđa   
 16.11.2024
 Landiđ sem sál vorri var fengiđ til fylgdar - og skírir draumar



Á fullu tungli gærdagsins,
svokölluðum ofurmána,
(frostmána; sorgarmána,
líkt og Indíánar BNA 
eða Keltar nefndu það),
snjóaði drjúgt hér nyrðra.
Og nú á Degi íslenskrar tungu,
hvílir snjóbreiða hvít og hrein,
yfir öllu. Fyrsti alvöru snjór
þessa vetrar. Kannski við
sjáum Norðurljós og stjörnur 
við frostmarkið...



Skírdreymi er einn flokkur
drauma sem nú er verið
að rannsaka enn frekar.
Hreinn tærleiki náttúrunnar
eða skírleiki nú um stundir,
á sér samsvörun í draumum
næturinnar þegar dreymandi
upplifir sig að vera skír eða 
vitandi um að vera að dreyma.
Getur horft á drauminn og
velt fyrir sér eða jafnvel breytt
framvindu hans. Hafa sumir 
náð að breyta erfiðum draumum 
og draga úr ógninni frá þeim,
með því að skoða nýjar leiðir
til þess að vinna með hættuna
í draumi/um í slíku ástandi.
Ennfremur hefur bæði lista-
og vísindafólk talað um
skapandi flæði í skírdreymi
sem þeim tekst svo að fanga
til nýrra verka í vökunni.




Alþingiskosningar í nánd; 
fyrir margt löngu hefði þó verið 
hægt að færa margt til betra horfs
með endurskoðun og uppfærslu 
laga í takt við nútíma lýðréttindi,
s.s. varðandi vaxtalög og kafla
um okur í gömlum refsilögum
frá því í kringum 1960.

Eða skoða möguleikana á
að festa gengi krónu við annan
og stöndugri gjaldmiðil án þess
að þurfa að ganga í einhver sér
bandalög sem einkum eru sniðin
fyrir ríki á meginlandi Evrópu.

Kanadabúar buðu Íslendingum
t.d. aðstoð í Hruninu en á þeim 
tíma var kanadadollar talinn einn
styrkasti gjaldmiðill í heimi. 
Hvort sá möguleiki var tekinn 
til skoðunar, er til efs.

Löngum hefur verið bent á 
að taka þurfi tiltekna kafla 
stjórnarskrár til endurskoðunar
eins og forsetakaflann en
látið reka á reiðanum svo og 
margt varðandi kosningar 
eins og atkvæðamagn á bak 
við hvern þingmann.

Í þessu ljósi m.a. er engin 
furða að margir hafi litla trú
á raunhæfum beytingum 
sem skapað gætu eðlileg
og streituminni skilyrði til
heilbrigðs lífs og búsetu 
í landinu.




Landið okkar gefur þó skíra
von um góða hluti þrátt fyrir 
allt. Mörg eru góðu gæðin.
Megum ekki gleyma að 
margt er bæði vel gert hér
og til hagsbóta fyrir alla.
Munum eftir skyldum okkar
við landið og skírum vonar-
draumum í svefni sem vöku:
að halda tryggð við landið 
sem okkur hefur verið fengið 
til fylgdar.
Auðsýna mildi og elskusemi 
í mannlegu samfélagi:





Ó dunandi eyja
sem á dögum sköpunarinnar!
ennþá í smiðju
elds, kulda og vatns
engan stað á jörðu
eigum vér dýrari

því þetta land
var sál vorri fengið til fylgdar.



(Hannes Pétursson. Óður um Ísland.
Heimkoma. Helgafell,1974).


#










Meira >>
 26.10.2024
 Sólrođi og glitský: vetur gengur í garđ - örugga draumarýmiđ og nćturterapían


Fyrsti dagur vetrar heilsar
með fögrum sólroða og 
bleikum glitskýjum í Norðrinu.
Heimur nýr og fagur...
Vekur hugsunina um
mikilvægi þess að eiga
aðgang að öruggu rými
(safe space), í sálinni,
jafnt í vöku sem svefni.

Á dagvaktinni, er örugga rýmið
gjarnan minning/reynsla
af kærri persónu/m og/eða
stað/aðstæðum úr bernskunni 
þar sem viðkomandi upplifir sig
öruggan og óttalausan, umvafinn 
vernd og skilyrðislausri elsku.





En það gerist líka heilmargt
á næturvaktinni hjá okkur.
Í svefni skapast örugga
rýmið í draumsvefninum.
Við þurfum ekki bara að sofa
heldur líka að dreyma.
Okkur dreymir allar nætur
jafnvel þó við munum
draumana ekki að morgni 
eða fáa og etv. bara draumslitur.

