Forsíđa   
 20.06.2020
 Draumabláar Sumarsólstöđur og Stjörnu-Oddi


Sumarsólstöður eru í dag 20. júní og
svokölluð sólstöðumínúta kl. 21.44 í
kvöld. Dagur er nú lengstur og sól
efst á himinbaugi. Tíminn stendur í stað
eina örskotsstund í kvöld. Síðan fer sól
að hverfast til nýs tíma og dagur að styttast.
Vanalega ber sólstöður á sumri
upp á 21. júní en vegna hlaupárs í ár,
eru þær í dag. Óbreyttur vinnumaður
að Múla í Aðaldal á 12. öld, reiknaði út
sólstöður á sumri og vetri og hlaupár og
margt fleira og færði löndum sínum
þau merku fræði. Magnað!






Margt tökum við nútímamenn sem
sjálfsögðum hlutum sem forfeðurnir
þurftu að leggja á sig ómælt erfiði fyrir.
En hræringar dagsins í náttúrunni og
yfirstandandi farsótt um heim allan,
minnir okkur óþyrmilega á að tími er til að
vakna og horfast í augu við veruleikann.
Verulega snarpir jarðskjálftar urðu upp
úr kl. 15 á Tjörnesbrotabeltinu úti fyrir
Eyjafirði og Siglufirði við Gjögurtá og
fundust víða.

Í draumi nætur, sást hafblár, glæsilegur
og hraðskreiður fólksbíll bruna niður
götuna og fór ekki að neinum umferðar-
reglum, slíkur var hraðinn, en sást þó vel
í afturhutann, klesstan stuðara og klesst
aftara horn, sem sneri að húsinu, rétt áður
en hann hvarf sjónum og hélt ótrauður
áfram för sinni þó laskaður væri.

Er óskandi að það gangi eftir og að hamfarir
verði ekki frekari og verri né tjón á mönnum
og málleysingjum og eignum.
Ljóst að Náttúran fer ekki að manngerðum
lögum og reglum heldur eigin lögmálum.






Já, margt býr í draumum...
Um það vitna fornar sagnir og nýjar en
í dag á Sumarsólstöðum er minning
Stjörnu-Odda heiðruð austur í Aðaldal
með minnisvarða við Grenjaðarstað
og neðan Múla og málþingi í Ýdölum.
En Stjörnu-Oddatala sem við hann er kennd,
segir frá merkum draumi eða draumleiðslu
Odda Helgasonar, vinnumanns á Múla í
Aðaldal á 12. öld. Lýsir athugunum hans
á gangi himintungla, útreikningum fyrir
sólstöður og hlaupár, ofl. í 3 köflum.
Talan var líka glöggur vegvísir sæfaranda
að rata og sigla eftir á miðöldum.
Tekið skal fram að fátt er vitað um hinn
raunverulega og stjarnvísa Odda
nema frásögn hans, eða tala, hefur
varðveist á 2 blaðsíðum í Íslendinga-
þáttum frá 13. öld, og 2 kaflar af þrem,
birtast í Hauksbók frá 14. öld, í
Rímbegluhluta hennar.
En rím er þar notað í merkingunni tími.
Stjörnu-Oddi þótti afburða rímspakur...







Vel er við hæfi að bæði heiðra
og halda á lofti minningu Odda,
eins merkasta vísindamanns
Íslendinga og tímatalssérfræðings
okkar á miðöldum og til dagsins í dag.
Ýmislegt bendir til að Oddi hafi
haft aðgang að ritum um stjarnvísindi
og stærðfræði, s.s. hins persneska
Muhammad al-Khwarizmi--Algorithmi,
(ca. 780-850), fremsta stærðfræðings miðalda
og höfund bæði algóritmans--algrímsins
og algebrunnar. Og af mörgum nú talinn
forgöngumaður nútíma tölvunarfræða.
Að ótöldu því að Íslendingar fóru
trúlega víðar á þessum tíma um
Evrópulönd, Miðausturlönd og einhverjir
etv. um Silkiveginn lengra austur en
við gerum okkur almennt grein fyrir.
Og komust með ferðum sínum í kynni
við ýmsa heimspeki, siði og menningu,
nýjar vísindahugmyndir og uppgötvanir.
Kannski fór Oddi slíkar ferðir og/eða hlaut
vitneskju sína í ferðum draumheima!







