Forsíđa   
 25.10.2021
 Fuglar sem veđurvitar: metfé og vćngjaperla í vetrarbyrjun...


Á Veturnóttum þetta haustið,
21-22. október--ein helsta hátíðin
í gamla norræna tímatalinu--, var
líkt og fuglarnir í garðinum fyndu
sterkt á sér nýju árstíðina framundan.
Hér áður var talið að það vísaði á
harðan vetur ef þeir hópuðust saman
á jörðu niðri við hýbýli manna.
Í þetta sinn gerðist það þó ekki,
breytingin frá hausti til vetrar var
án stórra átaka en fuglarnir áttu það
til að fljúga á gluggana sem sumir
telja að geti vísað á krapavetur.
Nútímaskýringin sú að þeir séu
blindfullir af berjunum...

Fuglar voru og eru taldir glöggir veðurvitar
en líka gefandi samferðafélagar eins og
sjá má í umfjöllunum í ritum fyrr og nú.
Sjá m.a. nýlega og merka umfjöllun í bók 
séra Sigurðar Ægissonar, Íslensku fuglarnir
og Þjóðtrúin, sem út kom hjá bókaútgáfunni
Hólum fyrir jólin 2020, og sem þessi pistill
styðst við að hluta til.
Guðmundur Friðjónsson, skáld og bóndi
á Sandi í Aðaldal--einstakri fuglaparadís--,
skrifaði fagurlega um Sólskríkjuna,
öðru nafni Snjótittlinginn, í grein í
Sunnanfara 1902:



Eg hef horft á þig liðlangan vordaginn
árum saman og veitt þér athygli
sumar og vetur síðan eg kom til vits og ára.
Og alt af ertu metfé mitt og vængjaperla.



Þessi smávaxni spörfugl er harðgerðari en
ætla mætti og með ólíkindum hvernig
honum tekst að lifa af harðan, íslenskan vetur.
Ljóst er að nú dvelja ákveðnir hópar sumra
fuglategunda hér allt árið um kring.
Má þar nefna sólskríkjuna, skógarþröstinn,
staran, maríuerluna og auðnutittlinginn.

Þetta haustið voru smáfuglarnir í garðinum
eins og litlar tifandi klukkur í kappi við
tímann að klára síðustu reyniberin
áður en vetraði: á Veturnóttum tók
reyniviðurinn að fella laufið og á fyrsta
Vetrardegi, laugardaginn 23. október,
voru nær öll ber horfin og flestir fuglar
flognir á braut en nokkur pör þó eftir.
Trúlega hyggja þau á vetursetu að vanda...






Guðmundur Finnbogason, heimspekingur
og einn fumkvöðull íslenskra sálarfræða,
(1873-1944), ritaði grein í Eimreiðina 1922,
sem hann nefndi Veðurspár dýranna.
Þar talar hann um að í sumum löndum
séu fuglar ekki síður veðurvitar alþýðu
manna en hér og sumt sömu fuglarnir
og hjá okkur, t.d. þrösturinn, lóan, spóinn,
hrafninn.

Margt er líkt með eftirhermun í atferli
dýrategunda, manna þar á meðal, en
um það fyrirbæri fjallaði Guðmundur
í doktorsritgerð sinni frá 1911 þar sem
hann gerir hugtakinu samúðarskilningur
góð skil. Okkur hættir ósjálfrátt til þess
að líkja eftir fasi og viðmóti viðmælanda
okkar, brosi hann, brosum við, osfrv.
Skynjun okkar er ekki síður þáttur í
atferli okkar en hugsun, minni og
tifinningar; skynferlun oft ósjálfráð.
Í ævisögu Guðmundar, ritaðri
af Jörgen L. Pind, prófessor í sálfræði,
árið 2006, Frá sál til sálar, má sjá
merka umfjöllun um samúðarskilning.
Spurningar vakna um hvar við
erum stödd með slíkan skilning
í rétthugsun og sefjunartilburðum
á meðal fjölmiðla og samskiptamiðla
nú um stundir?




