Forsíđa   
 27.09.2020
 Mannúđ á haustjafndćgrum og andans draumar Steve Jobs


Miðað við ástand heimsmála og
stöðu samfélaga víða á tímum covid,
þá er mannúð trúlega það afl sem
færir okkur mannfólkið fram á við
í átt til aukinnar mennsku, réttlætis
og kærleika. Slík mannúð krefur
okkur um hugrekki og þrautseigju.
Og hvort sem fólk telur sig trúað eður ei,
eða fylgja þessari eða hinni pólitísku skoðun,
þá er óskandi, að það geti sameinast í nafni
mannúðar og hafið sig yfir skotgrafir öfga
og haturs sem næra sundurlyndi manna/þjóða.
Í þessu ljósi ber að fagna áfangasigri í
baráttu fyrir réttindum barna á flótta hér
á landi á nýliðnum haustjafndægrum.
Réttlát málsmeðferð hefur með því, sett
varanlegt mark sitt á sögu okkar hér á Fróni.
Nefnd fairness of conduct á engilsaxnesku.
Minnir á ævafornar hugmyndir um lögmál
dharma  í mannlegu samfélagi og þar með
hin upprunalegu lögmál þróunar í lífi manns
og samfélags.






Annað mál sem sker í augun nú, er
vaxandi fátækt og hrein neyð meðal
margra sem misst hafa atvinnu eins
og staðan sýnir t.a.m. á Suðurnesjum
þar sem innflytjendur eru margir.
Fólki hreinlega vanhagar um mat og
matargjafir hjálparsamtaka duga ekki til.
Það vantar mikið upp á viðbrögð við
þessum bágbornu aðstæðum einstaklinga
og heimila; langur vetur er framundan.
Lítið dugir að nefna bóluhagkerfi ferða-
þjónustunnar sem sökudólg og þar með
sópa vandanum undir teppið. Þetta sama
gallaða bóluhagkerfi með aðkomu erlendra
starfsmanna, kom þjóðinni m.a. upp úr
síðasta hruni. Tíminn til raunverulegra
endurbóta á kerfunum og breytinga viððhorfa,
hefur einfaldlega verið illa nýttur og lítið um
raunverulegar aðgerðaáætlanir og aðgerðastjórnir
í kjölfar Rannsóknarskýrslu Alþingis.
Og varla hafa einstaklingar í fátækt með að gera
hinar vistfræðilegu, efnahagslegu, heilsufarslegu,
félagslegu og tilfinningalegu hamfarir af völdum
covid-heimsfaraldursins?






Þegar gluggað er í ævisögu Steve Jobs,
eins aðalstofnanda Apple, sem lést aðeins
56 ára að aldri úr krabbameini í brisi, fyrir
tæpum 9 árum, kemur vel í ljós hve hann
var snemma andlega leitandi. Hann hafði
sem ungur og fátækur námsmaður, kynnst
Hare Krishna ashraminu í New York þar
sem hann þáði fríar máltíðir.
Jobs lagði m.a. á sig ferð um Kumaon hæðir
Norður-Indlands í Siwalik fjallgarðinum
árið 1974 til þess að sækja þar heim ýmsa
andans jöfra. En ferðina fjármagnaði hann
með vinnu sinni fyrir Atari.
(Sjá Steve Jobs, 2011, e. Walter Isaacson).
Síðar áttu margir af yngri kynslóð tækni-
frumkvöðla sem tóku Jobs sér til fyrirmyndar,
eftir að feta í fótspor hans og fara pílagímaferðir
á vit andans manna á Indlandi. Frumkvöðlar á
borð við Larry Page hjá Google, Mark Zuckerberg
hjá facebook og Jeffrey Skoll hjá e-bay.






