Forsíđa   
 24.12.2020
 Draumurinn um Ljósiđ og austfirskur Silfurbergskristall breytir Heiminum


Enn á ný eru Jól--Hátíð Ljóssins--
haldin hér í heimi; ekki að undra að
mannkyn hafi frá örófi alda
velt fyrir sér ráðgátunni um það
undur sem ljósið er.
Við tökum raunar mörgu sem
svo sjálfsögðu í lífi okkar í
nútímanum að okkur hættir til
að gleyma að hrífast yfir sköpunar-
verkinu og sýna því lotningu.
En að finna til lotningar gagnvart
náttúrunni og Alheimi og upplifa
einingarkennd með öllu lífi,
var sá hæfileki mannsins sem hinn
mikli eðlisfræðingur og höfundur
afstæðiskenningarinnar um rúm
og tíma, Albert Einstein, taldi að við
mættu alls ekki missa sjónar af.






Talandi um ljósið og undur þess,
þá má segja að íslenskur kristall
hafi gjörbreytt ljósfræðinni og allri
rannsóknartækni og þar með
náttúruvísindum og vísindasögunni.
Lagt grunn að framþróun sem varð
undirstaða nýrrar samfélagsgerðar.
Þessi kristall er hið einstæða, stóra
og tæra silfurberg á Austfjörðum,
sem finnst í svokallaðri Helgustaða-
námu eftir samnefndum bæ
við Reyðarfjörð. Og lesa má um
í stórmerkilegri bók feðganna Leós
Kristjánssonar og Kristjáns Leóssonar,
Silfurberg - Íslenski kristallinn sem
breytti heiminum. Bókin kom út hjá
Máli og Menningu nú fyrir jólin.






Íslenska silfurbergið--Iceland Spar--sem
er af kalsít kalksteini og fyrirfinnst jú víðar
á jörðinni en er hér stærra og hreinna og búið
þannig kostum, að það gerði m.a.framleiðslu
og flutning raforku mögulega og stuðlaði að
framförum í efnistækni og fjarskiptum og
matvæla-og efnaframleiðslu. Olíuvélar og
efnaframleiðsla á iðnaðarskala tók nú við
af hestvögnum, gufuvélum og gaslömpum.
Þetta hreina, stóra og tæra silfurberg af
Austfjörðum, komið úr iðrum Jarðar en í
leiðinni dásamlegur Sólarsteinn til siglinga,
reyndist lykill að ráðgátum um eðli ljóss,
raf-og segulhrif, uppbyggingu efnisheims,
víxlverkun ljóss og efnis og eðli rúms og
tíma í Alheimi sem vísindamenn á borð við
Einstein og þar áður Skotinn James Clerk
Maxwell ofl. ljósfræðingar, bæði þekktu og nýttu.
Þessar uppgötvanir má rekja til notkunar
svokallaðs prismaglers sem unnið
var úr íslenska silfurberginu og skapaði
tvöfalt ljósbrot í stað einfalds ljósbrots
glerja sem áður höðfu verið notuð.
Prismaglerið ættað úr austfirskum firði,
hafði afdrifarík áhrif á framþróun vísinda
á 250 ára tímabili, allt frá 17. og fram á
20. öld, eða þar til farið var að nýta
plastefni í ljósfræðitækjum.
Töfrum lík saga og sönn í íslensku
sem alþjóðlegu samhengi, byggð á
gjöf Fósturjarðar vorrar sem ruddi
brautina að nútíma tækni, vísindum
og lifnaðarháttum!






Um leið og við höldum hátíðleg Jól
og hyllum Ljósið, munum eftir að
gleðjast yfir töfrum tilverunnar,
finna sinn hjartastað og setjast að.
Verum þess minnug að
Jólin eru sáttmáli um frið sem við
gerum allan heiminn við, eins og
segir í nýju lagi Baggalúts og Bríetar
og Valdimars, Jólin eru okkar:






Jólin eru sáttmáli um frið sem við gerum allan heiminn við,
Hlið við hlið.
Jólin eru okkar og allt sem fylgir  þeim,
Lýsa upp töfraheim...





