Forsíđa   
 26.09.2022
 Jafndćgur og tré og haustlauf í ofviđri; skćr Júpíter á Norđurljósahimni og blessuđ börnin



Jafndægur á hausti runnu upp
sl. föstudag og nýtt tungl reis
á sunnudag. Mikið hamfararok
--raunar algjört ofviðri--skall á
í kjölfarið með einhverju mesta
lauffalli sem um getur á tveim
sólarhringum - og því miður
óheyrilegu tjóni víða á húsum,
mannvirkjum, innviðum, bifreiðum,
trjágróðri ofl. Þá sló rafmagni út
í klukkustundum talið, á stórum
hluta Norður- og Austurlands.

Komið að því að slíkt fárviðri með
vindstyrk á við 4. stigs fellibyli og
yfir 50m/s í verstu hviðunum,
sé tekið inn í Náttúruhamfara-
trygginu, ekki síður en flóð,
jarðskjálftar og eldgos.
En landsmenn greiða árlega
lögboðna brunatrygginu og
rennur ákveðið hlutfall hennar
síðan inn í Náttúruhamfara-
tryggingu Íslands.
Allt tal um loftslagsbreytingar
og veðurofsa þeim tengdum,
er ekki í tengingu við það sem
raunverulega er að gerast
í daglegu lífi þjóðar.





Það birti á ný og lyngdi og upp rann
einn fegursti dagur þessa hausts
hér í Eyjafirðinum, sólbjartur
frá morgni til kvölds.
Kvakandi garðfuglar iðnir við
reyniberjatínslu sem aldrei fyrr.
Og stjörnur og norðurljós leika
á kvöldhimninum ásamt
skærum og nálægum Júpíter.





Skólar komnir á fullt og verkefnin
af ýmsum toga, s.s. af hverju falla
laufin af trjánum og af hverju eru
haustlaufin í mörgum litum,
gul og rauð og logagyllt?
Lauftré draga blaðgrænuna úr
blöðunum fyrir lauffall á haustin
og senda niður í rótina.
Efnin sem eftir verða lita
laufin gul og rauð og eru
efni sem tréin hafa ekki eins
mikið fyrir að framleiða.

Haustið veldur mörgum kvíða
yfir komandi vetri og ekki að undra.
Litrík laufin fara sölnandi og náttúran
fellur smám saman í dróma vetrar.
En þótt yfirborðslífið sofi,
vakir lífið í rótinni og sem
vaxtarvísar í bruminu...





Aðstæður skólabarna eru afar
mismunandi hér á landi og
sumir barnahópar hafa alls
ekki hlotið þá athygli og
stuðning sem þeim ber.
Má þar nefna börn fanga.
Mun málþing á vegum
Umboðsmanns barna fjalla
um þau mál á næsu dögum.

Enn hefur Ísland ekki fullnustað
Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Börn eru börn og þurfa stuðning
til að vaxa og dafna, sofa og
dreyma. Gleðjast yfir lífinu og
fjölbreytileikanum sem m.a.
birtist í litum árstíðanna.

Öll höfum við skyldur við
börn ef við ætlum að standa
undir nafni mannúðlegs samfélags.
En skeytingarleysi er einn af
bölvöldumn--níðhöggum--nútímans
og sverfur að mildi og manngæsku.




Leyfum börnum að vera börn
að leika og læra - og syngja.
Víða á leikskólum og í skólum
landsins, hefur tíðkast að syngja
óðinn til haustlaufanna eftir
kennarann og skáldkonuna,
Önnu Svanhildi Björnsdóttur,
við lag Þorvaldar Arnar Árnasonar:





Við erum haustlaufin
sem leika í golunni.
Fagurrauð, með litla
ósýnilega vængi.
Glettast og láta sig
engu varða
þótt veturinn sé í nánd.

Við áttum okkar sumar,
áttum okkar vor
en núna erum við
rauðglóandi
af ástríðu haustsins.
Við erum haustlaufin...



#









Meira >>
 27.08.2022
 Fjalliđ Kerling og draumlendur í Grundarţingum


Fjallið Kerling með sinn Röðul og
Jómfrúartind, Karlinn og hin forna
eldstöð Súlur, gnæfa yfir grösugum
lendum Eyjafjarðar og gjöfulli Eyjafjarðará.
Kerling hæst fjalla í byggð á Norðurlandi,
1538 metra hátt og talið yfir 8 milljón
ára gamalt. Hluti af hinni ævafornu
eldstöð Glerárdala. Formfegurðin er
einstök með sinn pýramídatopp.
Kerling gerð úr blágrýti og líparíti;
þar vex jöklasóley í1500 metra hæð.