Þeir meistarar sem Jobs leitaði eftir,
lögðu áherslu á þjónustu við mannkyn
en þar sem sá meistari sem hann hafði stefnt
á að hitta, Neem Karoli Baba, hafði látist nokkrum
mánuðum fyrir komu Jobs án þess að hann vissi,
þá sótti Jobs lengra upp i Kumaon fjöllin í
Uttarkhand. Þar hitti hann fyrir hinn mystíska
avatar Haidakhan Wale Baba, (sem sumir telja hinn
eina, sanna Babaji og ritað er um í bók Jógananda,
Sjálfsævisögu Jóga), í ashrami hans ekki langt
frá Kailash fjalli, helgasta fjalli Indlands.
Þarna dvaldi Jobs um nokkurt skeið ásamt
ferðafélaga sínum og síðar samstarfsmanni
hjá Apple, Daniel Kottke.
Báðir þessir meistarar tala fyrir mannúð
og mildi í garð samferðafólks og að útrýma
þurfi fátækt. Eða svo vitnað sé í orð
Neem Karoli Baba, sem líka var kallaður
Maharaj-ji:




Love everyone, serve everyone,
feed everyone.





Haidakhan Wale Baba birtist fyrst í
kringum 1970 í helli nálægt Kailash og
í nágrenni fjallaþorpsins Hairakhan í
Nainital fylki í Uttarkhand. Hann lést
á Valentínusardegi, 14. febrúar,1984.
En margar eldri sagnir sögðu fyrir um
komu hans á þessum helgu slóðum.
Haidakhan Baba lagði áherslu á að fólk
gæti fylgt sinni trú eða trúleysi og leitað
uppljómunar en engin trúarbögð eða siður,
væru þó Sanatana Dharma æðri, sem væru
hin eiginlegu innbyggðu lögmál andlegrar
þróunar, allt frá árdaga mannkyns.
Hann lagði áherslu á mannúð og mennsku
og að leggja alúð í verk sín, og nauðsyn þess
að einfalda líf sitt og finna jafnvægi í leit okkar
að réttlæti og kærleika í þjónustu við aðra.
Til þess þyrfti raunverulegt hugrekki, og beina þyrfti
sjónum að mikilvægi vitundarinnar og ræktun hennar
fyrir tilstilli jóga, japa, (þylja bænaorð eða möntru),
íhugunar og öndunar í kriya. Einkunnarorð hans
voru: Truth, Simplicity, and Love.
En kriya jóga byggir á jóga starfs og iðkunar
og hvílir á fornri lífeðlisfræðilegri þekkingu sem
er öllum opin óháð þjóðerni eða trúarbrögðum.
Fær leið sem fara þarf til þess að takast á við
komandi og aðsteðjandi hörmungar, sem Haidakhan
Babaji--oft nefndur Bhole Baba: hinn æruverugi
faðir einfaldleikans--, er talinn hafa séð fyrir:





We are all equals, despite the country
we come from, and national differences.
We are all a unity.





#





Meira >>
 29.08.2020
 Gáfađir dagar undir verndandi reynitré


Gáfaðir dagar sem geta gefið svör við öllu,
ritar Nóbelskáldið í Sjálfstæðu fólki.
Gott er að eiga slíka daga því dagar
vorir eru vissulega misgóðir og -gáfaðir.
Höfuðdagurinn 29. ágúst, er lýsandi fyrir
þetta afstæði daganna, hægt að líta á hann
sem gáfaðan dag sem markar tímamót
í Náttúrinni á síðsumri. 
En skuggadagur í Kristni vegna aftöku
Jóhannesar skírara sem sagður var
hálshöggvinn þann dag og heitir
Höfuðdagur eftir þeim verknaði.
Á vorum tímum er Höfuðdagur,
afmælisdagur Akureyrar í Norðrinu.






Talandi um gáfaða daga í ritverki
Halldórs Laxness, þá er skírskotað
til drauma og gáfu þeirra í Sjálfstæðu
fólki út um alla bók og í leiðinni dregin
fram vantrú Bjarts í Sumarhúsum á allt sem
andlegt getur talist--dularöfl tilverunnar--,
gott eða ekki gott. En ást hans og
trúnaður við Náttúruna stendur eftir hvað
sem á bjátar. (Og raunar heitir hann
Guðbjartur fullu nafni!).
Og nú eru uppskerudagar gengnir í garð,
og reynitréin í görðum landsmanna
standa klifjuð rauðum og bústnum
berjum eftir milda sumartíð og fuglar
syngja kátir við berjatínslu, safnandi
í sarpinn fyrir harða vetrarmánuði.






