Forsíđa   
 31.12.2024
 Heilög sólin loftiđ prýđir viđ áramót; heilaroti og heilandi náttúra



Nú hnígur rás tímans
senn í aldanna skaut
og árið 2024 kveður.

Ár sem einkennst hefur
af ótrúlegum sviptingum
bæði á innlendum sem
erlendum vettvangi.
Og uppgangi stækkandi
hóps mannkynshrotta
um víða veröld þar sem
almennir borgarar og börn
eru álitin sjálfsagður
fórnarkostnaður.

Þróunin virðist því miður
víða vera í átt til
fasisma og aukins trúar-
og pólitísks ofstækis.
Rétttrúnaður og bókstafs-
hyggja inntak daglegs lífs.
Gervigreindin í höndum
slíkra afla, er óhugnanleg
tilhugsun, jafnvel staðreynd.
Nema hún fari að herma
eftir yfirvaldinu og taki
sjálf yfir...





En óbilandi seigla í krafti
réttætis og sannleika, trúar
á mildi og mennsku, sigrar
um síðir, eins og dæmin 
sanna. Hér heima er m.a.
brýnt að ráðast í uppfærslu 
áratuga gamalla laga 
í samræmi við nútíma-
skilning á lýðréttindum 
og verndun almannahags
og náttúru.
Úrelt, gömul lög eiga ekki
að vera stjórntæki yfirvalda.
Alþingi er jú fyrst og fremst
löggjafarsamkunda.




Vonir og draumar
eru nátengd og fela í sér
fræ nýrrar sköpunar og
lausna ef við gefum þeim
rými í daglegu lífi. Gefa
okkur sólarsýn:




Þegar að fögur heims um hlíðir
heilög sólin loftið prýðir,
lifandi hauður, vötn og víðir,
voldug er hennar sýn,
      þá hún vermir, hún skín.


(Bjarni Gissurarson. 
Um samlíking sólar.17. öld).





Veganestið út í nýjan dag,
er að skerpa meðvitund
og halda vöku okkar í
öllu amstrinu, ná að
vera stjórnendur í eigin lífi.
Láta ekki endalaust áreiti 
misgóðrar fjölmiðlunar
og ofurvald neysluhyggju,
yfirtaka daglegt líf og
svipta okkur sjálfræði.

Brain rot var orð ársins 
hjá Oxford University Press
og ekki að undra.
Heilaroti...




Náttúran lætur ekki að sér
hæða frekar en fyrri daginn
og heldur sína rás. Birtir
líknandi leyndardóma þegar
við gefum henni gætur.

Nú hefur t.a.m. verið sýnt
fram á að sú athöfn
að faðma tré, tree-hugging
fara í skógarbað, leysir úr
læðingi heilandi efnaskipti,
bæði fyrir tré og menn.


Verum minnug orða
heimspekingsins og 
ameríska lífskúnstnersins,
Henri David Thoreau,
(1817-1862), sem ritaði í
Walden, (Life in the Woods),
árið 1854:



Í villtri náttúrunni er fjöregg
heimsins falið.



(Thoreau er talinn orðasmiðurinn
að baki brain rot sem hann notaði 
í Walden--heilaroti--og tók þá 
hliðstæðu af potato rot).




#









Meira >>
 24.12.2024
 Gleđileg jól: hún vermir, hún skín og hýrt gleđur mann



Senn ganga heilög jól
i garð: hátíð ljóssins.
Hækkandi sól fagnað.
Já; hún er þarna þó
veður gerist válynd og
við eygjum hana ekki
á stundum.
Lampinn sem stöðugt 
logar á þó hulinn geti 
verið sjónum.
Minnir á orð Litla prinsins:


það mikilvægasta er
ósýnilegt augunum.


Eins og hulin sólin,
eru hin raunverulegu 
verðmæti þarna nú samt.




Með hæstu virðing
herrans lýðir
horfi á lampa þann.
Hún vermir, hún skín
og hýrt gleður mann.


(Bjarni Gissurarson. 
Samlíking sólar.17. öld).



Gleðileg jól og góða drauma
nær og fjær!
Draumur um frið á Jörð.


#
Meira >>
 20.12.2024
 Sólris í Vatnsdal og lengsta nótt ársins - Vetrarsólhvörf



Tignarlegt var að sjá sólina 
brjótast fram úr skýjahulunni
yfir Vatnsdalnum þegar
áð var í Sveinslundi upp
úr hádeginu á suðurleið.
Þingeyrar kúrandi í
skammdegiskyrrðinni.


Sólris varð klukkan11.33
í morgun og sólsetur varð
svo klukkan15.17.
Framundan er lengsta nótt
ársins--gjarnan talin mikil
draumanótt--og stystur dagur 
á sólhvörfum á morgun
klukkan 9.21.

Hænufetið er drjúgt þegar
sólin, eftir að standa kyrr
og hverfast síðan um
sjálfa sig á Vetrarsólhvörfum
morgundagsins, tekur 
að hjóla ofar á himinbaug.





