Forsíđa   
 21.06.2021
 Jarđeldar á Sumarsólstöđum og draumar landnámsmanna


Merk tímamót í náttúrunni eins og
Sumarsólstöður þegar sólin er nyrst
á sjónarbaug líkt og í nótt kl. 03.32,
hafa löngum verið talin gjöful til drauma.
Og framundan er sjálf Jónsmessan,
þann 24. júní, ein helsta draumanóttin.
Og þar næst sjálfur Sjösofendadagur,
27. júní en heitið var á Sjösofendur
vegna svefnleysis og hitasóttar m.a.

Fornmennirnir réðu bæði í drauma og
ýmis tákn náttúrunnar og sigldu eftir
stjörnunum. Þarf ekki að fletta lengi
í Landnámabók til þess að sjá tilvísanir
í drauma og ýmsar forspár víða.





Þegar reynt er að grafast fyrir um
hver hinn raunverulegi Ísólfur á Skála
kann að hafa verið, beinast sjónir helst
að landnámsmanninum Ísólfi á Búlandi
á Suðurlandi. Hann er einn af síð-
landnámsmönnum sem koma til landsins
á 10. öld og átti land milli Kúðafjóts og
Skaftár eins og lýst er í 86. kafla
Landnámabókar en þar eru merkar tilvísanir
í forspár og drauma.

Í þeim sama kafla er sagt frá landnámi
Molda-Gnúps sem var næst landnámi
Ísólfs og var á milli Kúðafljóts, Eyjaár og
Álftavers. Frjósamt og hlunnindamikið
landnám sem hann seldi af en varð
jarðeldum að bráð sem leiddi til þess að
Molda-Gnúpur og synir hans héldu á
Reykjanes og námu þar land í núverandi
Grindavík. En talið er að Ísólfur á Búlandi
hafi reynst Molda-Gnúpi vel og skotið
yfir hann og hans skyldulið skjólshúsi
vegna hremminga á Suðurlandinu.

Þessir jarðeldar sem Landnámabók vitnar
til, runnu yfir stórt svæði og gjörbreytti
afarmikið hraunið bæði landi og vötnum
þar eystra, m.a. Álftaverum. Eru leiddar
líkur að því að jarðeldar þessir, hafi átt
upptök sín í Eldgjá í Skaftártunguafrétti.

Í lýsingu 86. kafla Landnámabókar segir
líka frá þriðja landnámsmanninum sem
nam land vestan við Molda-Gnúp. Var það
Hrafn Hafnarlykill sem Landnáma segir að
hafi vitað eldsuppkomuna fyrir og verið
búinn að færa bú sitt áður...






Það eru stórir jarðeldar á Suðurlandi og
hraun sem fór vítt yfir og breytti landkostum
sem leiddi til landnáms við Grindavík.
Og mögulega útstöðvar Ísólfs á Búlandi
sem hann setti niður nálægt landnámi
Molda-Gnúps. Okkar tilgáta er að Ísólfur
hafi sett niður útstöð á Skála.
En snemma var vitað af fengsælum
fiskimiðum utan suðurstrandarinnar
og Skáli Ísólfs, sjávarjörð. Ennfremur
er vitað að fornmenn sóttu sjóinn
langt að og að á fyrstu öldum byggðar,
urðu til ýmsar þekktar verstöðvar á
þessum slóðum út frá bæjum á Suðurlandi,
s.s. í Grindavík, Krýsuvík og Selvoginum.






Landnáma segir að landvættir hafi fylgt
Molda-Gnúpssonum til ýmissa land- og
sjávarnytja. Og ber draumur Hafur-Björns
þess vitni af bergbúanum sem birtist
honum í draumheimum og óskaði eftir félagi
við Björn sem hann gekk að en eftir það tók
bústofn hans, m.a. huðnur og hafrar,
að aukast mjög. Í Landnámu segir að
Molda-Gnúpur og synir hans hafi haft fátt
kvikfjár með sér á Reykjanesið...