#










Meira >>
 21.12.2020
 Yfir Bćnum Heima á Vetrarsólstöđum - og Jólastjarnan


Vetrarsólhvörf þegar sólin staðnæmist
eina andrá kl. 10.02 þennan morguninn,
og hverfist síðan um sjálfa sig og tekur
að klifra hærra á himinbaug, dag tekur
að lengja og birta, þessi sólhvörf heilsa
okkur nú við yzta haf í sorgarskini hamfara.
Á himni í suðvestri: magnað og einstakt
stjörnuspil þegar pláneturnar Satúrnus og
Júpíter virðast snertast í línulegri samstæðu
og einstakri uppröðun þessara Vetrarsólhvarfa.
Hefur ekki gerst með þessum hætti svo nálægt
Jörðu í 400 ár.
Sumir fræðimenn telja nú að hið sama stjörnu-
samstæðuspil hafi átt sér stað á hvelfingunni
fyrir 2000 árum og að ljósblossi frá Satúrnusi
á þessu móti plánetanna sem þá sást á himni,
sé etv. hin helga Jólastjarna.







Ótrúleg mildi--sumir tala um kraftaverk--,
þegar algjör mannbjörg varð á Seyðisfirði
þann 18. desember sl. Aurskriðurnar
úr Botnum hjá Búðará, sneiddu báðum
megin framhjá ófáum húsum og voru alls
25 manns enn í húsunum! Með ólíkindum
sjá myndir af atburðinum, í beinni.
Hér hafa ofanflóðavarnir skilað sínu.
En eyðileggingin er átakanleg og mikil;
gleymum ekki að aftur má byggja húsin
sem fóru með sínu mikla sögulega og
menningarlega mikilvægi - og sárin gróa.

Breiðablik hét bústaður Baldurs hins
góða goðs, hins hvíta áss; hér á landi
hefur húsum landsmanna sums staðar
verið gefið nafnið Breiðablik líkt og
aldamótahúsinu sögufræga, Breiðabliki
á Seyðisfirði.
Fyrsta raunverulega viðvörunin: þegar
aurinn úr Nautaklauf flutti Breiðablik um
tuga metra leið. Það að húsið standi
upp úr aurflóðinu þó illa laskað sé, er
góð áminning um sögu, fólk, menningu
og líf í firði sem lætur ekki að sér hæða...







Talandi um goð, þá er samkvæmt
þjóðtrúnni eins og kemur fram hjá
ýmsum fræðimönnum, s.s. Sigfúsi
Sigfússyni, þjóðsagnasafnara, sem
lengi bjó á Seyðisfirði, mikil helgi bæði 
í heiðni og kristni á austfirsku fjöllunum.
Tvær goðaborgir--bústaðir goða í háum
fjallasal--, eru taldar vera á Seyðisfirði,
sitt hvorum megin bæjarins, önnur í
tignarlegum Bjólfinum og hin í glæstum
Strandartindi, (og raunar ekki langt í
næstu borg/borgir milli Skælings
og Bungufells í Loðmundarfirði).
Með náttúruna á fleygiferð í óvissum
heimi, þurfa allir að læra, meta og endurmeta.
Hvað er hvurs virði og til hvurs er lifað?
 






Það þarf að draga hratt lærdóm
af ógnandi umturnun veðurkerfa,
læra á úrkomuákefð, sífrerahjöðnun
á fjöllum og geta brugðist raunsætt
við auknum hamförum. Allt gerist þetta
vegna loftslagsbreytinga, að líkindum.
Ein leið er að drena fjöllin við fjörðinn
fagra og/eða færa byggð, fjörðinn með
eitthvert besta hafnarstæði frá
náttúrunnar hendi sem um getur.
Ekki tilviljun að þar leggist farþega-
ferjur að frá Evrópu eins og Norræna.
Og ekki tilviljun að hér var fyrsta sæsíma-
samband við útlönd, og að hér höfðu Bretar
og Bandaríkjamenn hersetu í síðari
heimsstyrjöld eins og lesa má um í
lifandi frásögn Kristínar Steinsdóttur
í bók hennar Yfir Bænum Heima sem 
út kom nýlega hjá Máli og Menningu.
Það er ekki svo langt út fjörðinn á
vit annarra landa og þjóða...