Stjörnu-Oddatala í Íslendingaþáttum
og í Hauksbók, segir frá draumi eða
draumleiðslu Odda sem var eitt sinn
staddur úti í Flatey á Skjálfanda að vitja fiskjar.
Oddi vaknar um miðjan draum og gengur út
og horfir til himins og stjarna. Leitar svara við
tíð og tíma og segir fram athuganir sínar.
Frásögn hans--tala--finnst skráð í tímatali
Hauksbókar sem Haukur Erlendsson,
lögmaður, ásamt fleirum, er talinn hafa
skráð á 14. öld, þá úr eldri handritum.
En í Hauksbók segir líka frá kenningu
Algorismus; líklega hafa skrif varðveist
á latínu, þýdd á fornmál vort; upprunaleg
skrif á arabísku hafa enn ekki fundist.
Vitað er að Haukur var búsettur í Gaulverjabæ
í Flóa í byrjun 14. aldar, og er Hauksbók
byggð upp af handritum nokkurra fornsagna
svo og Völuspár, Rímbeglu ofl. rita. Og eru
2 kaflar Oddatölu skráðir með rithönd Hauks sjálfs.
Það merkilega er að nokkur hundruð
árum síðar, eða í byrjun 18. aldar, finnur
Árni Magnússon, handritasafnari, skinnhandrit
Hauksbókar í Gaulverjabæ eftir að sum handrit
hennar höfðu farið víða um land, að talið er.
En ratað heim!






Tilveran er greinilega ekki bara línuleg
heldur hafa algrím almyndar/heilmyndar,
(hologram), mmeð tíma okkar og tilveru að gera.
Líkt og draumar minna okkur á en
í þeim ríkir visst tímaleysi. Svo er það
hinn óræði Draumtími--Dreamtime.
Tíminn handan tímans...






#





Meira >>
 18.05.2020
 Ađ vera í takti í skógi drauma međ söng í hjarta



Bjartir og glaðir dagar
lyfta nú sál  og sinni uppúr
Covid þunganum og vetrar-
illviðrunum sem svo sannarlega
hafa sett mark sitt á skóginn;
skóginn sem griðastað drauma
hvar fulgar syngja vorinu ljóð
og við erum í takti við lífið.
Kjarnaskógur er gott dæmi.
Fuglar kvaka og vappa,
skógarþrestir, hrossagaukar,
lóur, tjaldar, allir í bland.
Tryggir heimkynnunum í
Norðrinu og sumir flogið
þúsundir kílómetra yfir höfin.





En skógurinn kemur hrakinn
undan vetri; áratugum saman
hefur ekki orðið slík eyðilegging
þar sem nú, eins og sjá má ef
stígurinn upp með Brunnánni
er genginn. Hamfarir og snjóþungi
hafa brotið niður bæði stór og
lítil tré liggjandi eins og hráviði
í slóðinni og út um allt. Hér mætti
sannarlega skapa störf hjálpfúsra
handa við tiltekt og hreinsun...
Og því skyldi heldur ekki gleyma
að margir eru hraktir eftir
veðurhamfarir liðins vetrar og
óvægna farsótt með öllu tilheyrandi.
Bjargir og samhugur þurfa að koma til
og þó fyrr hefði verið því ýmsir hópar
í samfélaginu hafa því miður lengi
verið skildir eftir og þola fyrir vikið
ekki enn frekari þrengingar.





Hugrinn leitar í annan skóg,
nú í skosku hálöndunum,
til heimkynna Skuggsjár þar,
í Balquhidder hvar presturinn
Robert Kirk þjónaði í áratugi
á 17. öld og safnaði frásögnum
af verum annarra heima. Einn
helsti faðir skoskra þjóðfræða.
Og hvar enska skáldið, William
Wordsworth, (1770-1850), orti
hugfanginn af skógardýrð og
kynngi skógardalsins fagra--
Balquhidder--, um mikilvægi
þess að eignast söng í hjarta.
Snortinn af ímynduðum tregasöng
Hálandastúlkunnar sem yrkir
jörðina og nefnir The Solitary Reaper.
Söng sem hreyfir við fjarlægum
löndum og höfum og fyllir hjörtun...
Um þær mundir var Iðnbyltingin
að setja mark sitt á líf fólks og
hversdagsins og umbylta öllu,
svo mjög að Wordswoth fylltist
sorg yfir mögulega glötuðum
tengslum við Náttúruna og visku
hennar, og þess að falla sjálf úr takti
eins og segir í ljóðinu The World is
too much with us:






The World is too much with us; late and soon;
Getting and spending, we lay waste our powers;-
Little we see in Nature that is ours;
we have given our hearts away, a sordid boon!
This Sea that bares her bosom to the moon;
The Winds that will be howling at all hours;
And are up-gathered now like sleeping flowers;
For this, for everything, we are out of tune;-
It moves us not.