Yfirstandandi jarðeldar í Geldingadölum
hvar dys Ísólfs á Skála er talin vera,
kunna að standa lengi yfir og breyta
landslagi og landkostum með tíð og
tíma. Slík dyngjugos standa oft lengi.

En gæfan nú er sú að við höfum meiri
þekkingu, vísindi og tækni en forfeðurnir
sem þurftu að treysta á fosjálni sína,
þekkingu á landinu, forspár og drauma
til þess að talast á við elda þróunar og
margvíslegar hamfarir náttúrunnar.
Í dag höfum við tól og tíma til þess að
sýna þann viðbúnað sem dregur sem
mest og best úr skaða fyrir land, innviði
og samfélag. Jafnvel þó sjálf dyngjan
verði seint að háu fjalli, en allt er það
þróun háð, þá getur hraun frá
henni reynst víðáttumikið. Má nefna
magnaða dyngju í nágrenninu,
Þrándarskjöld í þessu samhengi.
Fer vel á að nefna núverandi dyngju
í þróun, Ísólfsskjöld, og hraunið eftir henni.
Og sjálfan gíginn: Ísólf.

Vofur tómlætis eða bölmóðs mega ekki
sigra í þeirri óvissutíð sem blasir við.
Verum hjartahraust!
Strandarkirkja í Selvogi nálæg og
minnir á vernd og engil vonar...




Í ljóði sínu Hjartað langar og flýgur,
kveður góðskáldið Ísak Harðarson,
(1956-  ), um hjartaflugið í magnaðri
náttúru lands og sjávar:




Langt langt burt það flýgur
yfir sofandi hjörtu á Bakka,
yfir Strandarkirkju og Kleifarvatn
hraunbakkafullt af nýjum
tunglum og næturskýjum






Meira >>
 23.05.2021
 Skrúđgrćn klćđi í náttúru og mannlífi: kjólameistarinn, matmóđirin og jóginn í Brekkugötu 3


Nú stendur Hönnunarmars yfir
og margt um dýrðir og fer vel
á að minnast eins fyrsta sérlærða
kjólameistarans hér á landi
en áður höfðu karlmenn eingöngu
mátt starfa við iðnina sem klæðskerar.
Þessi kona er Björg Jóhanna Vigfúsdóttir
sem fæddist að Grímsstöðum í
Þisitlfirði 1897 og ólst upp í stórum
systkinahópi á Kúðá í sömu sveit
hjá foreldrum sínum, þeim Vigfúsi
Jósefssyni og Ólínu Ólafsdóttur.
En ævisögu Ólínu ritaði Benjamín
Sigvaldason, rithöfundur og bóksali
á Hverfisgötunni í Reykjavík.
Ólína þótti merk kona á sinni tíð og
veitti mörgum skjól, umhugað um þá
sem áttu um sárt að binda.






Gjarnan er talað um innfædda
Þistilfirðinga sem Þistla en fjörðurinn
heitir í höfuð Ketils Þistils, landnámsmanns
sem nam fjörðinn og átti land á milli
Hundsness og Sauðaness á Langanesi.
Ketill Þistill var í gegnum Sigmund, son sinn og
landnámsmann á Laugarbrekku á Snæfellsnesi,
ættfaðir Guðríðar Þorbjarnardóttur, víðförlustu konu
fyrri alda og móður Snorra, fyrsta norrræna
barnsins sem talið er fætt í Vesturheimi,
sonar hennar og Þorfinns Karlsefnis.






