Forsíđa   
 27.02.2024
 Inn í ljósiđ og 150 ára ártíđ dr. Bjargar C. Ţorláksson svefnfrćđings


Hvað gerirðu þegar þú sofnar?
Nú auðvitað inn í ljósið!
Og hvað gerirðu þar?
Hitti ljósálfana!

(Draumfrásögn 5 ára stúlku
á Akureyri. Draumasetrið 
Skuggsjá, 2010).



Gleðilegt er hve rannsóknum 
á heilbrigðum svefni sem og 
svefntruflunum og svefnvanda,
hefur fleygt fram hér á landi 
undanfarin ár og áratugi.
Ekki síst fyrir tilverknað
visindamanna við Háskóla Íslands,
Háskólans í Reykjavík og 
Landspítala/Borgarspítala og
nú síðast við Sjúkrahúsið á 
Akureyri-SAk.

Rannsóknirnar hafa einkum tengst
líkamsklukku og dægursveiflu sem
lífeðlisfræðingurinn dr. Björg Þorleifsdóttir
við Landspítala var lengi í forsvari fyrir;
kæfisvefni og áhrifum vélindabak-
flæðis á svefn barna og fullorðinna,
og tengslum svefnvanda, ofvirkni 
og ofþyngdar.

Tímamótarannsókn á svefnvanda 
barna hefur verið í gangi síðustu ár
við SAk í umsjón Hannesar Petersen,
prófessors og HNE-læknis og 
samstarfsfólks en einn þeirra, 
Magnús Ingi Birkisson, sérnámslæknir 
í barnalækningum, vann til verðlauna 
fyrir vísindalegan útdrátt rannsóknarinnar 
á alþjóðlegu ráðstefnunni World Sleep 
í Brasilíu, sl. haust.





Eftir tilkomu Svefnseturs við HR
árið 2020 og stórrar alþjóðlegrar
rannsóknar á svefni við skólann
sem nefnd er Svefnbyltingin, hefur
forsvarskonu rannsóknarinnar,
svefnfræðingnum, Ernu S. Arnardóttur,
og samstarfsfólki hennar heima og
erlendis, tekist að fá áheyrn alþjóða-
samfélagsins á mikilvægi svefns fyrir 
lýðheilsu. Hefur Svefnbyltingin hlotið
hæsta rannsóknarstyrk sem komið
hefur til Íslands frá Rammaáætlun
ESB, eða um tvo og hálfan milljarð kr.

Þá er ótalið merkilegt frumkvöðlastarf 
svefnfræðingsins Erlu Björnsdóttur,
sálfræðidoktors. Hún hefur tekið í
notkun nýstárlega nálgun á Netinu
með vefsíðu sinni www.betrisvefn.is
til þess að fræða um svefn og 
svefnvanda barna og fullorðinna 
ásamt því að veita hagnýtar 
leiðbeiningar, bjargráð og meðferð 
í því skyni að laga svefn og bæta,
vinna með daglega líðan, 
svefnvenjur og svefnumhverfi.





Þegar rýnt er í sögu svefnfræða
og svefnrannsókna hér á landi, 
er sagan þó mun lengri en að ofan 
er tæpt á. Hið merkilega kemur í ljós:
fyrsti íslenski kvendoktor okkar, var 
sálfræðingurinn, Björg C. Þorláksson,
(1874-1934), sem gerði svefn að 
höfuðviðfangsefni starfsferils síns
og vísindaiðkunar. 
En Björg fagnaði 150 ára ártíð 
sinni þann 30. janúar sl.
Hún lét sig lífeðlisfræði svefnsins 
mest varða en líka margslungin
tengsl svefns og drauma og var 
vel að sér í fræðum helstu 
draumfræðinga samtíma hennar, 
þeirra Sigmund Freud, Carl C. Jung, ofl.

