Forsíđa   
 27.11.2023
 Óskastjarnan og tilgerđarkćti samtímans

Jörð skelfur og fyrirboðar
birtast í draumsýnum; haft
er samband við Veðurstofu og
Almannavarnir eins og við höfum
áður gert hér hjá Skuggsjá í
gegnum árin. En Skuggsjá
fagnar 20 ára afmæli nú í
nóvember.
Má segja að ákveðin mildi hafi 
verið yfir atburðum á Reykjanesi 
miðað við þá ógnarkrafta sem 
hafa verið að leysast úr læðingi 
þar allt frá 2020 og nú síðast,
í stóra skjálftanum 10. nóv. sl.
í nágrenni Grindavíkur.

En eyðileggingin og óvissan í 
kjölfarið, missir húsa og heimila 
og hvort fólk eigi afturkvæmt til 
búsetu og starfa í sínu góða
samfélagi, eru stórar og
þungar tilvistarspurningar.

Vonarbænir fyrir bættum hag 
og betri tíð til handa Grindvíkingum.





Á fullu tungli þessa mánudags
í mildri skammdegisstillu þegar 
náttúruvá steðjar að hér heima
og menn brytja/drita niður hvern
annan úti í heimi og eira engu, 
ekki heldur börnum, rifjast
upp orð skáldsins frá Arnarholti, 
Sigurðar Sigurðssonar, lyfsala,
(1879-1939), um vora óskastjörnu, 
hugans sálarsýn, í sorg, í draumi, 
eða vonarbænum.

Arnarholt í Stafholtstungum er sá
bær sem Sigurður kenndi sig við
hvar hann starfaði sem sýsluskrifari
ungur maður. Hann var fóstursonur
Björns M. Ólsen, rektors Lærða
skólans í Reykjavík, fæddur í 
Danmörku en missti Sigurð föður 
sinn og samstarfsmann Björns,
aðeins 5 ára að aldri.






Sigurður er sannarlega eitt af
draumskáldum okkar og sér
þessa víða stað í ljóðum hans.
Ófáar eru tilvísanirnar í svefn 
og drauma: draumsins myndir
geymast æ; sjá draumsins helgu,
hljóðu vé; kom draumsins
guð og gefðu hvað þú vilt...

Eitt þekktara ljóða Sigurðar
fjallar um líknargæði svefns 
og drauma og heitir Nótt:



Sefur sól hjá ægi,
sígur höfgi yfir brá.
Einu ljúflingslagi
ljóðar fugl og aldan blá.
Þögla nótt, í þínum örmum
þar er rótt og hvíld í hörmum - 
hvíldir öllum oss.



Og í hinu magnaða ljóði Lágnætti 
við Laxfoss, talar Sigurður um
þann sem þarf að dreyma og gleyma:



Sof rótt á meðan, veröld víð og breið,
og vek ei neinn, sem þarf að dreyma'
og gleyma.



En orðhákurinn sem Sigurður var,
talar líka um tilgerðarkæti sem
aldarhátt en hann var maður
tveggja tíma/alda. Þann kvíða 
og streitu sem einkenndi samtíma 
hans í eftirsókninni eftir hjóminu,
forgengilegum hlutum. Enn
einkennandi fyrir andblæ daganna.

Tilgerðarkæti sem skapar vissa 
aftengingu við það sem er og
villir sýn á raunveruleg verðmæti,
mildi og mennsku. 
Gefum óskastjörnunni og
vonarbænunum svigrúm fyrir
góðvild og samhjálp.



#

Meira >>
 28.10.2023
 Heilunarmáttur ljóđs og drauma á fyrsta degi Vetrar



Fyrsti dagur Vetrar á fullu tungli
og Venus skín skært sem bæði 
morgun-og kvöldstjarna.
Og með kvöldinu verður deildarmyrkvi
á tungli; ekki ýkja langt síðan
sólmyrkvi varð á nýju tungli
þann 14. október sl.

En hefur einhver fyrir því að líta upp?