Hér áður var reyniviðurinn talinn helgur
og ekki mátti höggva hann nema af hlytist
skaði. Hann var verndartré fyrir illu og hefur
vaxið hérlendis ásamt birki, blæösp og
gulvíði frá landnámi í það minnsta.
Þetta merka og fagra lauftré er raunar ein
tegund asks, svokallaður fjallaaskur af rósaætt.
Og samkvæmt Gylfaginningu og Völuspá,
er askurinn efniviðurinn í fyrsta manninum
og álmtré í fyrstu konunni: Aski og Emblu.
Goðin fundu þau lítt megandi og
örlögalaus á sjávarströndu og Óðinn
gaf þeim önd og líf og bræður hans
gáfu þeim vit og hræring, ásjónu,
mál, heyrn og sjón.
Merkileg sköpunarsaga þar sem
mannfólkið er komið beint frá Náttúrunni
og gjöfum hennar, trjánum.






Tré og skógar eru lungu Jarðar,
sem ber að vernda og virða og nýta
á sjálfbæran hátt, ætli mannfólkið
að byggja lífvænlega Jörð og sporna
gegn tilkomu alls kyns óáránar, s.s.
alvarlegra sjúkdóma og faraldra.
Að ógleymdum gróðri sjávar, þörunga-
skógum og plöntusvifsbreiðum.
Varðandi verndarmátt reyniviðarins,
má geta þess að ein tegund reyniviðar,
hinn svokallaði Silfureynir, er nú
talið það tré sem bindur hvað mest
koltvísýring og spornar kröftuglega
gegn mengun. Gott og þarft götutré
til kolefnisjöfnunar og er elsta innflutta
tré Reykjavíkur, silfurreynir frá 1884 sem
stendur í Fógategarðinum svokallaða
við Aðalstræti 9.





Segir svo í Völuspá:




Önd þau né áttu,
óð þau né höfðu,
lá né læti
né litu góða;
önd gaf Óðinn,
óð gaf Hænir,
lá gaf Lóður
og litu góða.




#
Meira >>
 27.07.2020
 Hin sćlu sólskinslönd sumardrauma...


Sumarið er tíminn þegar hjartað verður grænt
og augu þín verða himinblá ójá, syngur Bubbi.

Og um að gera að njóta þessa stutta sumars
hér á Fróni og safna góðum minningum
í sarpinn fyrir kaldari mánuðina.
Trúlega er fyrsta skrefið bara að anda og
vera til. En nú sýna æ fleiri rannsóknir
mikilvægi slakrar og djúprar öndunar
fyrir bæði andlega og líkamlega heilsu
og aukin lífsgæði eins og Harvard Health
hefur fjallað um varðandi tengsl öndunar
og heilsu í greinum sínum. Og vitnað til
merkra rannsókna á einföldum
öndunaræfingum og tengsla þeirra við
betri líðan og bætt heilsugæði í daglegu lífi.
Slíkar öndunaræfingar eru nú kenndar víða
um lönd, s.s. af Sudarshan Kriya Yoga, sem
hefur aðalaðsetur í Bangalore á Indlandi og
er með útibú hér og þar um heiminn.
Gjarnan skammstafað SKY.
(Sjá til að mynda www.artofliving.org).





Kriya Yoga er mörgum Íslendingum,
bæði fyrr og nú, vel kunnugt í gegnum
bók Yogananda, Sjálfsævisaga Yoga,
eða Hvað er bak við myrkur lokaðra augna,
eins og sú vinsæla bók hét í fyrstu útgáfunni,
þýdd af Ingibjörgu Th. Sörenson, og út kom
hjá Leiftri árið 1958 en upphaflega í BNA 1946.
Þar sem Kriya Yoga byggir á lífeðlisfræði
og aldagömlum vísindum, og iðkendur þurfa
ekki að aðhyllast ákveðna trú frekar
en þeir kjósa, hefur þessi snjalla en einfalda
iðkun eflaust náð að heilla marga,
trúaða sem trúlausa.
Það að hægja á okkur í daglegu lífi
og gefa okkur tíma til að huga að
önduninni og slaka á, fylgja hljómfalli
líkama og sálar, hefur líka áhrif á gæði
hvíldar og svefns, bæði djúpsvefns
og draumsvefns. Rannsóknir sýna, að
bæði þessi svefnstig lengjast í betri öndun.
Margir hafa einmitt bent á, að í covid hafi
þá aftur farið að dreyma meira og betur
og séu í nánari tengslum við sjálfa sig.