Þistillinn Björg er ein ættmæðra okkar hjá Skuggsjá.
Hún var alla tíð berdreymin og forspá
og sá m.a. fyrir alvarleg veikindi löngu
áður en þau greindust eins og raunin
varð á með hennar eigin veikindi
sem urðu hennar aldurtili síðar
en nú er tæp hálf öld frá andláti hennar.
Mikill dýravinur og elskaði hestana
sína í sveitinni heima en á þeim slóðum
var blátt bann lagt við hrossakjötsáti
enda aldrei á borðum á hennar heimili
eftir að hún sjálf fór að búa; listakokkur
og höfðingi heim að sækja og slógu
margrómaðar fiskbollur hennar allt út,
uppskrift frá æskuheimlinu á Kúðá.
Að ótöldum kleinunum, kaffitertunni með
hvíta kreminu og fagurskreyttu smurbrauðinu.

Hún elskaði tónlist og söng yfir pottunum,
fór í kirkju á sunnudögum til að syngja
og biðja en stundaði líka jóga og var í fyrsta
jógahópnum sem vitað er um hérlendis.
Mikil áhugakona um Indland og austræn fræði.

Ung að árum kom Björg til Akureyrar
til þess að læra kjólameistaraiðnina
hjá Hinrik Bebensee, þýskum klæðskera,
sem rak klæðskerastofu í Brekkugötu 3
í miðbæ Akureyrar, í húsi sem hann reisti
í byrjun 20. aldar. Og sem hann ásamt
mági sínum og síðar eiginmanni Bjargar,
Sveini Bjarnasyni, framfærslufulltrúa,
byggði áfram við, m.a. þriðju hæðina, þá efstu.
En Sveinn var framfærslufulltrúi Akureyrarbæjar
í tvo áratugi, eða frá 1935 til 1955, og
hafði skrifstofu sína, kontórinn, í húsinu.






Brekkugata 3 við Ráðhústorg á Akureyri,
er einstakt hús, ekki bara sem reisulegt
hátimbrað aldamótahús heldur líka vegna
alls þess lífs, atvinnu og menningar sem
verið hefur þar frá fyrstu tíð:
gróskumikið sambland af starfi iðnmeistara
og nema, verslunar-og viðskiptajöfra á fyrstu
hæðum og starfsmanna en hýbýli íbúa á efri
hæðum og kostgangara að koma og fara.
Húsið iðaði af fólki á öllum aldri og öllum
gerðum--allar skoðanir vel þegnar--,
og þar bjuggu breskir offíserar á stríðsárunum.






Kjólameistarinn Björg hafði hvað mest yndi
af að veita liðsinni við saum á íslenska
þjóðbúningnum og gerði það allt fram á
síðustu æviár á heimili sínu í Brekkugötu 3.
Eins hafði hún einstakt auga fyrir handbragði
og efnum og gæðum þeirra og hreifst lítt af
gerviefnum sem þá voru farin að koma fram.
Um það voru hún og helsta vinkona hennar,
Halldóra Bjarnadóttir, frá Ási í Vatnsdal,
frænka Sveins, sammála. En Halldóra
var tíður gestur í Brekkugötunni og
starfaði í 10 ár sem skólastjóri Barnaskóla
Akureyrar--Barnaskóla Íslands--og kom
þar á fót kennslu í handavinnu sem margir
sáu nú ekki beint tilgang í þar sem heimilin
gætu séð um þá hlið!
Halldóra helgaði síðan tóvinnu og textíl ævi
sína og eftir hana liggur geysimikið safn handverks,
vefnaðar og ýmissa textílmuna sem hún safnaði
og sjá má á Heimilisiðnaðarsafninu á Blönduósi en
þar er sérstök stofa tileinkuð henni, Halldórustofa.

(Nú um Hvítasunnuna var opnað skemmtilegt rými
á Textílsetrinu í Kvennaskólanum á Blönduósi
fyrir ýmsar textílgreinar tengdar listsköpun og
menningu. Og verður spennandi að fylgjast með
framgangi þess).