Ekki að undra að Helgi magri, hafi sett
niður bú sitt undir rótum þessa magnaða
fjallgarðs. Þar grær margt á grundu og
hið sögufræga höfuðból Grund, síðar
landmesta jörðin við rætur Kerlingar.





Sannkallaðar draumlendur hér um
slóðir og eru merkar þjóðsögur,
draumar og vitranir til af svæðinu
s.s. frá Grund, Möðrufelli, Miklagarði
og Hvassafelli .

Sagan af Snæfríði Eyjafjarðarsól
á Möðrufelli er vel sráð. En henni
er eignað orðtakið betra er yndi en auður;
til er lika útgáfa af Sigríði frá Grund.
Hvort það voru menn í álagahami trölla,
sem höfðu hana á brott eður ei,
skal ósagt látið en einhverra hluta vegna
kallast allur skaginn milli Eyjafjarðar
og Skagafjarðar, frá fornu fari,
Tröllaskagi.

Þekktar eru draumsýnir frú Aðalbjargar
Sigurðardóttur frá Miklagarði, eiginkonu
séra Haraldar Níelssonar, guðfræðiprófessors.
En hún sá í annan heim og til eru skráðir draumar
Aðalbjargar allt frá barnsaldri í heimasveitinni.

Þá er draumvitrun Þorsteins Hallgrímssonar
á Hvassafelli einstök, af fráfalli þjóðskáldsins
Jónasar, bróður hans.




Á nýju tungli í sólbjörtum Grundar-
þingum, kemur þessi draumvitrun
Þorsteins á Hvassafelli, bróður
Jónasar skálds, í hugann.
En Jónas ólst upp hjá móðursystur
sinni á Hvassafelli eftir að faðir hans
drukknaði í hinu djúpa Hraunsvatni
í Öxnadal og fór til náms á Möðrufelli
hjá séra Jóni Jónssyni, lærða.

Bakki, hinn forni kikjustaður og nú 
elsta guðshús í Eyjafirði, skammt frá
Hrauni hvar Jónas fæddist, var aðal
grefrunarstaður í Öxnadal.

Þorstein dreymdi að hann væri staddur
á Bakka í jarðaför Jónasar, bróður síns.
Og fannst hann heyra þessa draumvísu
sagða fram:



Hann er laus við heims ókjör,
í himna kominn ranninn.
Áfram minni flýti för,
far vel mælti svanninn.



En einmitt um þetta sama leyti
síðla maí 1845, hafði Jónas, bróðir
hans, látist i Kaupmannahöfn,
án þess Þorsteinn vissi.




Margar sagnir fyrr og nú,
staðfesta slíkar vitranir í draumi
hjá nánum einstaklingum og
mjög þekkt að mæður finni fyrir,
skynji eða dreymi fyrir um slys
og andlát barna sinna, ungra
sem uppkominna.

Stundum er haft á orði að
innangengt sé á milli manna.

Dreymi vel á síðsumri!





#
Meira >>
 28.07.2022
 Draumskrök og bláa eđa rauđa pillan og Geimöld


Einni af kvenfrumkvöðlum lækna-
vísindanna og tvöföldum nóbels-
verðalunahafa, pólska eðlis-og efna-
fræðingnum, Marie Curie, (1867-1934),
varð eitt sinn að orði: í lífinu er ekkert,
sem þarf að óttast heldur aðeins að skilja.

En stundum kjósum við skilningsleysi,
óminni, að fljóta bara með og vera ekki
vitandi vits; --það þarf hugrekki og baráttu
til að skilja--, slævð af dægurmennsku,
sókn eftir stundargæðum og lýðskrumi.





Ódysseifur hefði t.a.m. getað valið
þann ódauðleika, sem Kalípsó bauð
honum, en hann valdi að brjótast
úr ódáinsviðjum og halda aftur heim.
Þá fyrst fann hann leiðina aftur.

Líkt og hjá Neó í Virkinu eða Matrix
þar sem valið stendur á milli þess
að taka hjá Morfeusi bláu pilluna
og hverfa á mót hyllinga og óraunveru,
eða taka rauðu pilluna og vakna til
raunveruleika og skilnings.
Þar sannast hið fornkveðna, að
sá á kvölina, sem á völina.




Valið er vissulega snúið: leiðarljós
geta reynst villuljós og draumar,
sem hafa verið til leiðsagnar,
geta reynst markleysur, svefnórar;
draumskrök.