Nú leita margir í hæglæti ljóðsins.
Ljóðlistin heilar og veitir svölun
þessi dægrin þegar alls kyns 
hörmungar og mannleg hermdarverk 
undir himninum, ólýsanleg grimmd, 
dynja á sakleysingjum, ungum sem öldnum,
og búið er að gjaldfella mennskuna.
Árásaraðilar óttast greinilega ekki 
reiði himnanna eins og haft var á orði
á fyrri tíð um veröld víða:



Það er fullt af undarlegri illsku
á reiki um jörðina, segir á einum stað.




Svefn raskaðist verulega hjá mörgum
víða um heimsbyggðina í kófinu
og hvað þá nú fyrir þolendur ofbeldisverka
og mannréttindabrota, stanslausra ógna 
og árása, í heimi þar sem þróunin er til 
aukinnar bókstafshyggju, vopnavalds og 
alræðisstjórnunar. Engu er eirt.


Hver sefur í slíku ástandi og hvað með 
hvíldir og úrvinnslu svefns og drauma
til endurnýjunar líkams-og sálarkrafta?






Lausnir eru fáar og tæki til að vinna
að friðsamlegum lausnum og sambúð
ólíkra þjóða og hópa, enn fábrotin.
Fjármagnið fer ekki í þá veru nema 
nú verði gerð bragarbót á. 
Við hljótum að geta leyst þessar 
stóru þversagnir sem við blasa 
án vopnavalds, grimmdarverka 
og eyðileggingar með spunameistara
á bak við tjöldin sem sundra og eitra.
Þurfum ekki að vera sammála og
þó við séum ósammála, þurfum 
við ekki að meiða og deyða
hvert annað. Engin lausn í því.
 

Allir þurfa að eiga sitt heima og
halda voninni um miskunnsemi
og kærleika í mannlegu samfélagi.
Voninni um að komast af og lifa 
í friði undir himninum.






Árið 2021, gaf JPV út þýðingar
Hjörleifs Sveinbjörnssonar, á 
ljóðum frá Tang tímanum í Kina, 
Meðal hvítra skýja en Tang
tímabilið stóð frá 618 til 907 og er 
talið eitt mesta blómaskeið í sögu
og menningu Kína fyrr og síðar.

Áður, eða 2008, hafði Hjörleifur þýtt 
sýnisbók kínverskrar frásagnarlistar,
Apakóngur á Silkiveginum, sem JPV
gaf líka út.



Í ljóði sínu Hugsað um kyrra nótt,
kveður eitt höfuðskáld Tang tímans, 
Li Bai (Li Po), um einfaldleikann og
sitt heima sem hann saknar
undir skæru tungli:




Við rúmið mitt skín tunglið skært,
mér finnst sem það sé hrím á jörð.
Ég lyfti höfði og lít tunglið,
ég lýt höfði og hugsa heim.



#


Meira >>
 23.09.2023
 Dul og heimaleg draumlög á Haustjafndćgrum - og sauđkindin


Haustjafndægur og morguninn
heilsar í stilltu og sólbjörtu veðri.
Haustlitir hvert sem litið er við lágt
fuglakvak bústinna fugla sem nú
hafa klárað nær öll reyniber garðsins.

Snorri Hjartarson, (1906-1986), kvað 
um haustlitina, húmflæðin, náttkul í 
lyngmó og draumlög, í ljóðii sínu
Á heiðinni:




Húmflæðin djúpum
dökkra hylja
glæður og eim;
við eyra þylja
náttkul í lyngmó,
lindir, mín æðaslög
dul og heimaleg
draumlög.




Tími uppskerunnar nú um stundir og
fjárreksturr af fjalli að mestu að baki.
Íslenska sauðkindin hélt lífi í landanum
í gegnum aldir og ár. Ekki að undra að hún
sé gamalt og þjóðlegt draumtákn.
Einkum í veðurdraumum en þar gildir að
það að dreyma margar hvítar kindur,
sé fyrir snjó. En að dreyma svarta kind,
sé til vitnis um græðgi og freistnivanda.
Almennt er kindin þó fyrir trygglyndi.
Til eru margir veðurdraumar víðs vegar
af landinu þar sem kindur koma við sögu.



Einn slíkur birtist árið 2018, í Dvergasteini,
Þjóðsögur og sagnir úr Djúpavogshreppi,
bók Öldu Snæbjörnsdóttur frá Þiljuvöllum
í Berufirði sem Skrudda gaf út. 
En Alda er ásamt eignmanni sínum, 
Emil S. Björnssyni, ættuðum frá 
Teigarhorni, núverandi eigandi að Brekku, 
húsi Skuggsjár á Djúpavogi til margra ára.