Hugur okkar er hjá Seyðfirðingum.
Megi Jólastjarnan eina og sanna
varpa birtu, von og kærleik.á íbúana
og fjörðinn fagra og veita þrek og þor
til þess að halda áfram í harðneskjulegu
mótlætinu : það kemur alltaf nýr dagur.
Og þó húmi um hauður og voga,
mun himinsins stjörnudýrð loga.


Megi nýr dagur rísa; Seyðisfjörður á
marga haga listasmiði á tré en líka
á pappír, tón, striga, stein, textíl.
Mannauðinn vantar ekki til þess
að byggja upp á ný í listafirði.
Það mun rofa til eins og seyðfirska
skáldkonan frá Vestdalseyri,
Vilborg Dagbjartsdóttir, yrkir um
í ljóði sínu Rof:




Að vakna á sólbjörtum morgni,
finna dyr opnast
djúpt í myrkri sálarinnar

Birtan að ofan
streymir óheft niður
og hríslast um hverja taug

Þú verður ein heild
manst allt
skilur allt

- ert fær um að halda áfram
óttalaus
á leiðarenda.


(Vilborg Dagbjartsdóttir; 1930- ).





#
Meira >>
 29.11.2020
 Draumur og vera ţessa heims og annars...


Tími vor á jörðu hér er ólíkindatól,
sem markar mannlífinu viss tímabil
vaxtar og þroska eftir hverjum aldri.
Og tíminn er ekki allur þar sem
hann er séður: hann er afstæður!
Skuggsjá tímans óræð með órofa
tengingu við heima, rúm og
víddir þessa heims og annars.
Forngríski spekingurinn Antiphon -
sófistinn Antífon -, (og fjölmagir aðrir
fyrr og síðar), taldi að tíminn væri
frekar hugtak, mæling en raunvera.
Í nútíma skammtaeðlisfræði virðist
þessi forna sýn eiga sterka stoð.
Antífon reit merkt rit um drauma og
túlkun þeirra; talinn óratór á 5. öld
f. Kr. og samtímamaður Sókratesar.
Draumar vekja spurningar um þróun
vitundarinnar og tíma og rúm,
dreymandinn upplifir ákveðið
tímaleysi og nær að svífa um
víddir rúmsins ófjötraður af
takmörkunum vökuvitundarinnar.







Nú er genginn á vit forfeðranna
okkar ástkæri fræðari í rannsóknum
þessa heims og annars, prófessor
Erlendur Haraldsson, kennari í jafnólíkum
greinum og Tilraunasálfræði og Dulsálfræði
við Háskóla Íslands. En hann var leiðbeinandi
að BA-ritgerð Bjargar, forstjóra Skuggsjár,
um trúarreynslu í ljósi Trúarlífssálfræði -
Psychology of Religion - og umbreytingarmátt
djúprar mystískrar reynslu á persónuleikann.
En rannsóknir sýna, að leitin að merkingu
er sammannleg, og að þeir sem telja sig
trúlausa, upplifa líkt og trúaðir, umbreytingu
við djúpa einingar-og náttúruskynjun; sýnin
til lifs og Alheims verður önnur.


Erlendur lést sunnudaginn 22. nóvember sl.
tæplega níræður að aldri og vann nær
óslitið að sínum hugðarefnum allt til enda. 
Hann var magnaður vísindamaður og
kennari og lagði gríðarlega mikið af mörkum
til vísindalegra rannsókna á sviði Dulsálfræði -
Parapsychology og skrifaði um það efni
fjölmargar greinar og bækur. Einhver
afkastamesti fræðimaður á sviði
íslenskrar sálfræði fyrr og síðar, en á
ritaskrá hans, sem spannar nær 60 ár,
eru um 360 titlar greina og bóka.