Kjólameistarinn Björg var velfróð um marga hluti
og mikil andans manneskja og heimili hennar
var einstaklega gestkvæmt, gestir komu til lengri
eða styttri dvalar bæði að austan, ættmenn og vinir
af æskuslóðunum í Þisltifirðinum en líka að vestan,
ættmenn og vinir Sveins úr Húnavatnssýslunum.
Og alltaf var sunnudagskaffi að morgni og Opið hús.
Talandi um vinina og áhugann á andlegum málum,
þá var ein vinkona Bjargar oft gestkomandi að sunnan,
Guðrún Waage, miðill, sem uppgötvaði snemma
stórmerka hæfileika Einars á Einarsstöðum í Reykjadal,
(1915-19987), og veitti þjálfun. Einar er af mörgum talinn
einn mesti huglæknir og andans jöfur okkar Íslendinga
og þó víðar væri leitað. Lesa má um fágæta mannkosti
og lækningahæfileika Einars í ýmsum skrifum, m.a.
Sigurjóns Björnssonar, sálfræðiprófessors og fyrsta
deildarforseta Sálfræðideildar Háskóla Íslands sem nú
stendur á níræðu og er enn að skrifum og þýðingum.
Einstakur kennari og djúphuga fræðimaður; honum
sé heil þökk fyrir leiðsögnina um lendur sálarfræða.






Segja má að textíll og jóga og matarmenning,
lifi enn í dag góðu lífi í Brekkugötu 3 hvar
Björg upphaflega lærði kjólameistara-
iðnina, saumaði íslenska búninginn,
söng yfir pottunum og iðkaði jóga.
Hún var einstaklega skemmtileg kona.
Nú er jóga kennt í tengibyggingu hússins
upp að bakhúsinu og að svokölluðu Afatúni,
en þessar viðbætur byggði Bjarni, sonur Bjargar.
Mikilvirkur múrarameistari og athafnamaður sem
fæddist í Brekkugötunni og ólst þar upp til fimmtugs
eins og við afkomendur hans stríddum honum oft á!

Í Brekkugötu 3a tengibyggingu, er jógasetrið Ómur.
Þar áður var þar hönnunargalleríið Hvítspói en
húsnæðið og galleríið hefur verið í eigu Önnu
Gunnnarsdóttur, textíllistakonu. Faðir hennar,
Gunnar Hjartarson, athafnamaður og síðar
bankastjóri, og Bjarni áttu í samstarfi um inn-
og útflutning lengi vel, og var sá rekstur staðsettur
í Brekkugötu 3. Skóverslunin Leðurvörur var lengi
á neðstu hæð Brekkugötunnar en kjallarinn hafði
verið grafinn út af Bjarna; má segja að húsið sé
síðan á fjórum hæðum. Nú er þar konditóríkaffihúsið
Sykurverk. Og gistiíbúðir til skemmri eða lengri
útleigu á efri hæðum, gömlu íbúðahæðunum.

Dóttir Önnu og eiginmanns hennar, indverska
gjörgæslu-og svæfingalæknisins, Girish Hirlekar,
Anita Hirlekar, sýnir nú á Hönnunarmarsi
í Kiosk á Granda, stórglæsileg klæði og litrík
úr efnum gerðum á staðnum og með
handgerðum munstrum sem minna á
eitthvað sem er ekta og flæðandi af lífi.
Líkt og náttúran sjálf sé mætt á svæðið!
Aníta lærði í Central St Martins, listaháskólanum
í London, og hefur unnið til fjölda verðlauna.




Formóðir okkar Björg átti sér marga uppáhaldsstaði
í Noðurþingi, einn þeirra var Ásbyrgi. Við vorum
ekki há í loftinu þegar hún sagði okkur frá tilurð þess
og þjóðsögunni um Sleipni, hest Óðins. Að Sleipnir
hafi átt að stíga fast niður fæti þegar hann var á ferð
sinni um lönd og höf og að Ásbyrgi væri hóffar hans,
eyjan í miðjunni, far eftir hóftunguna.