Draumamanninn Snjólf Jóhannsson
frá Krossi, (sem eftir að flytja sem ungur 
maður til Vesturheims, kallaði sig,
S.J. Austmann), dreymdi sem ungling 
hvar veturgamla kind ekkjunnar, móður hans,
og lamb hennar, væri að finna en kindurnar
höfðu horfið í hríðarbyl sem gekk þá yfir,
og ekki fundist:
 


En nóttina eftir bylinn dreymdi mig,
að ég gengi út með sjónum og væri
að horfa hvort ég sæi ekki kindur þessar
í klettunum fyrir ofan láglendið.
Þegar ég kom í Hólsnesið, sá ég hvar
tvær kindur voru að krafsa í snjóinn
í torfunum vestan við Núpsdalinn.
Ég sá að þetta voru kindurnar sem
mig vantaði.



Snjólfur sagði móður sinni drauminn
sem sjálf var mjög draumspök.
Sagði hún honum að fara sömu leið
og hann taldi sig hafa farið þar sem
hún var þess fullviss að draumurinn 
vísaði á týndu kindurnar.
Og gekk þessi draumráðning eftir,
Snjólfur fann kindurnar á sama stað og
hann sá í svefninum og segir svo frá:



Allt gekk eftir því sem mig dreymdi,
nema það að mín sálarsjón í svefninum
var það skarpari, að í svefninum þekkti ég 
kindurnar úr Hólsnesinu, en í vökunni 
var hvorki mér né nokkrum öðrum 
dauðlegum manni slíkt mögulegt.
Fjarlægðin var of mikil til þess.



Draumurinn var líkt og handan rúms
og tíma og fjarlægðirnar engar en í
vökunni þurfti hann að klöngrast langan 
og erfiðan veg til þess að komast að þeim
þó hann sæi til kinda í fjarskanum án
þess þó að sjá hvort þetta væru þær
sem hann leitaði.




Frá Berufjarðarslóðum, hefur Ríkharður
Jónsson, myndhöggvari, sagt föður sinn,
Jón Þórarinsson, verða fyrir fyrirboða og
viðvörun í einstakri dulsýn þegar hann 
bjó á Núpi á Berfufjarðarströnd og var
á leið á jólaföstu til kirkju í Berunesi:



Þegar faðir minn kemur til móts við þau,
(innsk. fjárhúsin), sér hann að ljós er í
húsunum og heyrir að þar er verið að smíða,
hefla, saga og berja af fullum krafti.



Hann fer aftur heim og spyr konu sína 
hver sé að smíða í fjárhúsunum en hún
kveðst ekki vita til þess að þar sé nokkur.
Þegar hann fer aftur af stað til föstumessu,
sér hann að búið er að slökkva í húsunum 
og smíðahljóð þagnað.

Þegar komið er yfir áramót, kom upp taugaveiki
á Austurlandi sem felldi marga, m.a. fyrri
eiginkonu Jóns og börn og einn heimilismann til.
Drepsóttin felldi þau öll á aðeins viku.
Jón brá á það ráð að flytja hin látnu í fjárhúsin
og láta standa uppi og smíða þar utan um 
þau og aðra úr sveitinni.
En hann var rómaður hagleikssmiður.




Dul og draumar í marglaga veru og vitund.
Leggjum við hlustir og skerpum okkar
sálarsýn, meðtökum gjafir draumsins.


#

Meira >>
 29.08.2023
 Flóra Íslands segir sögu og gefur minningar...


Höfuðdagur og allt í ágústblóma
er sumri hallar. Vonir standa til
að næstu vikur verði góðar
ef marka má gamla veðurtrú.



Flóra Íslands segir margslungna
sögu um samspil plönturíkis við
landhætti, fólk, byggð og menningu.
Að vera innan um íslenska flóru
og dvelja í kyrrlátu og gefandi flæði; 
kærkomið hægstreymi í dagsins önn.
Gleði yfir gróandanum og gjöfum Jarðar.