En getum gert margt til þess
að þjálfa draumaminnið með
því að skrifa draumana niður
og/eða tala um þá og halda
drauma-dagbók. Sést þá
gjarnan viss þróun yfir
tímabilin þegar skoðað er 
til baka. Hvaða tilfinningar
fylgdu draumunum og hvað
voru þeir að segja okkur?
Eru endurtekin mynstur 
eða þemu í draumunum
og eru endurteknir draumar
allt frá fyrri tímabilum, jafnvel
bernsku, að minna á sig?



Vert er að hafa í huga 
að draumar eiga sér
upphaf í dýpi vitundarinnar,
ekki bara í vökureynslu.
Og það er úr þessu
magnaða skapandi dýpi
vitundar okkar sem gjafir
draumsins berast í svefni.
Opna á nýja sýn og lausnir.
Þ.e.a.s. ef við tökum þann
pól í hæðina að draumar séu
ekki bara merkingarlaust rugl.
En því skal til haga haldið
að margir eru enn þeirrar
skoðunar, bæði leikir og lærðir.




Í draumsvefninum, svokölluðum
Bliksvefni -REM-Rapid Eye Movement
svefntímabil hraðra augnhreyfinga 
en algjörs hreyfingaleysis að öðru leyti, 
verða vissar breytingar á efnafræði
í heila þar sem segja má að
streituhormónið-noradrenalín, sé
lokað úti. Raunar eina skiptið á
sólarhringnum sem miðtaugakerfið
losnar undan kvíðahormóninu.

Færi skapast á að endurupplifa
óttavekjandi og erfiða reynslu 
vökunnar í öruggu rými/umhverfi
draumsvefnsins, sjá nýja fleti
og opna á aðlögun og heilun
tilfinninga og hugsana.

Þegar unnið er með martraðir
sem gjarnan fylgja mikilli
áfallastreitu, er markmiðið
að finna leið til þess að endur-
skrifa martröðina og milda hana; 
draga úr ótta og hjálparleysis-
tilfinningum.

Hægt að byrja á að tengja sig
við jákvæðar myndir, liti, 
öruggar senur úr vökunni sem 
gefa gleði, vernd og ótttaleysi.
Og smám saman ná að opna
á og deila efiðri draumreynslu 
eða martröð með þeim sem 
við treystum, trúnaðarvini, drauma-
dagbókinni eða terapista. Öðlast 
endurlit (rehearsal), á íþyngjandi 
draumreynsluna og áföll vökunnar.
(Imagery Rehearsal Therapy - IRT).



Dag skal að kveldi lofa, segir
hið fornkveðna og mikilvægt
að muna eftir að dvelja líka
í hæglætinu í amstri dagsins
og gefa gaum að rólegum 
undirbúningi fyrir svefninn 
að kvöldi.

Ljóst vitundin starfar ötullega
allan sólarhringinn og gefur
okkur góð bjargráð til þess
að dvelja í öruggu rými drauma
og ná að heilast í terapíu nætur.

Það kemur alltaf nýr dagur...



#


Meira >>
 22.09.2024
 Draumţemu á litríkum Haustjafndćgrum


Haustjafndægur gengin í garð
á rökum og stilltum morgni í 
Norðrinu; í hádeginu brýst
sólin fram og gleður sál og sinni;
seinni parturinn lofar góðu.
Svo byrjar skáldkonan
María Sigmundsdóttir (1958- ),
Haustljóð sitt:


Haustið er komið í hundrað þúsund litum
með heiðbláa daga, jarðneska dýrð.


Munu draumar okkar breytast
og taka lit árstíðarinnar eða
haldast þeir með svipuð þemu
frá einni árstíð til þeirra næstu?
Óvitað, en sannarlega verðugt
rannsóknarefni.



Talið er að frá 8-10 ára aldri,
dreymi okkur a.m.k. 3 til 6 
drauma á nóttu.
En draumaminnið er brigðult:
trúlega gleymast um 90-95%
drauma fljótlega eftir að við
vöknum og förum fram úr.
En vissulega er hægt að þjálfa
draumaminnið, s.s. að skrifa
draumana strax niður og/eða
spegla þá í samtali við aðra.