Eitt efitirlætisskáld ömmu Bjargar var Einar Benediktsson,
(1864-1940). Hann bjó eitt sinn að Byrgi í Ásbyrgi og segir svo í
einu af sínum fegurstu kvæðum Sumarmorgunn í Ásbyrgi:





Alfaðir rennir frá austurbrún
auga um hauður og græði.
Glitrar í hlíðinni geislarún,
glófaxið steypist um haga og tún.
Signa sig grundir við fjall og flæði,-
faðmast í skrúðgrænu klæði.






#







Meira >>
 04.04.2021
 Páskar - eldar ţróunar og djúpur draumheimur - án verđmiđa



Páskar enn á ný við ysta haf leiða
hugann að því sem ekki er hægt
að setja verðmiða á. En.... :
mannveran hrífst af verðgildi og
verðmiðum hégómleikans eins og
þegar safnarar á 19. öld fóru um
lönd og álfur að leita fágætra og
senn útdauðra tegunda. Allt í lagi
þó tegundir væru uppstoppaðar...

Gott dæmi en sorglegt þar um
er síðasti geirfuglinn í Eldey við
Reykjanes, sá síðasti í heiminum.

Fuglinn sem gat ekki flogið, nefnir
Gísli Pálsson, mannfræðiprófessor,
merka bók um þessa aldauðu tegund.
Bók Gísla kom út hjá Forlaginu sl.
haust og var tilnefnd til íslensku
bókmenntaverðlaunanna.
En síðasti geirfuglinn var drepinn í
Eldey í júníbyrjun 1844, sérpöntun
erlendis frá; þeir voru raunar tveir
þessir síðustu geirfuglar af álkuætt
sem þarna var gengið að. Ófleygir,
spakir og lágu vel við höggi...

Geirfugl hafði verið ofveiddur öldum
saman víða við strendur Norður-
Atlantshafsins, þ.m.t. Ísland,
Grænland og Kanada.
Veiddir til matar og eggjatöku;
allt nýtt svo sem fiður og fjaðrir í fatnað,
beinin jafnvel brennd sem eldiviður.







Íslendingar eignuðust sinn nútíma
geirfugl á uppboði í London árið 1971
eftir landssöfnun og var hann lengst af
í umsjón Náttúrufræðistofnunar Íslands
en er nú varðveittur hjá Náttúruminjasafni
Íslands sem hefur sýningaaðstöðu í Perlunni.
Árið 2009 setti stofnunin á laggirnar
athygliverða og fjölsótta sýningu í
Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu,
nú Safnahúsið, til þess að minnast
100 ára sögu hússins og Náttúrugripa-
safnsins sem þar var lengi hýst.
Nefndist sýningin Að spyrja Náttúruna -
Saga Náttúrugripasafnsins og var í
ritstjórn og umsjón þáv. forstöðumanns
Upplýsingadeildar Náttúrufræðistofnunar,
Ingibjargar Birtu Sig. Bjargar, dýrafræðings
og vísindamiðlara.
En hún hefur lengi unnið að stjórnun
verkefna hjá Skuggsjá.
Skipaði geirfuglinn sérstakan heiðurs-
sess á sýningunni í Safnahúsinu
og er ekki að undra að hann vekti
mikla eftirtekt ungra sem aldinna.
Tignarlegur og fagur; gat orðið allt
að 70cm að hæð og 5 kg. að þyngd.






Eldey geymir bæði líf og leyndardóma.
Enn í dag eru þar einhverjar stærstu
súlubyggðir í heimi sem m.a. má
þakka friðun eyjarinnar árið 1940.
Talið er að árlega verpi þar um
14-16 þúsundir súlupara.
Eyjan var gerð að friðlandi 1974.

Þessi þverhnípti móbergsdrangi
út af Reykjanestá, skammt frá
Höfnum, minnir líka á nauðsyn
þess að læra á umhverfi okkar
og að umgangast það af
virðingu í samvinnu við og
í vináttu við aðrar tegundir
og lífsform. Viðhafa aðgát.