Björg var fjölhæf og skáldmælt.
Eftirfarandi ljóð hennar, minnir
á nauðsyn barna og fullorðinna
fyrir ljósið í lífinu, von og trú:



Stafar sund,
glitar grund
geisli úr sólar heimi.
Gleður lund,
græðir und
geisli úr andans heimi.


(úr Ljóðmæli. Reykjavík, 1934,
Ísafoldarprentsmiðja).



#
Meira >>
 01.01.2024
 Glóey sendir geisla frá upphimni og úlfaldinn og nálaraugađ



Dögun nýs árs 2024 hefur risið
og glóey sendir geisla sína 
frá upphimni. Það birtir hægt
og hægt og sólin--glóey--,
gleðinnar móðir, hækkar á lofti.
Já, hænufetið er býsna drjúgt.




Megi nýja árið færa heimsbyggð
langþráðan frið frá stríðsböli og 
illvirkjum misviturra manna.
Heimsbyggð sem er í sárri þörf
fyrir góða leiðtoga--mannvini--
og sem illu heilli er víða stjórnað
af hættulegum siðblindingjum.
Okkur virðist vanhaga um úrræði,
vitrænar og lagalegar lausnir, 
tólin til að bregðast við hryllingnum.
En þessi sjokkþerapía sem valdhafar
beita víða, mun gefa af sér andsvar.
Megi mannleg snjallhugsun, elska 
og elja gefa af sér rétta viðbragðið
og snúa heimi af heljarbraut.




Hér heima er stóra verkefnið 
að vinna að knýjandi lausnum 
á mörgum sviðum samfélagsins,
ekki síst hvað varðar fátækt barna.
Skammarlegt að um 10 þúsund
börn búi í gjöfulu landi við fátækt.

Það að kyrja eins og einhverja 
möntru að þetta eða hitt séu
áskoranir, leysir ekki verkefnin 
í sjálfu sér. 
Ekki frekar en tvísýna stöðuna í 
eldvirknikerfum á Reykjanesi 
og öryggisleysi íbúa þar og víðar 
á landinu í hamförum náttúrunnar
svo og örmögnun hjálparliða.
Hvar er hjálpin hjálparans, er
stundum haft að orði.
Fleiri hendur þarf á dekk og nú þarf
að forgangsraða fjármunum af mun
meira raunsæi en verið hefur.




Menningar- og framfarastofnun
Sameinuðu þjóðanna,
UNESCO, tileinkar nýja árið 
ákveðnum bústofni: hófsömum, 
tryggum og harðgerum dýrum af 
kamelætt/camelids. Dæmi eru
úflaldar og kameldýr, gjarnan 
kölluð skip eyðimerkurinnar.
Hið gleðilega er að á um
tveim áratugum hafa þessi
þrautseigu dýr náð að nær 
tvöfalda fjölda sinn í Afríku 
og Asíu og telur stofninn 
nú um 39 milljónir.

Önnur dýr af kamelætt, eru 
lamadýrin og dýr þeim skyld, 
s.s. apakkadýr, guanadýr 
og vikjánadýr.
Þessi bústofn eyðimarka og 
hálenda, hefur reynst uppistaðan 
í menningu og lífsafkomu 
þjóða og þjóðarbrota víða 
um heim, líkt og kindur, 
nautgripir og hestar hér á 
Norðurhjara.
Gefa af sér mjólk, kjöt, ull,
klæði og skæði, og sum bera
bæði fólk og vörur á milli 
staða og samfélaga. 
Traustir reiðskjótar, bæði 
úlfaldar og kameldýr sem ekki 
skyldi að hæðast. Stundum 
hent á lofti að þessir meinlausu
grasbítar hafi verið búnir til 
úr afgöngum Almættisins!



Verum minnug hógværðar
og þjónandi elju og elsku. 
Segir ekki á helgri bók vorri, 
Markús 10: 25:

auðveldara er úlfalda 
að fara í gegnum nálaraugað 
en auðmanni að komast inn 
í Guðsríki.