Guðmundur Finnbogason var forgöngumaður
ásamt Ágústi H. Bjarnasyni, sálfræðingi
og háskólarektor, (1875-1952), að fyrstu
eiginlegu sálfræðirannsókninni, sem var
á sviði drauma og draumgáfu.
Þeir félagar rannsökuðu hæfileika
draumspaks manns á Langanesi,
sem kallaður var Drauma-Jói og
gáfu út á bók 1915. Jói gat séð
ýmislegt í svefni og sagt til um.
Þessi skyggnigáfa í svefni fylgdi
honum frá unga aldri. En Jói
hét fullu nafni Jóhannes Jónsson,
(1861-1943), og var frá Ásseli en
dvaldi frá unglingsaldri á Sauðanesi
á Langanesi, á því mæta prestsetri
hvar séra Jón Bessason, einstakur
drauma-og andans maður, sem
sá í annan heim, hafði búið og
þjónað rúmum tveim öldum fyrr.
En frá honum og séra Bessa,
syni hans, sem skráði sýnir
föður síns, eru aðstandendur
Skuggsjár komnir. Seinni lang-
feðgar tóku þátt í rannsókninni
á Drauma-Jóa með frásögnum
af draumgáfu Jóa.

Guðmundur var brautryðjandi í
skólamálum og lengi ritstjóri
Skírnis og eftir að háskólakennslu
lauk, gerðist hann landsbókavörður.
Hann þýddi m.a. ritverk efir helstu
hugsuði á sviði heimspeki og sálfræða
þess tíma, s.s. William James, sem
kallaður hefur verið faðir bandarískrar
sálfæði. En James ritaði margt merkilegt
um draumlíf okkar mannfólksins og hin
ýmsu stig vitundarinnar.




Margt er hægt að læra af smávinum
vorum, fuglunum, ef þeim er gaumur
gefinn. Og nú í vetrarbyrjun, er það ágæt
leið til að rækta samúð í garð manna
og málleysingja að sinna þeim og hlúa
vel að í vetur.

Jón Prímus, sá ágæti prestur undir Jökli,
minnir bæði Umba og söfnuðinn á
hvernig snjótittlingurinn vesalastur af
öllum hugdettum guðs,
stendur af sér verstu vetrarhörkur:




Hvað sem á dynur, snjótittlingurinn lifir af;
stórhríðarnar eru ekki fyrr um götur geingnar
en hann er orðinn sólskríkja.



(Halldór Laxness, 1902-1998;
úr Kristnihald undir jökli, útg. 1968).



#

 






Meira >>
 29.09.2021
 Ljúfir eru draumar í rökkursölum...



Haustið í allri sinni litadýrð er
mætt á svæðið: haustjafndægur
nýafstaðin; fullt tungl stuttu fyrr.
En hér áður var talað um sumar
frá um 20. maí til 20. september
og gjarnan miðað við jafndægur
á hausti en þau falla allajafna á
bilinu 21. til 23. september.
Nú líður tími fljótt til veturnátta
síðla októbermánaðar.
Magnaður tími genginn í garð;
gengur nú mörgum betur
að svífa í draumlönd inn
þegar rökkur færist yfir.





Svefn hefur farið úr skorðum hjá
mörgum í kófinu og þarf að gera
átak í að huga að svenfheilsu, ekki
síst hjá börnum og unglingum.
Fræða um svefn, kynna bjargráð
til þess að bæta svefn og leggja
áherslu á að unglingar þurfa mun
lengri svefn en þeir eru t.a.m. að fá.

Á sama tíma hefur kvíði aukist
hjá öllum aldurshópum en þekkt
er að kvíði speglast í draumlífinu.
Martraðarkenndum draumum
fjölgar og svefnórói eykst eins og
draumrannsóknir við Læknadeild
Harvard háskóla sýna m.a.
Víða á Vesturlöndum er nú
talið að fyrir kófið hafi um 4 af
hverjum 10 átt erfitt með svefn
en nú eru þeir um 6 af hverjum
10, að talið er. En til eru líka þeir
sem telja svefn sinn  hafa lagast í
kófinu og þeir hafi náð að endurmeta
lífsvenjur sínar til hins betra og
upplifa lækkað kvíðastig.