Í Laxdælu ofl. fornsögum er talað um
markleysu í draumi sem draumskrök.
En hættan er sú, að fyrirboði í draumi
geti verið túlkaður sem draumskrök
en reynist svo alls ekki. Kannski af því
draumurinn kom illa við dreymandann,
féll ekki að þægindarammanum eða
fyrirframgefinni þekkingu, óskum og
vonum, eða einfaldlega af því erfitt
reyndist að ráða í hann og hann var
dreymandanum óþægilegur.

Dæmi um slíkan draum, sem í fyrstu
var túlkaður sem draumskrök, en
reyndist síðan mögnuð forspá, er
draumur Ólafs pá af uxanum Harra,
sem hann lét höggva 18 vetra.
Nóttina á eftir, birtist kona ein mikil
og reiðileg, í draumi Ólafs, sem
kvaðst skyldu hefna sonar síns með
því að taka frá Ólafi það afkvæmi,
sem væri honum kærast.
Þegar tímar liðu fram, tengdu menn
þennan draum sem fyrirboða við
víg Bolla á fóstbróður sínum og
syni Ólafs pá, kappanum Kjartani.





Vandrataður vegurinn í bæði vöku
og draumi. Og sérstök gáfa að geta
dreymt fyrir atburðum og kunna að
ráða drauma.
Oft þarf að segja fram draum sinn og
fá annan til að ráða hann líkt og
Guðrún Ósvífursdóttir í Laxdælu,
heitkona Kjartans en síðar eiginkona
Bolla, sem leitaði með ráðningu drauma
sinna til fjölskylduvinarins, hins spaka
Gests Oddlleifssonar.





Guð drauma var Morfeus hjá
Grikkjum, tengdur nótt og
stjörnuhimni en faðir hans og
föðurbróðir, voru guðir næturinnar,
Hypnos, guð svefnisns, og bróðir
hans Þanatos, guð dánarheima.


Morfeus er myndsmiður drauma;
hann mótar og formar drauma;
eins konar drauma-hönnuður.
Sannkallað ólíkindatól og lætur hafa
fyrir því að leita draumráða sinna
og síðan túlka þau svo vel sé.




Sagan sýnir, að af draumum og
draumsýnum mannsandans, sprettur
ný þekking, sem færir út mörk hins
þekkta og víkkar skilning og vitund.

Líkt og nú um stundir þegar gamall
draumur um gleggri tækni til
athugunar himingeimsins, rætist í
geimsjónauka, sem kenndur er við
fyrrum forstjóra NASA, James Webb.
Sjónaukinn fór fyrst í loftið á Jóladag 2021.
Og þann 12. júlí sl. tók hann að senda
algjörlega magnaðar og fagrar myndir
af fjarlægum stjörnuþokum úr óravíddum
himingeima og ævafornra tíma.

Nú færumst við út fyrir endimörk hins
þekkta, stödd í nýjum tíma og nýrri vídd:
Geimöld.

Draumurinn um skilning á undravíddum
Alheimsins, færist æ nær svo og svörin
við spurningunni um líf á öðrum hnöttum.
Fjarlægur draumur, sem eitt sinn virtist
líkjast fjarstæðukenndu draumskröki...




#

Meira >>
 27.06.2022
 Hćgstreymi eins og í draumi og blóm látleysisins: fjólur


Svefn og draumar eru kunnug stef á
Sjösofendadegi 27. júní þegar minnst er
grísku Sjösofendanna, sem sváfu í helli
í 100 ár vegna ofsókna en vöknuðu til
nýrrar aldar og breyttra og betri tíma.

Hægstreymi vitundarlífsins í svefni
og draumi, felur í sér fræ að nýrri þróun.

Lífið er margslungið og á sér sínar
ljósu og dökku hliðar. Grös Jarðar
endurspegla það vel. Sama blóm
getur í senn verið svefn-, drauma-
og lækningajurt en líka eitrað sé
það ekki notað rétt. Magn, tími
blómgunar, hluti plöntu ofl. skipta
mestu í þessu samhengi.



 

Grikkir ræktuðu hinar hógværu fjólur
og höfðu blómið í hávegum en voru
jafnframt meðvitaðir um hinar mörgu
hliðar hvers blóms; hverrar sálar...

Í Ódyssseifskviðu talar Hómer um
fjólur hafi vaxið við hellismunnann
hjá dísinni Kalipsó hvar hún hélt
kappanum Ódysseifi í 7 ár eða uns
gyðjan Aþena skipaði henni að aflétta
töfrunum yfir honum. Gat hann þá
loks fundið leiðina aftur heim.

