Forsíđa   

 29.09.2021
 Ljúfir eru draumar í rökkursölum...




Haustið í allri sinni litadýrð er
mætt á svæðið: haustjafndægur
nýafstaðin; fullt tungl stuttu fyrr.
En hér áður var talað um sumar
frá um 20. maí til 20. september
og gjarnan miðað við jafndægur
á hausti en þau falla allajafna á
bilinu 21. til 23. september.
Nú líður tími fljótt til veturnátta
síðla októbermánaðar.
Magnaður tími genginn í garð;
gengur nú mörgum betur
að svífa í draumlönd inn
þegar rökkur færist yfir.





Svefn hefur farið úr skorðum hjá
mörgum í kófinu og þarf að gera
átak í að huga að svenfheilsu, ekki
síst hjá börnum og unglingum.
Fræða um svefn, kynna bjargráð
til þess að bæta svefn og leggja
áherslu á að unglingar þurfa mun
lengri svefn en þeir eru t.a.m. að fá.

Á sama tíma hefur kvíði aukist
hjá öllum aldurshópum en þekkt
er að kvíði speglast í draumlífinu.
Martraðarkenndum draumum
fjölgar og svefnórói eykst eins og
draumrannsóknir við Læknadeild
Harvard háskóla sýna m.a.
Víða á Vesturlöndum er nú
talið að fyrir kófið hafi um 4 af
hverjum 10 átt erfitt með svefn
en nú eru þeir um 6 af hverjum
10, að talið er. En til eru líka þeir
sem telja svefn sinn  hafa lagast í
kófinu og þeir hafi náð að endurmeta
lífsvenjur sínar til hins betra og
upplifa lækkað kvíðastig.





Ljóst er að ónógur svefn og/eða
svefntruflanir hafa heilmikil áhrif á
eðlilega og mikilvæga úrvinnslu
tilfinninga og hugarstarfs og geymd
í minni, og þar með á draumlífið.
Allt mikilvægt fyrir vöxt og þroska
heilbrigðs miðtaugakerfis og úthald
og aðlögun í daglegu lífi.

Fyrir utan það að draumar hafa
ákveðinn sess meðal þjóðarinnar
fyrr og nú bæði menningarlega
og félagslega.

Í Gallup könnun Skuggsjár frá 2003,
kom í ljós að 72% fólks á aldrinum
18 til 85 ára, taldi drauma hafa
merkingu fyrir sig í daglegu lífi,
vera mikilvæga fyrir þá sjálfa
og ekki bara eitthvert merkingar-
laust rugl. Úrtakið var 1200 manns
og tekið út frá aldri, kyni, búsetu
og efnahag. Svarhlutfall 67.5%
sem telst býsna gott.





Nú í haustbyrjun, lést ein fyrsta
atómskáldkona okkar Íslendinga,
seyðfirðingurinn Vilborg Dagbjartsdóttir,
kennari, þýðandi og barnabókahöfundur.
Talandi um haustið, farfuglana: skógar-
þrestina og reyniberin, þá segir hún
lítil börn með skólatöskur, koma með
haustið.

Sum ljóða Vilborgar koma á sinn
kyrrláta hátt inn á nóttina og
svefn og drauma eins og
segir í Næturljóði hennar:





Hve mjúklát er nóttin,
mildum höndum fer hún
um slaka hörpunnar strengi
og kveður þig í svefn.



Ljúfir eru draumar
í rökkursölum hennar
þar sem aldrei skíma
nær af dagsins ljósi.



Fölur tunglskinsbjarmi
lýsir inn um glugga
rétta fullan bikar
þjónustufúsar hendur.



(Vilborg Dagbjartsdóttir,
1930-2021).


#









Síđasta frétt 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30 31 32 33 34 35 36 37 38 39 40 41 42 43  44 45 46 47 48 49 50 51 52 53 54 55 56 57 58 59 60 61 62 63 64 65 66 67 68 69 70 71 72 73 74 75 76 77 78 79 80 81 82 83 84 85 86 87 88 89 90 91 92 93 94 95 96 97 98 99 100 101 102 103 104 105 106 107 108 109 110 111 112 113 114 115 116 117 118 119 120 121 122 123 124 125 126 127 128 129 130 131 132 133 134 135 136 137 138 139 140 141 142 143 144 145 146 147 148 149 150 151 152 153 154 155 156 157 158 159 160 161 162 163 164 165 166 167 168 169 170 171 172 173 174 175 176 177 178 179 180 181 182 183 184 185 186 187 188 189 190 191 192 193 194 195 196 197 198 199 200 201 202 203 204 205 206 207 208 209 210 211 212 213 214 215 216 217 218 219 220 221 222 223 224 225 226 227 228 229 230 231 232 233 234 235 236 237 238 239 240 241 242 243 244 245 246 247 248 249 250 251 252 253 254 255 256 257 258 259 260 261 262 263 264 265 266 267 268 269 Næsta frétt 
© 2007 Draumasetriđ Skuggsjá Hönnun Design EuropA