Ljóst er að ónógur svefn og/eða
svefntruflanir hafa heilmikil áhrif á
eðlilega og mikilvæga úrvinnslu
tilfinninga og hugarstarfs og geymd
í minni, og þar með á draumlífið.
Allt mikilvægt fyrir vöxt og þroska
heilbrigðs miðtaugakerfis og úthald
og aðlögun í daglegu lífi.

Fyrir utan það að draumar hafa
ákveðinn sess meðal þjóðarinnar
fyrr og nú bæði menningarlega
og félagslega.

Í Gallup könnun Skuggsjár frá 2003,
kom í ljós að 72% fólks á aldrinum
18 til 85 ára, taldi drauma hafa
merkingu fyrir sig í daglegu lífi,
vera mikilvæga fyrir þá sjálfa
og ekki bara eitthvert merkingar-
laust rugl. Úrtakið var 1200 manns
og tekið út frá aldri, kyni, búsetu
og efnahag. Svarhlutfall 67.5%
sem telst býsna gott.





Nú í haustbyrjun, lést ein fyrsta
atómskáldkona okkar Íslendinga,
seyðfirðingurinn Vilborg Dagbjartsdóttir,
kennari, þýðandi og barnabókahöfundur.
Talandi um haustið, farfuglana: skógar-
þrestina og reyniberin, þá segir hún
lítil börn með skólatöskur, koma með
haustið.

Sum ljóða Vilborgar koma á sinn
kyrrláta hátt inn á nóttina og
svefn og drauma eins og
segir í Næturljóði hennar:





Hve mjúklát er nóttin,
mildum höndum fer hún
um slaka hörpunnar strengi
og kveður þig í svefn.



Ljúfir eru draumar
í rökkursölum hennar
þar sem aldrei skíma
nær af dagsins ljósi.



Fölur tunglskinsbjarmi
lýsir inn um glugga
rétta fullan bikar
þjónustufúsar hendur.



(Vilborg Dagbjartsdóttir,
1930-2021).


#




Meira >>
 29.08.2021
 Draumar í Gísla sögu Súrssonar og örlögin: nú falla vötn öll til Dýrafjarđar. Og Blábankinn...


Höfuðdagurinn 29. ágúst ár hvert,
minnir okkur á hve örlögin geta
ýmist verið blíð eða óblíð en þann
dag er talið að Jóhannes skírari
hafi verið hálshöggvinn.


Margir fornkappar vorir féllu í
valinn af hendi óvildarmanna og
á stundum hreinna íllvirkja, hlutu
sinn skapadóm eins og í Gísla sögu
Súrssonar þar sem sagt er frá
örlögum kappans og síðar útlagans,
Gísla Súrssyni. Hann hafði sett
niður bú sitt að Hóli í Haukadal
í Dýrafirði undir tignarlegum Kaldbaki,
hæsta fjalli Vestfjarða, (988m),
krúnudjásni vestfirskra fjalla.

Hinn knái og hugvitssami Gísli,
duldist óvildarmönnum sínum víða
fyrir vestan, svo sem í Geirþjófsfirði
innst í Arnarfirði; á Barðaströnd og úti
í Breiðafjarðareyjum.

Í heimsmynd fornmanna var hefndarskyldan
heilög í frændgarði og fóstbræðralagi
og er hún sterkt minni í sögu Gísla.
Fræg eru orð eins helsta fjandmanns Gísla,
Barkar digra um Ingjaldsfíflið í Hergilsey,
sem Gísli þóttist vera til þess að villa um
fyrir óvinunum þannig að nú voru þau
tvö í eyjunni: enda deilist það
heldur víðara.