Fjólur eru að fornu og nýju bæði
blóm lífs og dauða í þjóðtrú víða
um lönd. Hjá Grikkjum voru fjólur
táknblóm Persefónar, sem Hades
girntist og nam á brott til undirheima.
Sagnir herma að hún hafi verið að
tína fjólur þegar hún hvarf til Heljar.
Aðrar sagnir herma að hún hafi verið
að tína blóm á engi en einu blómin,
sem hrutu úr vendinum, sem hún
hélt á og náðu samt að festa rætur
á leiðinni niður, hafi verið fjólurnar.




Í úkraínskri þjóðtrú hefur varðveist
undurfögur sögn um tilurð fjólunnar.
Sögnin er á þá leið að ungmenni,
piltur og stúlka, felldu hugi saman
og hugðust giftast en þegar kom
að brúðkaupi, upplýstist gamalt
leyndarmál, að þau væru í raun
systkini. Í harmi sínum að mega
ekki eigast, biðluðu þau til Almættisins
um forsjá og miskunn og óskuðu
þess að þau mættu verða að blómi.
Og til varð þrenningarfjólan fagra,
fjólublá, gul og hvít, sem Úkraínumenn
kalla líka systkinablómið og margar
þjóðir kalla þrenningarfjóluna til
heiðurs heilagri þrenningu.




Fjólur í íslenskri náttúru eru miklir
vorboðar og hafa löngum glatt
landsmenn bæði í görðum og þar
sem þær vaxa villtar. Stjúpublómin
innfluttu eru systurtegund og talað
um fjóludeild og stjúpudeild innan
fjóluættarinnar--Violaceae.
Þessu lítilþæga fjólubláa blómi með
sinni dásamlegu angan og undramætti
til lækninga, hefur verið lýst sem
blómi látleysisins.
Segir svo Grímhildur drottning í
Niflungaljóð frá 12. öld og lykilpesóna
í Völsungasögu Sigurðar Fáfnisbana
og Búrgundaríkis:



Enginn er auðmýkri en hún,
og engu gæti fótur þinn léttar troðið,
því hún sýnist næstum blygðast sín,
meiri en gras að vera
svo vel felur hún sig,





Í draumfræðum er fjólan afar gott
draumtákn og fjólublár litur einnig.
Litur innsæis, sammannlegs skilnings,
nándar og friðar.

Eðlisfræðingurinn og náttúruspekingurinn
--höfundur fræðanna um þyngdarlögmálið--,
Ísak Newton, (1643-1672), skipti niður
bylgjulengdum sjáanlegs ljóss á hið
svokallaða litahjól. Hann setti fjólubláa
litinn milli rauðs og blás við enda
sjáanlegra bylggjulengda á hjólinu.
En fjólublár heitir eftir fjólunni og
var sjöundi og síðast liturinn.
Newton þótti feiminn og lítt fyrir
að flíka hugmyndum sínum; hóglegur
og feiminn eins og fjólan...



Skáldin okkar tala um litla fjólu sem
grær við skriðufót, eða Akrafjall og
Skarðsheiði eins og fjólubláir draumar...

Skáldinu og rektornum frá Arnarstapa
á Snæfellsnesi, Steingrimi Thorsteinssyni,
(1831-1913), var fjólan hugleikin, s.s. í
ljóðinu Fjólan og lindin. Hann sá í fjólunni
bæði hógværa fegurð og djúpan
andlegan sannleika í því hægstreymi
lífsins, sem hún vex og dafnar.
Hægstreymi, sem er alltaf til staðar
ef við viljum að gá og skapar
frjóan lífvænleika. Hægstreymi
vitundar í svefni og draumi, er
okkur lífsnauðsyn til endurnýjunar
líkams- og sálarkrafta.

Vorfjólan sér himininn í vakandi
vatnsiðu tærri. Hún sér sjálfa sig
í því hreina og sér þar sinn himinn
um leið, kveður Steingrímur en
fallvaltleikinn er ekki langt undan,
partur af eilífri hringrásinni.
Fjólan lifir af ástríðu þar til hún
hnígur fyrir lindarvatninu tæra,
sem nærði hana og gaf henni tilgang
en sem hún líka veitti gleði og ást:



Í lægð undir hamrinum háa,
svo hóglega rennur ein lind,
frá bakkanum fjólan hin bláa
í bununni sér sína mynd.



#









Meira >>
Síđasta frétt  1  2  3  4  5  6  7  8  9  10  11  12  13  14  15  16  17  18  19  20  21  22  23  24  25  26  27  28  29  30  31  32  33  34  35  36  37  38  39  40  41  42  43  44  45  46  47  48  49  50  51  52  53  54  55  56  57  58  59  60  61  62  63  64  65  66  67  Næsta frétt 
© 2007 Draumasetriđ Skuggsjá Hönnun Design EuropA