Eldey minnir á ægikrafta þróunar
og viðsjár í Náttúrunni, elda á
Reykjanesi í gegnum aldirnar.
Hættulegust eru sprengigos í sjó
sem hafa komið upp af og til
í jarðsögunni; eitt slíkt varð
á miðöldum sem olli bæði
mannskaða, að talið er, og
falli búsmala allt í Borgarfjörð.
Brennisteinsgufur, koltvísýringsgas
og gosgjóskan varasöm.

Eyjan myndaðist í kringum
1210 til 1211 en nokkru fyrr
höfðu orðið tvö gos í sjó undan
Reykjanesi. Á næstu 570 árum
komu a.m.k. sjö gos í sjó svo
vitað sé til á þessum slóðum.
Og tvö möguleg gos í sjó á 19. öld,
annað við Geirfuglasker, 1879.

Vonum það besta nú og að
mildi sé áfram yfir nýhafinni
og sögulegri gosvirkninni
á Reykjanesi - í Geldingadölum.






Það hefur lengi verið vitað að:
djúpur er draumheimur, og segir
í fornritum vorum frá trú forfeðranna
á drauma og reynslu þeirra af þeim
til leiðsagnar í vökulífinu.
Segir Landnámabók t.a.m. frá draumi
Björns, sonar Molda-Gnúps Hrólfssonar,
landnámsmanns í Grindavik.
Í draumnum birtist Birni bergbúi
sem bauð honum gagnkvæmt
félag þar sem þeir skyldu líta til með
högum hvor annars. Gekk Björn að
þessum kostum og fórst uppfrá því
vel með allt sitt. Hafur mætti til geita
hans og bar það ríkulegan ávöxt og
efnaðist Björn vel. Var hann eftir það
nefndur Hafur-Björn. Í Landnámabók
segir ennfremur að landvættir hafi
fylgt Birni til þings en bræðrum hans
til veiða og fiskjar, þeim Þórði og Þorsteini.
(Sögðu svo skyggnir einstaklingar,
ófreskir, þess tíma).

Í skjaldarmerki Grindavíkur er svartur hafur...





Eldar Reykjaness birtast í ýmsu,
bæði bókstaflega og táknrænt:
ein ástkærasta söngkona þjóðarinnar,
Elly Vilhjálms (1935-1995), bar raunar
nafnið Eldey! Henný Eldey Vilhjálmsdóttir.
Fædd og uppalin í Höfnum á Reykjanesi
með sjálfa Eldeyna þar skammt undan.
Reykjanesið er sannarlega magnað
bæði fyrr og nú --brú milli heima og
heimsálfa--; þar er alþjóðaflugvöllurinn.
Nú mun söngur Ellyjar óefað hljóma
um veröld víða í nýjustu seríunni af
hinum vinsælu þáttum Grey's Anatomy.
Þar syngur hún lag Eyjamannanna
Ása í Bæ og Oddgeirs Krisjánssonar,
Ég veit þú kemur.

Megi okkur auðnast að feta vegina til góðs
í þeim viðsjám sem nú blasa við í heiminum.
Í kvikmyndinni 79 af stöðinni sem gerð
var eftir sögu Indriða G. Þorsteinssonar,
rithöfundar, (1926-2000), syngur Elly
ljóð Indriða um vegina sem liggja til allra
átta við lag Sigfúsar Halldórssonar,
(1920-1996):




Vegir liggja til allra átta,
á þeim verða skil,
margra er þrautin þungra nátta
að þjást og finna til
og bíða þess að birti á ný
og bleikur morgunn rísi.
Nú strýkur blærinn stafn og þil
stynjandi í garðsins hrísi.




#


Meira >>
 21.03.2021
 Reykjanesiđ - Ísólfur á Skála - og eldar ţróunar


Nú hefur Reykjanesið skolfið
svo um munar í rúmar 3 vikur
uns nokkurt hlé varð, eins konar
upptaktur að gosi í Geldingadal.
Gamla fólkið talaði gjarnan um
sérstakt logn í náttúrunni sem
undanfara eldgosa: nú fer að gjósa.
Og þótt lítið sé gosið að svo stöddu,
er næg innistæða elds á svæðinu.
Nýtt tímabil þróunar í jarðsögunni,
kann nú að vera að hefjast og sem
ekki sér fyrir endann á. Mikil mildi
er yfir þessari byrjun og megi svo
verða áfram.