Við kunnum Erlendi hugheila þökk fyrir
hans styrku ráð, alúð og stuðning við
starfsemi Skuggsjár í gegnum árin.
Hann náði að hefja Dulsálfræðina til
vegs og virðingar með því að beita
vel ígrunduðum vísindalegum tólum
Tilraunsálfræðinnar - Experimental
Psychology - og skapa sér fastan sess
innan fræðasamfélagsins heima og erlendis.
Afstæði tíma og rúms, heima og vídda, og
endalok lífshlaupsins og hvort eða hvað þá
tæki við, framhaldslíf, ein jarðvist, eða fleiri,
voru hugleikin viðfangsefni ásamt dulrænum
málefnum, s.s. skyggni og miðilsgáfu
og sýnum fólks á dánarbeði. Dulargáfur
eins og hugmegin, (psychokinesis), fjarvísi,
fjarhrif og hugsanaflutningur og ýmsir
yfirnáttúrulegir hæfileikar, svokallaðir siddhis
indverskra jóga, voru einnig rannsóknarefni.
Rannsóknir hans á trú, þjóðtrú og reynslu
Íslendinga af yfirskilvitlegum fyrirbærum,
forspárhæfni og berdreymi Íslendinga og
trúnni á líf eftir dauðann, eiga enn í dag
fáa sína líka hvað gæði vísindalegra
rannsókna og alla  framsetningu varðar.
Og lesa má um í tímamótaverki hans frá
1978, Þessa heims og annars, útgefnu
hjá bókaforlaginu Skuggsjá í Hafnarfirði.
Af sinni alkunnu hógværð og rökfestu,
svaraði Erlendur eitt sinn spurningu
blaðakonu um það hvort hann teldi
sjálfur líf eftir dauðann:
Mér kæmi á óvart ef svo væri ekki.


Við trúum að Erlendur muni eiga góða heimkomu,
eins og Indriði miðill, hefði orðað það, en um hann
reit hann bókina Indriði Indriðason - Merkasti íslenski
miðillinn, ásamt kollega sínum, Lofti R.Gissurarsyni;
kom bókin fyrst út á ensku 2016 og á íslensku 2019.
Fari hann blessaður á vit handanheima eftir langa
göngu á lífsins vegum og haldi för sinni ótrauður áfram.






All the world's a stage,
And all the men and women merely players;
They have their exits and their entrances;
And one man in his time plays many parts,
His acts being seven ages...



(W. Shakespeare, 1564-1616;
úr As You Like It).




#

Meira >>
 31.10.2020
 Fagri Blámáni í heiđri vídd og hljóđu húmi Hrekkjavöku...


Fagur og fylltur Blámáni birtist á kvöld-
og næturhimni þessa Hrekkjavökuna
og er einstakur um margt:
í fyrsta sinn síðan árið 1944, birtist hann
nú í öllum tímabeltum Jarðkringlunnar.
Og honum til aukins vegs, skín Mars
skær á suðurhimni og varpar sinni
rauðleitu birtu á vatnsbláan mánann
líkt og í Eyjafirði undangengna nótt.
Í október þetta árið, hafa risið 2 full tungl,
hið fyrra, svokallað uppskerutungl,
þann 1.-2. október. Og nú hið síðara
þennan sólarhringinn sem markar
lok sumars og byrjun vetrar, á hinni
fornu hátíð forfeðra vorra, Kelta,
Samhain, og markar í Kristni,
aðdaganda Allraheilagramessu,
þann 1. nóvember.
En Blámáni--Blue Moon--heitir
þegar tvö full tungl verða innan
sama almanksmánaðar.







Þessi mögnuðu tímamót ganga
gjarnan undir nafninu Halloween -
Hrekkjavaka - þegar kynjaverur
og alls kyns vættir/óvættir fara á stjá.
Trúlega er siðurinn upphaflega kominn
frá Írum vestur um haf og þaðan aftur
til Evrópulanda og hefur á sér amerískt
yfirbragð. En í Heiðni voru vegleg blót haldin
til þess að kveðja sumar og fagna vetri,
svokölluð Dísarblót á Veturnóttum sem
er tímabilið frá síðasta degi sumars á
miðvikudegi til fyrsta dags vetrar sem
ætíð ber uppá laugardag, 24. október.
Margir núlifandi Íslendingar hafa alist
upp við að halda fyrsta Vetrardag
hátíðlegan í mat og drykk og ýmsum
fögnuði. Hinu kvenlæga er fagnað
sem sjá má í fornsögum vorum,
dísum, valkyrjum og nornum blótað
á fyrri tíð þannig að hinn írsk/ameríski
Halloween hittir vel inn í forna hefð.
Og Grýla gamla smellpassar inn
í þessar gömlu sem nýju hefðir!






