Veðurfegurð mikil á sólbjörtum fimmtudegi
við ysta haf þann 19. mars en heyrst hafði
til vorboðans sem kveður burt leiðindin,
lóunnar, nokkru fyrr: dýrðin, dýrðin.
Þjóðtrúin kennir að komi lóan snemma og
syngi dýrðin, dýrðin, sé von á góðu vori
sem komi snemma. Er það óskandi
eftir harðan og langan illviðravetur,
að lóan kveði burt snjóinn.
Nóttina á eftir tóku draumblá vorjafndægur
við þegar tími og rúm heimsálfa á milli mættust
í stafrænum heimi Internets og tölvupósta:
nútíma könnuðir í alheimssamfélaginu
sáu þann kost vænstan að hverfa á braut til
heimkynnanna í norðri, og nú þurfti að afbóka með
hraði, bóka nýtt og endurhugsa sinn gang.
Það þurfti að henda tölvupóstum á milli heimsálfa
til þess að græja svo skyndilega heimferð.
Klukkan var nákvæmlega 3.50 þessa nótt jafndægra
í norðrinu og að nálgast hádegi í Singapúr hvar
íslenski könnuðurinn var staddur að komast í flug til
Evrópu og þaðan til síns heima á Ísalandi, beint í sóttkví.
Hið fágæta og friðaða hreisturdýr--pangolin--og mennsk
ásókn og græðgi sem engu eira, hvorki friðuðu
né öðru, hafði tekið völdin, og kórónuveiran tekin að
geisa án afláts, trúlega komin úr friðuðu hreisturdýri
sem matreitt hafði verið, keyptu á markaði, eða nýtt
í því skyni að búa til læknislyf; vonandi nær veiran ekki
að stökkbreytast til frekari versnunar...
Hættulegustu veirur samtímans koma úr dýrum
til manna, eða svo er sagt, eins og ebólan sem
stökk úr leðurblöku í menn og stökkbreyttist síðan
í enn hættulegri og banvænni legg...
(Sýklahernaður er ein sviðsmyndin, sem Vísindavefur
Háskóla Íslands, dregur upp af tilurð ebólaveirunnar).
Raunar er möguleiki, að það sem sé uppi á teningnum
með hreisturdýrið og upphaflegu smitleiðina í mannfólkið,
sé að dýrið kunni að hafa borið kórónuveiru úr úrgangi,
sem fallið hefur til jarðar frá leðublöku, og sem hreisturdýr
fékk upp í sig þegar það rótaði í jarðvegi eftir æti. Og að
þannig hafi veiran komist í vefi dýrsins, sem síðan var
matreitt og borðað, eða skeljar þess nýttar til lækninga.
Samt vakna margar spurningar eins og af hverju ætti það
að gerast einmitt nú þar sem hreisturdýr til átu er jú ekki
nýtt af nálinni? Breyting á erfðaefni--stökkbreytt afbrigði
kórónaveiru í nútímanum--er einn svarmöguleika.
En hvað vitum við svo sem um dýrin, innra líf þeirra
og hegðun í sinni búbblu? Hvar halda smáfuglarnir
sig--staðfuglarnir--hundruðum saman, á köldum
vetrum þegar þeir sjást ekki heima við bæ, eða
í görðum landsmanna? Hvað vitum við um lóuna?
Þjóðtrúin segir að lóan kunni nefnilega að dvelja í
margra mánaða dvala með vetursetu hér í skjólum
og með birkikvist eða víðisbút í goggi og síðan mæta til
leiks að vori. Snilld! Já, þessi veðurglöggi vaðfugl veit
lengra nefi sínu hvort sem lóan fer, flýgur langflugið til
Bretlandseyja til vetrardvalar og flýgur síðan að vori
um heiðloftin blá til landsins kalda, eða þykist fara
en er bara allan tímann hér heima í felum...
En, já, nú eru villt dýr sem áður voru étin af gráðugu
mannfólki, alfriðuð í Kína eftir þessa hræðilegu og
hættulegu útbreiðslu banvænnar kórónuveiru,
Covid-19, sem er að gjörbreyta kerfum manna
um veröld víða.
Hver hefði séð þessi geigvænlegu umskipti
fyrir á örskotsstund nema Náttúran sjálf?
Heimurinn er gjörbreyttur og nú skiptir traust,
tiltrú á mennsku og mildi og samstaða
innan þjóða og milli þjóða, réttar upplýsingar og
vísindaleg þekking, öllu, til þess að takast
á við það sameiginlega verkefni að hindra frekari
útbreiðslu og þróa bóluefni, bjarga mannslífum.
En hvað verður ofaná, samvinna eða sundrung,
mun tíminn leiða fram. Vonum það besta.
Eitt er ljóst, loftmengun hefur minnkað snarlega
nú þegar dregur svo um munar úr ferðalögum
á lofti og láði. Og fólk þarf að búa við sjálft sig
og aðra, sama hvað.
Margir tala um aukið draumflæði nú þegar það er
nær sjálfu sér og sínum nánustu, er meira heima
og hefur þurft að hægja á sér.
Segir svo hjá meistara Konfúsíusi:
Hvert sem leið okkar liggur,
ferðumst við með okkur sjálf.
#
|