Forsíđa   

 18.05.2025
 Ţá er betra ţreyttur fara ađ sofa; draumsóleyjar í maíhita




Ómunablíða undanfarið; 
sól og heiðríkja þennan 
sunnudag og yfir 20 stig 
hér í Norðrinu.

Gróður hefur tekið svo 
vel við sér í hlýindunum
undanfarið, dag eftir dag,
að tré hafa ekki aðeins 
laufgast heldur byrjuð 
að bera blóm;
gullregnið við hússtafninn
meira að segja að laufgast
sem er óvenju snemmt
miðað við öll fyrri árin 
í Fjólugötunni, 44 talsins. 





Draumsóleyjarnar mættar
í garðinn í sínum gula og 
appelsínugula blómskrúða; 
skyldi ein og ein hvít jafnvel 
bleik, láta sjá sig síðar?
En við biðjum ekki í
yfirlæti um slík fágæti; 
þökkum í auðmýkt, 
skyldu slíkar Stefánssólir 
birtast þegar líður fram
á sumar.



Draumsóley er líka nefnd 
Melasól eða Melasóley
og sú jurt sem vex hvað
nyrst á jörðinni ásamt
hinu fagra rauðfjólulita
Vetrarblómi sem líka vex
víða hér á landi.



Draumsóley var oft
nefnd svefnurt eða
svefngras hér áður 
og talið að hún hefði 
róandi og slakandi 
verkun ef neytt fyrir 
svefn. En spurningin
er þó hvort hér var
einungis átt við sjálf
blómin í vökva og/eða 
aðra hluta plöntunnar.
Hún var líka notuð til
lækninga, þótti hreinsandi.
Komið hefur í ljós að
hún er að einhverju leyti 
eitruð; af valmúaætt.





Séra Björn Halldórsson,
(1724-1794), sem lengi 
var prestur í Sauðlauksdal 
á sunnanverðum Patreksfirði,
áleit draumsóleyjuna góða
til lækninga brjóstveiki og
við verkjum og væri blóð-
hreinsandi; hún gæti
líka hjálpað með svefn
og unnið gegn svefnleysi. 
Hann talar um blóm hennar 
lögð í vín áður en hennar
sé neytt í lækningaskyni.

(Ráðlegt að taka blómin 
og leggja í viku í hvítvín 
og taka síðan seyðið inn 
í dropaformi).




Björn var mikill frumkvöðull
í garðrækt og jarðyrkju;
flestir hafa lært um hann
á sínum bernskuárum
sem forvígismann að 
kartöflurækt hérlendis.
Honum sé heil þökk frá 
kartöfluætum landsins! 
Fyrir utan svo alla 
búbótina allar götur síðan.

(Jú, mikið rétt, Dani nokkur
byrjaði með slíka ræktun
á Bessastöðum nokkru 
fyrr. En útbreiðslan er 
fyrst og fremst þökkuð 
Birni sem hóf hana 1760).




Í ljóðinu Ævitíminn eyðist,
talar Björn um að nýta tíma
okkar vel og skila síðan
gestaherberginu vel af
okkur í hendur næsta
umönnunaraðila/ábúanda:




Ævitíminn eyðist, unnið skyldi
langtum meir.
Síst þeim lífið leiðist
sem nýtist þar til útaf deyr.
Þá er betra þreyttur fara að sofa
nær vaxið hefur herrans pund
en heimsins stund
líði í leti og dofa.



#









1  2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30 31 32 33 34 35 36 37 38 39 40 41 42 43 44 45 46 47 48 49 50 51 52 53 54 55 56 57 58 59 60 61 62 63 64 65 66 67 68 69 70 71 72 73 74 75 76 77 78 79 80 81 82 83 84 85 86 87 88 89 90 91 92 93 94 95 96 97 98 99 100 101 102 103 104 105 106 107 108 109 110 111 112 113 114 115 116 117 118 119 120 121 122 123 124 125 126 127 128 129 130 131 132 133 134 135 136 137 138 139 140 141 142 143 144 145 146 147 148 149 150 151 152 153 154 155 156 157 158 159 160 161 162 163 164 165 166 167 168 169 170 171 172 173 174 175 176 177 178 179 180 181 182 183 184 185 186 187 188 189 190 191 192 193 194 195 196 197 198 199 200 201 202 203 204 205 206 207 208 209 210 211 212 213 214 215 216 217 218 219 220 221 222 223 224 225 226 227 228 229 230 231 232 233 234 235 236 237 238 239 240 241 242 243 244 245 246 247 248 249 250 251 252 253 254 255 256 257 258 259 260 261 262 263 264 265 266 267 268 269 270 271 272 273 274 275 276 277 278 279 Næsta frétt 
© 2007 Draumasetriđ Skuggsjá Hönnun Design EuropA