Eitt af því sem covid hefur vakið okkur
til umhugsunar um, er að bera ábyrgð
á okkur sjálfum og forgangsraða.
Hver andardráttur er dýrmætur en með
grunnri öndun í gegnum munn, sem okkur
er svo títt í amstri dagsins, erum við
ekki að ná dýpri tengingu eða betri fókus
heldur þvert á mótí, streita eykst og
við göngum á orkubirgðir okkar og
ónæmiskerfi og úr verður ákveðið
jafnvægisleysi. Nú sýna nýjar rannsóknir,
að lungun eru sérstaklega útsett fyrir
kórónuveirunni en einfaldar, daglegar
öndunaræfingar sem kosta ekkert, geta
styrkt enn betur lungu og öndunarfærakerfi,
og flökkutaugina svonefndu, (vagus nerve).
En sú taug á kjarna sinn í mænukylfu og
liggur frá botni heila niður í maga í gegnum
háls--kvíslast þaðan út í bringu og
niður í maga--, og er um 60 cm löng í
fullorðnum einstaklingi. Mikilvægi hennar í
heilsufari okkar, er að koma æ betur í ljós.
Þrengsli í koki, ör hjartsláttur, vöðvastífleiki
og þrenging í brjótskassa, sýna okkur m.a.
að flökkutaugin og þar með tenging líkama
við heila, er ekki í nógu góðu lagi.
Að anda djúpt, þýðir ma.a. að anda alla leið
ofan í maga, og styrkja með því móti starfsemi
þessarar mikilvægu taugar fyrir líkamlega
sem andlega vellíðan.






Já, munum að anda að okkur íslenska
sumrinu og vera til í hinum sælu
sólskinslöndum sumardraumanna---
þar sem yndi, vor og von, vagga hverju blómi,
eins og skáldið frá Hlíðarendakoti
í hinni fögru Fljótshlíð, kvað svo fallega,
Þorsteinn Erlingsson, (1858-1914).





#
Meira >>
 20.06.2020
 Draumabláar Sumarsólstöđur og Stjörnu-Oddi


Sumarsólstöður eru í dag 20. júní og
svokölluð sólstöðumínúta kl. 21.44 í
kvöld. Dagur er nú lengstur og sól
efst á himinbaugi. Tíminn stendur í stað
eina örskotsstund í kvöld. Síðan fer sól
að hverfast til nýs tíma og dagur að styttast.
Vanalega ber sólstöður á sumri
upp á 21. júní en vegna hlaupárs í ár,
eru þær í dag. Óbreyttur vinnumaður
að Múla í Aðaldal á 12. öld, reiknaði út
sólstöður á sumri og vetri og hlaupár og
margt fleira og færði löndum sínum
þau merku fræði. Magnað!






Margt tökum við nútímamenn sem
sjálfsögðum hlutum sem forfeðurnir
þurftu að leggja á sig ómælt erfiði fyrir.
En hræringar dagsins í náttúrunni og
yfirstandandi farsótt um heim allan,
minnir okkur óþyrmilega á að tími er til að
vakna og horfast í augu við veruleikann.
Verulega snarpir jarðskjálftar urðu upp
úr kl. 15 á Tjörnesbrotabeltinu úti fyrir
Eyjafirði og Siglufirði við Gjögurtá og
fundust víða.

Í draumi nætur, sást hafblár, glæsilegur
og hraðskreiður fólksbíll bruna niður
götuna og fór ekki að neinum umferðar-
reglum, slíkur var hraðinn, en sást þó vel
í afturhutann, klesstan stuðara og klesst
aftara horn, sem sneri að húsinu, rétt áður
en hann hvarf sjónum og hélt ótrauður
áfram för sinni þó laskaður væri.

Er óskandi að það gangi eftir og að hamfarir
verði ekki frekari og verri né tjón á mönnum
og málleysingjum og eignum.
Ljóst að Náttúran fer ekki að manngerðum
lögum og reglum heldur eigin lögmálum.