Talið er, að draumar breytist
að vissu marki með aldri og þá 
að einhverju leyti út frá þeim 
þroskaverkefnum sem fylgja 
hverju æviskeiði, þ.e. reynslu
vökunnar, heilsu og líðan.
Aldraða dreymir t.a.m. oftar
endurtekna drauma sem hafa 
fylgt þeim í gegnum ævina.
Með auknum tíma og ró
ævikvöldsins, geta þeir
nú skoðað bæði vöku-og
draumreynslu sína og þá
lærdóma sem reynslan
hefur gefið og hvað endurteknir
draumar hafa hugsanlega 
verið að segja þeim eða
leiðbeina með. 
Þá er og spurning hvort 
draumum í lit, fækki
með auknum aldri miðað
við yngri dreymendur og
spennandi að sjá niðurstöður
slíkra rannsókna síðar.




Helstu þemu i draumum
virðast haldast nokkuð stöðug
í gegnum æviskeiðin og
hefur verið skipt í þrjá flokka 
sem snerta úrvinnslu á skynjun, 
hugsun og tilfinningum vökureynslu.
En vert er að taka fram, að þessi
nálgun á eðli drauma, er ekki
sú eina. Óefað eigum við enn eftir
að uppgötva margt fleira um eðli,
inntak og tilgang draumlífsins
en svo að allt megi tengja reynslu
okkar yfir dagana og úrvinnlu á
hugmynda-og skynheimi vökunnar.
Ekki eru sem sé allir draumar
endilega úrvinnsludraumar:



Draumar sem snerta tengsl 
okkar við aðra og endurspegla 
innri ólgu og togstreitu.
Dreymandinn skynjar hættu 
og ógn, finnst hann vera að detta;
vera eltur eða ráðist á.

Draumar sem snerta eigin líkama
og kynvitund. Dreymanda
finnst hann vera að fljúga;
finna peninga eða borða eitthvað gott.

Draumar sem snerta árangur og
frammistöðu í félagslegu tilliti
og áhyggjur þar af.
Dreymanda finnst hann vera
nakinn; hann fellur á prófi;
missir tönn eða mætir of seint.




Langtímarannsókn sem birt var
í Journal of Psychology 2004 eftir
Michael Schredl, Petra Ciric ofl.
sýnir að 55 helstu draumþemu 
fólks á tímabilinu 1956 til 2000, 
voru í meginatriðum svipuð.
En þemum fjölgaði þegar á leið
tímabilið sem snertu nútíma-
lífsháttu og tækni, tæki og tól.
Sem dæmi varð aukning á
tíðni flugdrauma, dreymanda
fannst hann sjálfur fljúga eða
vera í flugvél. Rannsakendur
tengja þessa aukningu við
þá staðreynd að veruleg
fjölgun varð á flugi sem 
fararmáta á sama tímabili
hjá fólki um heim allan.
Langtímaminnið hefur meiri
ítök í draumlífinu en skammtíma-
minni og bent hefur verið á að ný 
tækni, tól og tæki eins og sími
og tölva virðast síast hægar inn 
sem algeng draumþemu og tákn
en fræðimenn áttu von á.


Af 55 helstu draumþemunum,
má nefna eftirfarandi 10 algeng:

vera að læra í skóla;
falla á prófi; vera eltur; detta; 
fljúga; missa tennur; sjá skordýr;
vera frosinn af hræðslu;
sjá lifandi persónu sem látna
eða öfugt; synda.

Draumfræðingar leggja áherslu 
á að hægt sé að læra á drauma
sem endurspegla óttaþemu 
vökunnar sem oft eru martraðakennd, 
með því að skoða slíka drauma
og læra að mæta þeim án þess
að þeir slái dreymandann út af
laginu. Þróa seiglu og bjartsýni
sem vinnur gegn hamfarahugsun
og tilhneigingu til skautunar,
að sjá bara svart eða hvítt.



Ljóst er að reynsla vökunnar,
speglast í draumum næturinnar.
Er í þessu samhengi, litið svo á 
að draumar stuðli að auknu jafnvægi 
í sálarlífinu, ferli upplýsingar,
endurraði reynslu í minni og
hjálpi dreymanda að sjá nýjar 
lausnir; læra.
Talið er að það taki allt að 7 daga
að ferla upplýsingar úr vökunni
í draumum nætur þannig að
eðlileg heildun eigi sér stað 
við þekkingu sem fyrir er.
Er mælt með að dreymendur
á hvaða aldri sem er, hugi vel að
undirbúningi fyrir svefninn og eigi
góða stund, s.s. án krefjandi áhorfs,
áður en gengið er til náða.