Talað er um að um 5.500 villtar tegundir
blómplantna, byrkninga, mosa, flétta,
þörunga og sveppa, vaxi hér á landi.
Sagt er frá um 1.037 þeirra í máli og 
myndum á www.floraislands.is
Flóruvef hins stórmerka og ötula 
grasafræðings, dr. Harðar Kristnssonar, 
sem lést fyrr í sumar eða hinn 22. júní sl. 
En hann veitti lengi Náttúrufræðistofnun
Íslands-Akureyrarsetri, forstöðu. 
Var þar áður prófessor í grasafræði 
við Háskóla Íslands og hafði veitt 
Náttúrugripasafninu á Akureyri, 
forstöðu um árabil.
Doktor í plöntusjúkdómum frá 
háskólanum í Göttingen í Þýskalandi 
árið 1966.
Hógvær og ljúfur sveitadrengur úr
blómlegri byggð Eyjafjarðarsveitar, 
fæddur að Arnarhóli, í nóvember 1937.






Fræðastörf Harðar hvildu á herðum
ötulla forvígismanna náttúrufræða
hér á landi og má þar telja norðanmennina
og skólameistara Menntaskólans á Akureyri,
Stefán Stefánsson og Steinsdór 
Steindórsson frá Hlöðum. En sá fyrrnefndi 
skrifaði gagnmerkt rit um íslenskar 
háplöntur, Flóru Íslands, upp úr 
aldamótunum 1900. Og sá siðari
þýddi úr dönsku hina stórmerku 
Ferðabók náttúrufræðingsins og skáldsins
Eggerts Ólafssonar, og Bjarna Pálssonar,
síðar landlæknis. Örn og Örlygur gaf þá
þýðingu ú í tveim bindum árið 1978.






Fjölmargir hafa notið góðs af fræðum
og miðlun Harðar í gegnum árin
og þar með dýpkað kynni sín af flóru
landsins með lestri handbóka hans
um blómplöntur, byrkninga og fléttur.
Og síðar stórvirkisins Flóra Íslands,
Blómplöntur og byrkningar, sem út 
kom árið 2018. Meðhöfundur Harðar
að þessu glæsilega 740 blaðsíðna verki,
var grasafræðiprófessorinn Þóra Ellen
Þórhallsdóttir. Er verkið myndskreitt 
með máluðum og teiknuðum myndum 
eftir Jón Baldur Hlíðberg líkt og annað
tímamótaverk í grasafræði. 
Það hafði verið bók Ágústs H. Bjarnasonar 
frá árinu 1973, Íslensk flóra með litmyndum 
en myndir í henni voru teiknaðar af 
Eggerti Péturssyni.




 

Ljósar sem huldar lendur plantna,
heilu veraldirnar, nutu natni Harðar í
umfjöllun og meðförum. Tónlist og 
dans voru ætíð hugleikin; fóru vel
saman með léttleika seiðandi 
blómheima. Draumræn upplifun.

Helga Hallgrímssyni, náttúrufræðingi og
skólabróður Harðar frá Göttingen
og samstarfsmanni til margra ára,
farast svo orð í nýlegri minningargrein:



Stundum var engu likara en hann lifði 
í öðrum heimi.



Við hjá Skuggsjá minnumst Harðar með
djúpu þakklæti sem fyrirtaks kennara 
og glettins ljúflings. En fyrstu kynnin 
hófust á þeim góða stað,
Náttúrugripasafninu á Akureyri,
við dýrmæta leiðsögn þerra félaga,
Harðar og Helga.
Safnið var til húsa að Hafnarstræti 81
en þar í húsi hafði Amtsbókasafnið 
lengi verið og síðan Tónlistarskólinn.
Margir eiga þaðan góðar minningar

Megi blómin halda áfram að umvefja
Hörð á nýjum lendum.




#

Meira >>
Síđasta frétt  1  2  3  4  5  6  7  8  9  10  11  12  13  14  15  16  17  18  19  20  21  22  23  24  25  26  27  28  29  30  31  32  33  34  35  36  37  38  39  40  41  42  43  44  45  46  47  48  49  50  51  52  53  54  55  56  57  58  59  60  61  62  63  64  65  66  67  68  Næsta frétt 
© 2007 Draumasetriđ Skuggsjá Hönnun Design EuropA