En hver var hann þessi Ísólfur á Skála
sem Geldingadalur tengist að líkindum?
(Landnámsjörðin Skáli eða Ísólfsskáli,
er um 10 km austur af Grindavík, stutt
frá Suðurstrandarvegi og í hættu, renni
hraun frekar í Nátthaga í suðurátt).
En trúlega er dys Ísólfs þó ekki þarna,
miðað við nýjustu athuganir og kallar
það á frekari umfjöllun út frá örnefnaskrá.
Þegar þessari spurningu er velt upp,
kemur í huga annar landnámsmaður
austfirskur, sonur Bjólfs á Seyðisfirði.
Ísólfur sá var talinn ættfaðir Seyðfirðinga.
Merkilegt hve þessir stóru atburðir
í Náttúrunni--gosið nú og aurskriðurnar
á Seyðisfirði í desember--á síðustu 3
mánuðum, tengjast þessum landnáms-
mönnum og sama sterka nafninu!
Ísólfur fyrir ís-úlfur. Úlfur gjarnan kenndur
eldi og sólu. Vel færi á að kalla nýja
hraunið Ísólfshraun.



Ýmsir draumar hafa gengið í vetur
af umbrotum í náttúrunni og eins af
tveim fornmönnum...




Vorjafndægur 2021 munu seint
renna úr minni við fagurt sjónarspil
eldtungnanna í Geldingadal/Geldingadölum
hvar áðurnefndur Ísólfur landnámsmaður
á Skála, var talinn dysjaður;
Ísólfur vildi hvíla í grösugum dalnum
þar sem geldingar hans höfðu unað
hag sínum vel, segir í Landnámu.
Þessi lýsing Landnámu af geldingum
hans í grösugum dal, leiðir hugann
að ásýnd og landkostum Reykjaness
við landnám: lýst sem hlunnindamiklu,
grösugu og kjarrivöxnu.
Voru þar a.m.k. 6 landnám, gjafir
Ingólfs Arnarsonar til vina og ættingja.
Eitt þeirra kom í hlut landnámskonunnar
Steinunnar gömlu, sem fékk land milli
Rosmhvalaness að Kvíguvogabjörgum
í Vogastapa en svæðið þar austar og
að Hvassahrauni, eftirlét hún Eyvindi,
frænda sínum og fóstra.
Steinunn útbjó ermalausa yfirhöfn,
svokallaða heklu, til handa
Ingólfi að launum. Snjöll formóðir
okkar Íslendinga og úrræðagóð!






Við uppgröft síðustu ára á Reykjanesi,
hefur komið í ljós að margt bendir
til landnáms mun fyrr á Reykjanesi en
hið sögulega landnám Íslands byggir á.
Og er þá miðað við að etv. hafi aðrar
þjóðir átt sér útstöðvar á Reykjanesi
og sótt í auðlindir þar, fisk, hvallátra og
bjargfugl og verðmætar rostungstennur.
Örnefnið Rosmhvalanes er talandi tákn
þessa tíma, rosmhvalur fyrir rostungur
en rostungstennur voru hinar mestu
gersemar og dýrmætur gjaldmiðill
öldum saman í Evrópu og víðar.

Reykjanesið endurspeglar deiglu
drauma og vona í aldanna rás og
skrifar sögu þróunar tíma og rúms,
á skáhöllum flekaskilum heimsálfa;
býr enn yfir sínum leyndarmálum
en líka hættum, háska: vá.
Þar fyrirfinnast allar tegundir
eldstöðva, jarðhiti, hverir og
laugar og ýmsar bergtegundir,
algengastar eru móberg og basalt.