-------------




Margir tala um aukið draumflæði í
því hléi sem orðið hefur á öllu
vegna covid sem sýnir hve svefn
og hvíld og að vera í kyrrð með sjálfum
sér, eykur aðgengi okkar að dýpri
sviðum vitundarinnar. Draumarnir
eru líka gjarnan áberandi skírir,
bæði táknrænir og augljósir.
Og það merkilega er að draumar af
sjálfri kórónunni, birta ekki beina mynd
af veirunni heldur koma fremur fram
sem draumar af ormum og pöddum
sem fólki finnst herja á sig líkt og
í kófi fyrir vitum þess og andliti svo
vitnað sé í nokkra svipaða slíka
drauma sem borist hafa. Talið er
að tákn yfir svo nýja reynslu sem
veiran er, birtist okkur enn í draumi
sem dýr sem við þekkjum betur til,
og að það taki langan tíma fyrir
undirvitundina eða hina sammannlegu
dulvitund að hætti Jung, að tileinka sér
og mynda nýjar myndir og tákn af
nýjum, áður óþekktum fyrirbærum.






Er Náttúran etv. að endurstilla sig
og þar með heim manna?
Vonum það besta með söng í
hjarta - og verum í takti!




#



Meira >>
 12.04.2020
 Páskar og tími upprisu: tímavíddir eyfirsks afdalabónda


Páskar enn á ný við ysta haf.
Tími upprisu og endurnýjunar
í Náttúru og mannheimi.
Tíminn í raunheimum er öðruvísi
en í draumum en samt er tími
daganna nú, líkari draumi,
raunar líkari martröð en nokkru
öðru eða nokkru sinni fyrr hjá
nútímamönnum. Að hugsa ekki
bara í tímalínum heldur í hringrás,
gæti reynst hjálplegt á þessum
óvissutímum.





Eyfirskur afdalabóndi á síðustu öld,
Kjartan Júlíusson á Skáldstöðum efri,
var þekktur af sínu heimilisfólki fyrir
áhuga sinn á tímavíddum drauma en
einnig af landkönnun sinni á fjöllum;
einkum fór hann þessar fjallaferðir
að kvöld- og næturlagi þegar skilin
dags og nætur runnu saman.
Kjartan skráði daglega drauma sína,
m.a. á pappírshólkana af Tímanum
sem þá var víða keyptur til sjávar
og sveita og barst með ötulum
póstinum/mjólkurbílnum frameftir.
Góð vinkona Skuggsjár, alin upp
hjá Kjartani og konu hans í gamla
torfbænum á Skáldstöðum til
10 ára aldurs, kann ýmsar sögur
af Kjartani og Halldóri Laxness,
sem var mikill vinur hans og
tíður heimilisgestur. Spurning
með Bjart í Sumarhúsum... og
makalaus táknfræði bæjarnafnsins,
Skáldstaðir, í því samhengi!





Kjartani varð tíðrætt um hreina og
tæra loftið á fjöllum og hve létt væri
að ganga þar í efstu hæðum.
Hann lýsir fjallakönnun sinni í bókinni
Reginfjöll að haustnóttum sem Iðunn
gaf út 1978 með formála nóbelskáldsins.
En þar talar Laxness m.a. um fjallamálverk
sem þá voru komin í tísku á veggjum
landsmanna og hve þau færa landann
nær náttúrunni og kynngi hennar.
Enduruppgötvun náttúrunnar á
stofuvegg, hvetur til fjallakönnunar
í raunheimi!





Sannkallað barn náttúrunnar, Kjartan,
sem tók mark á draumum sínum
til leiðsagnar og virti gjafir þeirra.
Um leið og hann kannaði hin þunnu
skil heimanna og möguleikana á
að sækja þangað ljós og visku,
þá virðist hann hafa sótt í
spilverk minninga úr fortíð en
líka áfram úr framtíð líkt og
frumbyggjar víða um heim.
En Öldungar þeirra kveða sér nú
hljóðs og má þar nefna Öldunga
Hopi indíána og frumbyggja
Ástralíu. Skilaboð þeirra
tengjast skilum heima og vídda:
við erum að ganga í gegnum
óhjákvæmilega gátt breytinga,
(port--portal), og inn í nýja tíma
og nýja vídd.