#


Meira >>
 31.12.2023
 Ţráin eftir merkingu og sannleika í falsheimi


Nú kveðjum við árið sem er að líða.
Það hefur einkennst af öfgum í náttúru
og loftslagi og stríðsrekstri í mannheimi. 
Engu er eirt.
Búið að færa öll eðlileg mörk til og storka
heilbrigðri siðvitund: brjóta alla sáttmála.

Þá er og ljóst, að ein mesta hættan 
sem steðjar að mennsku og mildi manna 
og samfélaga á milli, er fals og lygi; 
við látum bæði glepjast og blekkjast.
Okkur skákað til eins og hverjum 
öðrum peðum á taflborði hættulegra 
og lúmskra afla, oft á tíðum án þess 
að vita hverjir raunverulegir 
leikstjórnendur eru.

Miðlun upplýsinga fyrir tilstilli æ
þróaðri tækni, til góðs en líka ills:

upplýsingaóreiða, rógur og álygar; 
meðvitaðar falsfréttir; ófrægingar 
til mannorðsmissis; ljúgvitni og
meingjörð; ásetningur til skaða: 
meinfréttir og djúpfalsanir gervigreindar; 
til marks um öfugþróunina. 
Falsheimur.



Eldhugsun 
hvað dvelur þig?



Svo kveður þjóðskáldið Hannes 
Pétursson, (1931-  ), í ljóði sínu
Stund einskis, stund alls,
í bókinni Stund og staðir frá árinu 
1962 og sem Helgafell gaf út.
Endurútgefin árið 1991.




Vonin er lífseig eins og dæmin 
sanna og langt frá því að vera
öll úti. 
Og ef til vill verður þrá okkar eftir 
raunverulegri merkingu og 
merkingarbærri reynslu, okkur 
til bjargar í heimi hégómans 
og faguryrða falsins í hvaða mynd 
sem þetta kann að birtast.
Þráin eftir merkingu og sannleika.



Brenndu til ösku
þetta aðsetur lyginnar
þetta hreiður hégómans.



Munum að við eigum rödd og tungu.
Og gleymum ekki að undrast.

Tíminn er viðsjár nú um stundir
en tíminn rís nú samt nýr, dag hvern.
Undarleg er dögunin:



Undarleg:
tími merktur tvídrægum vilja og ugg
mettur af ysta myrkri

og þó svo göfugur
þó svo fagur
og þó svo nýr.




Senn dagar af nýju ári.
Hugheil þökk fyrir það gamla.


#

Meira >>
 24.12.2023
 Barnahátíđin mest: gleđilegar jólatíđir



Barnahátíðin mest gengur í garð.

Laðar fram sælar bernskuminningar
barnsins í okkur öllum en minnir um 
leið á að auðsýna mildi og mennsku 
og á skyldur okkar við blessuð börnin
sem eru að vaxa úr grasi.




Síðan fæddi hún fagran son
og í jötu lagði hann.
Allt var undarlegt kringum þau.
Ný stjarna á himni brann
og smám saman myrkrið fór
en þá birtist englakór
sem knékraup barninu ungu.
Og allsstaðar
svo heiðbjart var.
Englarnir sungu.



Það var himnesk englafjöld
þetta aðfangadagskvöld.
Ný hátíð var runnin upp
það var komin jólanótt.
Síðan er hver jólanótt
hvert ár barnahátíðin mest
la la la la barnahátíðin mest.



(Úr Aðfangadagskvöld;
Þorsteinn Eggertsson, 1942- ).




Gleðilegar jólatíðir nær og fjær!


#
Meira >>
1  2  3  4  5  6  7  8  9  10  11  12  13  14  15  16  17  18  19  20  21  22  23  24  25  26  27  28  29  30  31  32  33  34  35  36  37  38  39  40  41  42  43  44  45  46  47  48  49  50  51  52  53  54  55  56  57  58  59  60  61  62  63  64  65  66  Næsta frétt 
© 2007 Draumasetriđ Skuggsjá Hönnun Design EuropA