Halloween stendur fyrir Hallow's Eve,
og hallow þýðir helgur; kvöldið fyrir
messu helgra manna/kvenna, þeirra
sem ekki áttu sérstakan helgidag.
Hallow's Eve: kvöld dáinna, kynjavera,
forynja, afturgangna, drauga, skrímsla,
norna, seiðskratta og djöfla, þessara
sem annarra vídda og heima.
(Hó, hó, hó, hvað er hér á sveimi?).
Grikk eða gott er nú sett á bið en
hægt að nasla það í heimahúsum
og fagna draumkenndu flæði Vökunnar.
Þakka uppskeru sumars og gleðjast
yfir komu vetrar þegar margt
rís upp, bæði hins ljósa og dimma,
þess minnug að ljós vonar og kærleika
þarf að vaxa og dafna í mannheimi
á þessum kórónutímum þegar
misbrestir í grunnkerfum samfélaga
verða enn berari og ójöfnuður eykst.
En eins og skáldkonunni úr Flatey á
Breiðafirði, Ólínu Andrésdóttur,
(1858-1935), verður að orði um
hlýhug og vinarþel, getur líf risið upp
úr frosthörkunni í krafti kærleikans:

... sem uppvekur rósir úr urð og í snjó
með ylnum frá kærleikans glæðum.






Fagur stjörnuhiminn hefur iðulega glatt
okkur árið 2020, og haustfegurðin mikil
hér á Norðurhjara á besta hausti
í langan tíma. Um margt má segja
að vistkerfin hafi notið góðs af veirufárinu,
nú þegar hægir á öllu--spurning hvort fárið
er í grunneðli sínu vistfræðilegt--; mengun
er minni og margar plöntu-og dýrategundir
hafa náð sér aftur á strik.
Ljóst að heimurinn getur ekki horfið aftur til
fyrri helsýnar og mannfólkið þarf að endurhugsa
stöðu sína; slíkri kollvörpun og umbreytingum
fylgir líka óvissa, djúp sorg og tilvistaráþján:
mannkyn þarf að virða einingu alls sem lifir.
Ennfremur hafa orðið merkar uppgötvanir
á himingeimnum sem hrista upp í
viðteknum skoðanamynstrum og opna
nýja sýn í kosmísku samhengi: mögulegt
líf á öðrum vetrarbrautum; gastegundin
fosfín uppgötvast á Venus, systurplánetu
Jarðar þar sem örverur gætu þrifist;
og vötn hugsanlega undir yfirborði
Mars - Rauðu plánetunnar.






Náttúran stendur ávallt fyrir sínu og
lætur ekki að sér hæða um leið og
tíminn heldur sína rás. Og mörg eru
náttúruljóðin sem ylja sál og sinni líkt
og eftirfarandi í þýðingu eins af feðrum
íslenskra fornleifa- og þjóðfræða:




Hljótt er húmið væra;
heið er víddin blá;
tindrar döggin skæra
Unnar spegil á.



(Brynjúlfur Jónsson frá Minna Núpi;
1838-1914. Þýð. á ljóði danska
skáldjöfursins Johann Ludvig
Heiberg;1791-1860).




#
Meira >>
Síđasta frétt  1  2  3  4  5  6  7  8  9  10  11  12  13  14  15  16  17  18  19  20  21  22  23  24  25  26  27  28  29  30  31  32  33  34  35  36  37  38  39  40  41  42  43  44  45  46  47  48  49  50  51  52  53  54  55  56  57  58  59  60  61  62  63  64  65  66  67  68  Næsta frétt 
© 2007 Draumasetriđ Skuggsjá Hönnun Design EuropA