Já, margt býr í draumum...
Um það vitna fornar sagnir og nýjar en
í dag á Sumarsólstöðum er minning
Stjörnu-Odda heiðruð austur í Aðaldal
með minnisvarða við Grenjaðarstað
og neðan Múla og málþingi í Ýdölum.
En Stjörnu-Oddatala sem við hann er kennd,
segir frá merkum draumi eða draumleiðslu
Odda Helgasonar, vinnumanns á Múla í
Aðaldal á 12. öld. Lýsir athugunum hans
á gangi himintungla, útreikningum fyrir
sólstöður og hlaupár, ofl. í 3 köflum.
Talan var líka glöggur vegvísir sæfaranda
að rata og sigla eftir á miðöldum.
Tekið skal fram að fátt er vitað um hinn
raunverulega og stjarnvísa Odda
nema frásögn hans, eða tala, hefur
varðveist á 2 blaðsíðum í Íslendinga-
þáttum frá 13. öld, og 2 kaflar af þrem,
birtast í Hauksbók frá 14. öld, í
Rímbegluhluta hennar.
En rím er þar notað í merkingunni tími.
Stjörnu-Oddi þótti afburða rímspakur...







Vel er við hæfi að bæði heiðra
og halda á lofti minningu Odda,
eins merkasta vísindamanns
Íslendinga og tímatalssérfræðings
okkar á miðöldum og til dagsins í dag.
Ýmislegt bendir til að Oddi hafi
haft aðgang að ritum um stjarnvísindi
og stærðfræði, s.s. hins persneska
Muhammad al-Khwarizmi--Algorithmi,
(ca. 780-850), fremsta stærðfræðings miðalda
og höfund bæði algóritmans--algrímsins
og algebrunnar. Og af mörgum nú talinn
forgöngumaður nútíma tölvunarfræða.
Að ótöldu því að Íslendingar fóru
trúlega víðar á þessum tíma um
Evrópulönd, Miðausturlönd og einhverjir
etv. um Silkiveginn lengra austur en
við gerum okkur almennt grein fyrir.
Og komust með ferðum sínum í kynni
við ýmsa heimspeki, siði og menningu,
nýjar vísindahugmyndir og uppgötvanir.
Kannski fór Oddi slíkar ferðir og/eða hlaut
vitneskju sína í ferðum draumheima!







Stjörnu-Oddatala í Íslendingaþáttum
og í Hauksbók, segir frá draumi eða
draumleiðslu Odda sem var eitt sinn
staddur úti í Flatey á Skjálfanda að vitja fiskjar.
Oddi vaknar um miðjan draum og gengur út
og horfir til himins og stjarna. Leitar svara við
tíð og tíma og segir fram athuganir sínar.
Frásögn hans--tala--finnst skráð í tímatali
Hauksbókar sem Haukur Erlendsson,
lögmaður, ásamt fleirum, er talinn hafa
skráð á 14. öld, þá úr eldri handritum.
En í Hauksbók segir líka frá kenningu
Algorismus; líklega hafa skrif varðveist
á latínu, þýdd á fornmál vort; upprunaleg
skrif á arabísku hafa enn ekki fundist.
Vitað er að Haukur var búsettur í Gaulverjabæ
í Flóa í byrjun 14. aldar, og er Hauksbók
byggð upp af handritum nokkurra fornsagna
svo og Völuspár, Rímbeglu ofl. rita. Og eru
2 kaflar Oddatölu skráðir með rithönd Hauks sjálfs.
Það merkilega er að nokkur hundruð
árum síðar, eða í byrjun 18. aldar, finnur
Árni Magnússon, handritasafnari, skinnhandrit
Hauksbókar í Gaulverjabæ eftir að sum handrit
hennar höfðu farið víða um land, að talið er.
En ratað heim!






Tilveran er greinilega ekki bara línuleg
heldur hafa algrím almyndar/heilmyndar,
(hologram), mmeð tíma okkar og tilveru að gera.
Líkt og draumar minna okkur á en
í þeim ríkir visst tímaleysi. Svo er það
hinn óræði Draumtími--Dreamtime.
Tíminn handan tímans...






#





Meira >>
Síđasta frétt  1  2  3  4  5  6  7  8  9  10  11  12  13  14  15  16  17  18  19  20  21  22  23  24  25  26  27  28  29  30  31  32  33  34  35  36  37  38  39  40  41  42  43  44  45  46  47  48  49  50  51  52  53  54  55  56  57  58  59  60  61  62  63  64  65  66  67  68  Næsta frétt 
© 2007 Draumasetriđ Skuggsjá Hönnun Design EuropA