Það sem við störfum og sýslum
við, á sér greiða leið inn í draumana.
Dæmi þar um er að tónlistarfólk 
dreymir tvisvar sinnum fleiri tóndrauma,
að talið er, en þeir sem ekki starfa 
við tónlist. Þetta eru frekar draumar 
frá gömlum tíma þegar þeir voru að
mennta sig í tónlistinni en nútíma
hlustun og spilun. Dreymandi heyrir 
jafnvel áður óheyrða tónlist sem 
bendir til hins skapandi máttar 
draumlífsins enda hafa margir 
listamenn í gegnum tíðina
sagt frá lögum, textum og myndum 
sem þeir hafa fyrst heyrt eða
séð í draumum sínum.
Hið sama má segja um skapandi
drauma vísinda-og uppfinningamanna.



Dreymi vel á komandi 
haustnáttum!


#





Meira >>
 18.08.2024
 Balí: eyja Guđanna og samanburđur draumhefđa


Votur og svalur sunnudagur
hér í Norðrinu. Minnir nú
frekar á september en
ágúst en jæja...


Ýmsir draumar af landinu bláa
hafa okkur gengið hér
hjá Skuggsjá. Nú síðast
í draumi nætur af nýju eldgosi
á Reykjanesi, ofar í landslagi
en áður. Vonum það besta
og treystum okkar góða vísinda-
fólki og hjálparliðum. En tökum
störf þerra ekki sem sjálfsögð.
Hvar er hjálpin hjálparans,
segir á einum stað.




Þjóðhátíðardagur Indónesa í gær
og ný höfuðborg vígð á Borneó,
Nusantara, í stað höfuðborgarinnar
Jakarta á Jövu sem óttast er að
kunni að síga í sæ. Er það hrap
þegar hafið.





Talandi eða dreymandi um
eldfjöll og eldvirkni: Íslendingar 
hafa á síðustu árum tekið
miklu ástfóstri við eldfjalla-
eyríkið fjölmenna, Indónesíu, 
sem er fjórða fjölmennasta 
ríki heims. Og er jafnframt á
einhverjum mestu flekaskilum
sem um getur í jarðfræðilegri 
merkingu.


Trúlega er landinn ekki bara
að leita á suðrænar sólarslóðir
eins og á Balí sem er vinsælasti 
áfangastaðurinn heldur finnur
samkennd með lífi fólksins
og náttúrunni þar á eyjunni 
grænu, eyju guðanna. 
Eru eldgos og náttúruhamfarir 
þar mjög algeng í gegnum 
aldirnar og sársaukafullur veruleiki
í lífi íbúa. Jafnvel þó sjálf eldgosin 
geti reynst stórfenglegt sjónarspil,
þá vita Balíbúar að eyðileggingin 
getur líka reynst hörmuleg
líkt og hér heima, nú síðast
í Grindavík.




Það er verðugt rannsóknarefni
að kanna betur hvað reynist
líkt í draumhefð Indónesa og
Íslendinga þegar kemur að
draumreynslu er snertir bæði
fyrirboða að náttúruhamförum
og reynslu fólks af því að takast
á við afleiðingar þeirra.
Eldfjallaeyjur í suðri og norðri
og íbúar sem búa við ógnaröfl 
bæði skapandi og eyðandi náttúru.

Vísir að slíkum samanburði varð
til við heimsókn til Balí stuttu fyrir
Covid fyrir nokkrum misserum.
Nú standa vonir til að unnt sé
að vinna betur úr gögnum sem
söfnuðust þá. Ennfremur að skoða
margt fleira í andlegri trúarhefð
Balíbúa. En miðað við Indónesíu
í heild sem er fyrst og fremst
múhameðstrúar, ríkir enn sterkt
afbrigði Hindúatrúar og Búddasíðar
á Balí sem þar hefur þróast í 
aldanna rás.




Draumar, eins konar uppgjör á 
reynslu daganna og tilfinningum 
dreymandans. Sammannlegir og
gjarnan tengdir andlegri merkingu og 
lífstrú hvar sem er á heimskringlunni.
Tenging bæði inn á við og út á við.
Dýrmætur hluti mennskunnar og
raunveruleg gæði sem okkur ber 
að vernda og virða.
Að ógleymdu því að börn þurfa frið 
til þess að vaxa og dreyma -
og upplifa töfra draums og veru.


#
Meira >>
1  2  3  4  5  6  7  8  9  10  11  12  13  14  15  16  17  18  19  20  21  22  23  24  25  26  27  28  29  30  31  32  33  34  35  36  37  38  39  40  41  42  43  44  45  46  47  48  49  50  51  52  53  54  55  56  57  58  59  60  61  62  63  64  65  66  67  68  Næsta frétt 
© 2007 Draumasetriđ Skuggsjá Hönnun Design EuropA