Gísli var draumamaður og sá ýmislegt
fyrir í draumum sínum og ræddi við
sína góðu konu, Auði Vésteinsdóttur,
sem líka var draumspök. Hann kvað
vísur um draumreynslu sína. Gísli átti
sér draumkonur tvær. Aðra hræddist
hann og voru svefnfarir oft harðar.
Iðulega óttaðist hann að falla í svefn
en hreystimennið, sem hann var,
gekkst við myrkfælni sinni.

Gísli hafði erfiðar svefnfarir næturnar
áður en lokaáhlaupið var gert á hann
á Einhamri í Geirþjófsfirði hvar hann
hné í valinn eftir frækilega vörn
með iðrin úti, sem hann hafði safnað
saman undir skyrtu sinni og bundið
fyrir með reipi og haldið áfram að berjast
hreystilega og drengilega til hinstu stundar.

Óhætt er að segja að Gísla saga
Súrssonar sé sú fornsagnanna, sem
einna besta grein geri fyrir draumum
og svefnförum. Er sagan um margt
borin uppi af trú Gísla á forspá
drauma sinna og eru lýsingar á
erfiðum svefnförum og draumsýnum
í samræmi við þekkta sammannlega
reynslu.


Gísli var vitur maður og draumamaður mikill
og berdreymur, segir í sögu hans.




Í Gísla sögu er sagt frá viðvörunar-
draumum, og að Gísli hafi eitt sinn látið
illa í svefni tvær nætur í röð. Hann tók
þessa draumboða sem forspár um
yfirvofandi hættu tengdri Vésteini,
fóstbróður sínum og mági. Áður hafði
Gísli  reynt að sjá til þess Vésteinn
yrði varaður við að koma í Haukadal.
Í eitt skiptið, hittu sendiboðar Gísla,
Véstein á Gemlufallsheiði, sem er heiðin
milli Önundarfjarðar um Bjarnardal
í Dýrafjörð. 

En Vésteinn lét kylfu ráða kasti,
lét skeika að sköpuðu og hélt
för sinni áfram þrátt fyrir viðvaranir.
Fór svo að hann náði í Haukadal en
var veginn þar í svefni.
Af hvers hendi eða hverra, er svo
stóra spurningin.
Eftir Vésteini er í þessu samhengi
höfð hin fleyga setning:
nú falla vötn öll til Dýrafjarðar.


Líkt og í náttúrunni þegar ár og lækir falla sína
leið niður brattann og ljúka ferð sinni til ósa,
er því eins farið með mannfólkið, öllu er afmörkuð
stund. Samkvæmt slíkri heimsmynd, fær enginn
umflúið sinn skapadóm.





Dýrafjörður geymir mörg djásnin, bæði í
náttúru og mannlífi. Eitt af því, sem einkennir
staðhætti, sögu og menningu, er magnaður
fjársjóður hafdjúpanna, lífsbjörg margra.
Á fyrri tíð voru margir útvegsbændur á þessum
slóðum, bæði í Haukadal og á Þingeyri þar sem
þorpsmyndun hófst snemma. Samskipti og
vöruskipti við útlönd voru umtalsverð, ekki
síst við Frakkland. Gjarnan var talað um
svokallaða Haukadalsfrönsku, mállýsku, sem
varð til á milli íslenskra og franskra sjómanna.



Nú er unnið að því að draga úr fólksfækkun og
efla nýsköpun og atvinnulíf á Vestfjörðum,
m. a. í Dýrafirði, í gegnum byggðaþróunar-
verkefni Byggðastofnunar, Brothættar byggðir.
VerkefnÞingeyrar nefnist Öll vötn til Dýrafjarðar
og leiddi til stofnunar Nýsköpunar og samfélags-
miðstöðvar á Þingeyri árið 2017, sem hlaut
nafnið Blábankinn.



Nýr bankastjóri Blábankans á Þingeyri er
Birta Bjargardóttir, vísinda-og menningarmiðlari
frá Bath háskóla á Bretlandi, en hún hefur
lengi komið að verkefnum Skuggsjár.
Hjartanlegar hamingjuóskir til Birtu með þetta
mjög svo þarfa og skemmtilega starf á Þingeyri!