Hraunið í Geldingadölum er basalthraun
og gæti ekki hafa komið upp á betri stað
þarna á hásléttunni í djúpu dalverpi
þar sem basalthraun nálægt byggð
getur runnið langar vegalengdir.





Talandi um landnám Steinunnar gömlu 
og Eyvindar, Kvíguvoga, síðar Voga,
og Vatnsleysuströndina, þá áttu fornu
stórbýlin og úvegsjarðirnar,
Stóra-Vatnsleysa og Minni-Vatnsleysa,
öldum saman víðfem lönd uppeftir.
Eins og fjölmörg örnefni úr landi
Vatnsleysujarða, bera með sér,
þá hefur hraun flætt þar víða: eldvörp,
gíghólar, fell, sprungur, hryggir, nafir.


Landið á Reykjanesi er nú víða
örfoka og illa farið og landbrot
mikið. Ágangur manna og elda, vatns
og sjávar í aldanna rás, segir til sín.
Kjarr og hrís hafði verið  ágæt búbót
fyrr á öldum; var hrísskattur t.a.m.
greiddur árlega til Bessastaða.
Nú er hrísið horfið en hugmyndir um
Suðurnesjaskóga komnar á dagskrá:
birki gæti dafnað á þessum slóðum
og færi vel í landslaginu.





Síðustu gos á Reykjanesi eru talin
frá því um 1240 og því tæp 800 ár
frá því síðast gaus og þar til nú.
Sú sviðsmynd sem blasti við í
jarðfræðikerfi Reykjaness við landnám,
og fyrstu aldirnar á eftir, er gjörólík
því sem nú er og þarf að taka
stórar breytingar inn í jöfnuna
þegar reynt er að sjá fyrir mögulegar
sviðsmyndir í nútímanum varðandi
bæði jarðskjálfta og eldhræringar.
Í dag er Reykjanesið ekki einungis
eldbrunnið heldur líka vatnssósa og
má segja að mörg svæði þar hvíli á
samblandi af ferskvatni og sjó.
Þar segir gljúpur berggrunnur til sín
og sérstæð jarðsaga skagans.
Er vatnsstreymið neðanjarðar við Straumsvík
t.d. talið á við dágott árstreymi daglega.




Móbergsfjallið Keilir rís í miðju landslaginu
og stendur allt af sér, er enn í dag viðmið
fyrir svo margt og enn er hann viti sjómanna
varðandi það að miða út fiskimið, bæði
á Faxaflóa og sunnan Grindavíkur.
Keilir varð til á ísöld við gos undir jökli.
Nyrðri endi kvikugangsins sem tók að myndast
í vetur, er ekki langt frá Keili--á þessum slóðum
varð stóri jarðskjálftinn 5.4 á Richter þann
24. febrúar sl.-- en á kvikuganginum
til suðurs, opnaðist sú sprunga sem
nú gýs svo tignarlega úr í
Geldingadal/Geldingadölum.

Fyrir okkur nútímafólkið er það að berja
Reykjanesið augum og sjá fjöll og fell
í hrauninu og bláa þríhyrninginn, Keili,
rísa í landslaginu, við heimkomu
erlendis frá, ættjörðin sjálf, land elds
og ísa. Ísland er land þitt!






Blár þríhyrnigur
blasir héðan við
einstakur mjög
á eldbrunnum skaga:
gamli Keilir
sem kælir sjón mína, og herðir.

Pýramídi í auðninni
engum reistur!


(Hannes Pétursson; 1931-).



#








Meira >>
Síđasta frétt  1  2  3  4  5  6  7  8  9  10  11  12  13  14  15  16  17  18  19  20  21  22  23  24  25  26  27  28  29  30  31  32  33  34  35  36  37  38  39  40  41  42  43  44  45  46  47  48  49  50  51  52  53  54  55  56  57  58  59  60  61  62  63  64  65  66  67  Næsta frétt 
© 2007 Draumasetriđ Skuggsjá Hönnun Design EuropA