Hæglátt streymi tengir 
okkur við innri mann,
aðra menn, og lífið sjálft.
Í slíku hæglæti náum
við dýpra - inn í eigin
veru og dulúð sköpunar.
Við sjáum skírar og
finnum upphafningu
vitundarinnar í vöku
jafnt sem svefni þar
sem draumarnir eru
ljósir; núvitund eykst 
svo og meðvitund um
að vera að dreyma
í skírdreymisflæði.

Lengi væntir vonin um 
betri tíð og bættan 
almannahag.
Við getum breytt erfiðum
og óttavekjandi draumum
í mildari og betri upplifanir.
Og tekist á við armæðu 
daganna með nýrri hugsun.
Náum að sjá nýja kosti
í vöku sem svefni;
eflumst að kjarki og þor.
Erum ekki ein.





Munum að anda og vera
til; hylla landið eins og
Jóhannes úr Kötlum 
nefnir í ljóði sínu
Í guðsfriði frá 1970:




þá verða öll orð tilgangslaus
- þá er nóg að anda

og finna til
og undrast

Maðurinn í landinu
landið í manninum
- það er friður guðs.




#



Meira >>
 16.11.2024
 Landiđ sem sál vorri var fengiđ til fylgdar - og skírir draumar



Á fullu tungli gærdagsins,
svokölluðum ofurmána,
(frostmána; sorgarmána,
líkt og Indíánar BNA 
eða Keltar nefndu það),
snjóaði drjúgt hér nyrðra.
Og nú á Degi íslenskrar tungu,
hvílir snjóbreiða hvít og hrein,
yfir öllu. Fyrsti alvöru snjór
þessa vetrar. Kannski við
sjáum Norðurljós og stjörnur 
við frostmarkið...



Skírdreymi er einn flokkur
drauma sem nú er verið
að rannsaka enn frekar.
Hreinn tærleiki náttúrunnar
eða skírleiki nú um stundir,
á sér samsvörun í draumum
næturinnar þegar dreymandi
upplifir sig að vera skír eða 
vitandi um að vera að dreyma.
Getur horft á drauminn og
velt fyrir sér eða jafnvel breytt
framvindu hans. Hafa sumir 
náð að breyta erfiðum draumum 
og draga úr ógninni frá þeim,
með því að skoða nýjar leiðir
til þess að vinna með hættuna
í draumi/um í slíku ástandi.
Ennfremur hefur bæði lista-
og vísindafólk talað um
skapandi flæði í skírdreymi
sem þeim tekst svo að fanga
til nýrra verka í vökunni.




Alþingiskosningar í nánd; 
fyrir margt löngu hefði þó verið 
hægt að færa margt til betra horfs
með endurskoðun og uppfærslu 
laga í takt við nútíma lýðréttindi,
s.s. varðandi vaxtalög og kafla
um okur í gömlum refsilögum
frá því í kringum 1960.

Eða skoða möguleikana á
að festa gengi krónu við annan
og stöndugri gjaldmiðil án þess
að þurfa að ganga í einhver sér
bandalög sem einkum eru sniðin
fyrir ríki á meginlandi Evrópu.

Kanadabúar buðu Íslendingum
t.d. aðstoð í Hruninu en á þeim 
tíma var kanadadollar talinn einn
styrkasti gjaldmiðill í heimi. 
Hvort sá möguleiki var tekinn 
til skoðunar, er til efs.

Löngum hefur verið bent á 
að taka þurfi tiltekna kafla 
stjórnarskrár til endurskoðunar
eins og forsetakaflann en
látið reka á reiðanum svo og 
margt varðandi kosningar 
eins og atkvæðamagn á bak 
við hvern þingmann.

Í þessu ljósi m.a. er engin 
furða að margir hafi litla trú
á raunhæfum beytingum 
sem skapað gætu eðlileg
og streituminni skilyrði til
heilbrigðs lífs og búsetu 
í landinu.




Landið okkar gefur þó skíra
von um góða hluti þrátt fyrir 
allt. Mörg eru góðu gæðin.
Megum ekki gleyma að 
margt er bæði vel gert hér
og til hagsbóta fyrir alla.
Munum eftir skyldum okkar
við landið og skírum vonar-
draumum í svefni sem vöku:
að halda tryggð við landið 
sem okkur hefur verið fengið 
til fylgdar.
Auðsýna mildi og elskusemi 
í mannlegu samfélagi:





Ó dunandi eyja
sem á dögum sköpunarinnar!
ennþá í smiðju
elds, kulda og vatns
engan stað á jörðu
eigum vér dýrari

því þetta land
var sál vorri fengið til fylgdar.



(Hannes Pétursson. Óður um Ísland.
Heimkoma. Helgafell,1974).


#










Meira >>
1  2  3  4  5  6  7  8  9  10  11  12  13  14  15  16  17  18  19  20  21  22  23  24  25  26  27  28  29  30  31  32  33  34  35  36  37  38  39  40  41  42  43  44  45  46  47  48  49  50  51  52  53  54  55  56  57  58  59  60  61  62  63  64  65  66  67  68  69  Næsta frétt 
© 2007 Draumasetriđ Skuggsjá Hönnun Design EuropA