Að ganga sinn llífsveg í takt við náttúruna
og eðlilega framvindu lífsins, krefst árvekni
á vegferðinni sem endranær.
Sé örlagabraut vor fyrirfram vörðuð,
- öll vötn falla til Dýrafjarðar -,
er óskandi að við höfum þó heilmikið
um það að segja hvernig við fetum hana.



#




Meira >>
 29.07.2021
 Ljósheimur Vatnajökuls og draumur og vera í Hoffelli


Í fagurri júlísól og alltumlykjandi
heiðríkju í hinu forna landnámi
Auðuns rauða við rætur Hoffellssjökuls
í Hornafirði, sem er einn skriðjökla
úr Vatnajökli, verður sáttin við landið
nálæg og kyrrðin áþreifanleg.
Vegurinn liggur frá jörðu til himins
og öfugt: Taó og skilin renna saman.
Draumur og vera verða eitt.

Áðurnefndur Auðunn reisti heiðið
hof á þessum magnaða stað og
hafði keypt sitt landnám í Hoffelli
af Hrollaugi Rögnvaldssyni,
landnámsmanni Hornafjarðar.





Laxness talaði um ljósheim, ljósheim
Vatnajökuls, sem gefur samspili ljóss,
himins, jökuls og vatns, nýja dýpt.
Síbreytilegur jökullinn og vatnið,
sem frá honum kemur og þessi
leikur ljóssins, minnir stöðugt á
undur sköpunarverksins sem okkur
ber að vernda og verja.





Merkar þjóðsögur og sagnir tengjast
Hoffellssjökli og Hoffellssfjöllum
og svæðinu öllu, sem Guðmundur
Jónsson bóndi á Hoffelli, safnaði
í byrjun 20. aldar. Þorsteinn M.
Jónsson á Akureyri ritstýrði verkinu,
sem Marteinn Skaftfells gaf út árið
1946 undir heitinu Skaftfellskar
þjóðsögur og sagnir. Skrudda
endurútgaf verkið árið 2009.

En í nábýli manns og jökuls hefur
skapast margvísleg þekking
leikra sem lærðra í gegnum árin
og saga og staðhættir órofa heild.
Einstakt dýra-, fugla-, og gróðurlíf
einkennir svæðið, sem er heimkynni
heimskautarefsins--the arctic fox--,
hreindýra og hagamúsa ofl. dýra;
fugla á borð við hrafna, grágæsir,
tjalda og músarindla, og fágætra
plantna á borð við bergsteinbrjót,
burkna, fléttur og skófir.





Hoffelssjökull er dæmi um þær miklu
breytingar sem orðið hafa víða á
náttúrunni í kjölfar veðuröfga og
hlýnunar og hefur hopað umtalsvert
á síðustu árum og áratugum.
Fáir íslenskir skriðjöklar hafa verið
jafnvel og lengi rannsakaðir og
hann, m.a. vegna hraðs skriðs,
einstaks vatnafars og síbreytilegrar
úrkomu.

Geitafellseldstöð er í Hoffellsjökli
og hefur merk jarðsaga jökulsins 
getið af sér steinategundir eins og
gabbró, silfurberg, líparít og jaspis.





Óhætt að segja að hægt sé að gleyma
sér í þessari fögru náttúruvin og
endurnýja sál og sinni í mystískum
ljósheimi Hoffellsjökuls - og láta sig dreyma.





#


Meira >>
Síđasta frétt  1  2  3  4  5  6  7  8  9  10  11  12  13  14  15  16  17  18  19  20  21  22  23  24  25  26  27  28  29  30  31  32  33  34  35  36  37  38  39  40  41  42  43  44  45  46  47  48  49  50  51  52  53  54  55  56  57  58  59  60  61  62  63  64  65  66  67  Næsta frétt 
© 2007 Draumasetriđ Skuggsjá Hönnun Design EuropA