Rannsóknir
Í nýlegri Gallup könnun Skuggsjár kemur fram að 72 % Íslendinga á aldrinum 18 til 85 ára telja að draumar hafi merkingu og er því ljóst að Íslendingar eru trúir þjóðararfinum, en saga og bókmenntir, goðsagnir og þjóðarvitund bera draumaáhuga þjóðarinnar að fornu og nýju glöggt vitni. Alls var úrtakið 1200 manns og svarhlutfall 67.5% sem þykir gott. Spurt var um drauma, svefnvenjur og heilsufar og ýmislegt um andleg málefni út frá aldri, kyni, búsetu, menntun og efnahag í spurningakönnun sem dr. Björg Bjarnadóttir, sálfræðingur, hannaði og Gallup hringdi út á vormánuðum 2003. Er þetta eina heildstæða könnunin um drauma sem gerð hefur verið hérlendis árum saman. Jafnframt hefur Skuggsjá safnað draumum frá fólki á öllum aldri víðs vegar á landinu í stórri eigindlegri könnun sem enn stendur yfir.
Lesa má um þessar rannsóknir Skuggsjár í bókinni Draumalandið, draumar Íslendinga fyrr og nú frá árinu 2003. Einnig má sjá helstu niðurstöður úr rannsóknum Skuggsjár hér á vefsetrinu undir tenglinum Myndir - draumar í máli og mynd.
Draumar í fræðum Íslendinga fyrr og nú - þjóðfræðileg nálgun
Íslenskar rannsóknir á svefni og draumum fóru að koma fram fljótt upp úr aldamótunum 1900. Snemma var farið að tala um draumgáfu sem almenna vitrunargáfu. „Loksins er hin fjórða vitrunargáfa og eru það draumarnir. Sú gáfa er án efa flestum mönnum gefin og því mun mega kalla hana almenna.“ (Úr Þjóðsögum Jóns Árnasonar). Segja má að þjóðfræðileg nálgun hafi verið stunduð lengi með beinum og óbeinum hætti meðal leikra og lærðra og sér hennar stað í athugun á æviskrám, sendibréfum, fornbókmenntum, þjóðsögum og draumasöfnum. Á fyrstu árum 20. aldar fara draumasöfn að koma út í einhverjum mæli. Er þar helstan að nefna fjölfræðinginn og kennarann Brynjúlf Jónsson frá Minna-Núpi sem jafnframt lagði grunninn að nútíma íslenskri fornleifafræði en hann safnaði draumum og dulrænum frásögnum víða að af landinu og gaf út. Hafa síðar verið gefnar út fjölmargar slíkar bækur og notið mikilla vinsælda meðal þjóðarinnar. Um miðja öldina kom út hin víðfræga bók W. O. Stevens Merkir draumar í íslenskri þýðingu og gefur þar að líta merkilegt safn drauma úr hinum vestræna heimi, hefur hún óefað haft mikil áhrif hérlendis. Þeir fræðimenn sem skrifað hafa hvað mest um íslenska þjóðhætti hafa heldur ekki gleymt draumunum eins og sést á skrifum Jónasar Jónassonar frá Hrafnagili. Þórður Tómasson safnvörður í Skógum hefur safnað mörgum merkum draumum af Suðurlandi og birt í bókum sínum um ýmsa þjóðhætti og í tímaritinu Goðasteini. Þá hefur Þjóðháttadeild Þjóðminjasafnsins safnað ýmsum alþýðlegum fróðleik um andleg mál allt frá árinu 1978 og er nú til gott safn þar um drauma. Nýlegar bækur um íslenska þjóðfræði hafa gert draumum skil s.s. ritröðin Íslensk Þjóðmenning. Þá hafa bækur um draumaráðningar verið fjölmargar og sívinsælar. Í fjölmiðlum síðari tíma hafa birst aðgengilegir greinarstúfar um drauma og má þar nefna greinar Kristjáns Frímanns og Gunnars Hersveins heimspekings og var sá fyrrnefndi á tímabili einnig með þætti í útvarpi tileinkaða draumum. Draumar í fræðum Íslendinga fyrr og nú - Vísindalegar draumrannsóknir Þar ber fyrst að telja elstu sálfræðirannsókn hérlendis sem er frá árinu 1915 og var gerð á draumspeki berdreymins manns á Langanesi, Drauma-Jóa svokölluðum. Þessi rannsókn var gerð af Ágústi H. Bjarnasyni prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands í samvinnu við kollega hans Guðmund Finnbogason. Rannsóknin fór þannig fram að talað var við Drauma-Jóa sjálfan og fylgst með honum í svefni en einnig var talað við fólk sem leitað hafði til hans um úrlausnir á ýmsum vanda. Var hægt að leggja spurningar fyrir Jóa meðan hann svaf og svaraði hann þá strax eða sagði drauma sína næsta morgun og kom með lausnirnar. Vottuðu þeir sem leituðu til Jóa það skriflega sem spurt var um og þá hvernig draumurinn kom fram. Lífeðlisfræðingurinn dr. Björg Þorláksson skrifaði mjög vandaða og yfirgripsmikla bók um svefn og drauma sem út kom árið 1926. Í bókinni segir Björg frá fræðilegum kenningum og vísindalegum rannsóknum á svefni og draumum á Vesturlöndum á fyrstu áratugum 20. aldar og setur einnig fram athuganir sínar á draumum Íslendinga. Rannsóknir hafa lengst af verið nátengdar störfum vísindamanna við Háskóla Íslands en einnig meðferðarstörfum sálfræðinga, félagsráðgjafa og geðlækna við sjúkrahúsin og rannsóknum þar á svefni og draumum. Rannsóknardeild um svefn og drauma á Landspítala háskólasjúkrahúsi er gott dæmi þar um. Erlendur Haraldsson prófessor í sálfræði við Háskóla Íslands gerði stóra rannsókn á ýmsum viðhorfum Íslendinga til andlegra mála þ.m.t. berdreymis og gaf út árið 1978. Þar kemur fram að 36% Íslendinga hafa reynslu sjálfir af berdreymi og yfir 70% trúa á það og að yfir 70% trúa á líf eftir dauðann og á skyggnigáfu. Þessar tölur eru mjög háar miðað við sambærilegar rannsóknir erlendis og benda til mikils áhuga Íslendinga á andlegum málum og trúar á andlega hæfileika.
|