Verum vonbjört þessa páska
og gleðjumst yfir lífinu þrátt
fyrir viðsjár. Gerumst læs á
þær rúnir sem náttúran ristir.





#
Meira >>
 10.04.2020
 Heims-Skugginn og Náttúran: Björt í ţinni skuggsjá skín...


Nú þegar eitt hundrað dagar eru
liðnir í alheimsfaraldri kórónu,
er bjartara til himins í stórborgum
heimsins hvar dýrin hafa víða
haldið innreið sína. Mengunarkófi
er að slota nú þegar veröldin
hefur stöðvað mesta umferð á
lofti, láði og legi. Heimskerfin
komin að fótum fram hvað sem
síðar verður, með mestu kreppu
í aðsigi í níu áratugi.





Undir fullum ofurmána dagsins
fyrir Skírdag, var óræður himinspegill
nær Jörðu og skærari en nokkru
sinni fyrr í 70 ár eins og séð hafði
verið fyrir af stjarnvísindunum.
Enn heldur himingeimur tryggð
við allt sem lifir, og farfuglarnir
sem elska sín íslensku heimkynni,
eru margir lentir á landinu kalda
eftir langflugið yfir heimsálfur og -höf.





Náttúran fer sína hringrás að vanda.
Og ef til vill er tími vor ekki línulegur
heldur hringlaga, á sér byrjun sem
hefur engan enda og öfugt.
Frumbyggjar Ástralíu, s.s. Anangúar
í návígi Uluru fjalls, búa yfir með elstu,
óslitnu samfélögum manna og jafnframt
einhverjum elstu trúarsiðum mannkyns.
Dæmi um eina sviðsmynd af nokkrum,
þá var/er/verður í Alheimsdreyminu
--Dreamtime--, núverandi hamför
heimsins þegar til. En jafnframt
felur hamförin í sér fræ að nýrri
þróun, leiðina aftur og áfram heim...
Draumar gefa okkur færi á að
svifa um rými án takmarkana
tímans og gjarnan talað um þá sem
hreyfingu í rúmi--movement in space.
Nútíma draumfræðingar hafa
undanfarinn áratug, lagt sérstaka
áherslu á nauðsyn þess að dreyma
saman um bættan og betri hag og
heim til handa öllum jarðarbúum.
Samdreymi sem heyfiafl breytinga
er dreymir nýjan heim inn í veruna.





Murray Stein og fleiri draumfræðingar,
tala nú um Heims-Skuggann sem
hefur lagst yfir allt, og fá inn aukinn
fjölda drauma sem tengjast
dauða og endalokum. En hér hjá
Skuggsjá er líka talsvert um að
fólk upplifi tímann bara alveg stopp,
bæði í vöku og svefni!
Eins og þegar horft var til ferðar
til Indónesíu í mars að upplifa
Dag Þagnarinnar á Balí - Nyepi -,
þá var þegar í desember erfitt
að sjá fyrir sér og skynja að sá tími
myndi hreinlega renna upp enda
rann hann ekki upp!
Og ferðinni frestað um óákveðinn
tíma eftir kóvid takmarkanir.
Dagur Þagnar rann samt upp
þann 25. mars bæði þar og hér
og Balíbúar fögnuðu nýju ári!





Heims-Skugginn - World Shadow -,
hefur í sér fólgna möguleika að sjá
margt upp á nýtt og endurnýja
manngerð kerfin sem voru orðin
bæði plánetu og öllu lífi um megn.
Þurfum að ganga hugrökk í gegnum
gáttina á mótum hins gamla og nýja.
Keldhverfingurinn Kristján Jónsson,
fjallaskáld, (1842-1869), kvað um
lindarvatnið sem sækir hljóðlátlega
fram hvað sem öllu líður og hvernig
veröldin þrátt fyrir myrkur og syndir
mannfólksins, skín björt í skuggsjá
lindarinnar:





Veröld sveipuð synda rökkri
björt í þinni skuggsjá skín...





#
Meira >>
Síđasta frétt  1  2  3  4  5  6  7  8  9  10  11  12  13  14  15  16  17  18  19  20  21  22  23  24  25  26  27  28  29  30  31  32  33  34  35  36  37  38  39  40  41  42  43  44  45  46  47  48  49  50  51  52  53  54  55  56  57  58  59  60  61  62  63  64  65  66  67  68  69  70  Næsta frétt 
© 2007 Draumasetriđ Skuggsjá Hönnun Design EuropA