Forsíđa   
 01.01.2024
 Glóey sendir geisla frá upphimni og úlfaldinn og nálaraugađ



Dögun nýs árs 2024 hefur risið
og glóey sendir geisla sína 
frá upphimni. Það birtir hægt
og hægt og sólin--glóey--,
gleðinnar móðir, hækkar á lofti.
Já, hænufetið er býsna drjúgt.




Megi nýja árið færa heimsbyggð
langþráðan frið frá stríðsböli og 
illvirkjum misviturra manna.
Heimsbyggð sem er í sárri þörf
fyrir góða leiðtoga--mannvini--
og sem illu heilli er víða stjórnað
af hættulegum siðblindingjum.
Okkur virðist vanhaga um úrræði,
vitrænar og lagalegar lausnir, 
tólin til að bregðast við hryllingnum.
En þessi sjokkþerapía sem valdhafar
beita víða, mun gefa af sér andsvar.
Megi mannleg snjallhugsun, elska 
og elja gefa af sér rétta viðbragðið
og snúa heimi af heljarbraut.




Hér heima er stóra verkefnið 
að vinna að knýjandi lausnum 
á mörgum sviðum samfélagsins,
ekki síst hvað varðar fátækt barna.
Skammarlegt að um 10 þúsund
börn búi í gjöfulu landi við fátækt.

Það að kyrja eins og einhverja 
möntru að þetta eða hitt séu
áskoranir, leysir ekki verkefnin 
í sjálfu sér. 
Ekki frekar en tvísýna stöðuna í 
eldvirknikerfum á Reykjanesi 
og öryggisleysi íbúa þar og víðar 
á landinu í hamförum náttúrunnar
svo og örmögnun hjálparliða.
Hvar er hjálpin hjálparans, er
stundum haft að orði.
Fleiri hendur þarf á dekk og nú þarf
að forgangsraða fjármunum af mun
meira raunsæi en verið hefur.




Menningar- og framfarastofnun
Sameinuðu þjóðanna,
UNESCO, tileinkar nýja árið 
ákveðnum bústofni: hófsömum, 
tryggum og harðgerum dýrum af 
kamelætt/camelids. Dæmi eru
úflaldar og kameldýr, gjarnan 
kölluð skip eyðimerkurinnar.
Hið gleðilega er að á um
tveim áratugum hafa þessi
þrautseigu dýr náð að nær 
tvöfalda fjölda sinn í Afríku 
og Asíu og telur stofninn 
nú um 39 milljónir.

Önnur dýr af kamelætt, eru 
lamadýrin og dýr þeim skyld, 
s.s. apakkadýr, guanadýr 
og vikjánadýr.
Þessi bústofn eyðimarka og 
hálenda, hefur reynst uppistaðan 
í menningu og lífsafkomu 
þjóða og þjóðarbrota víða 
um heim, líkt og kindur, 
nautgripir og hestar hér á 
Norðurhjara.
Gefa af sér mjólk, kjöt, ull,
klæði og skæði, og sum bera
bæði fólk og vörur á milli 
staða og samfélaga. 
Traustir reiðskjótar, bæði 
úlfaldar og kameldýr sem ekki 
skyldi að hæðast. Stundum 
hent á lofti að þessir meinlausu
grasbítar hafi verið búnir til 
úr afgöngum Almættisins!



Verum minnug hógværðar
og þjónandi elju og elsku. 
Segir ekki á helgri bók vorri, 
Markús 10: 25:

auðveldara er úlfalda 
að fara í gegnum nálaraugað 
en auðmanni að komast inn 
í Guðsríki.




#


Meira >>
 31.12.2023
 Ţráin eftir merkingu og sannleika í falsheimi


Nú kveðjum við árið sem er að líða.
Það hefur einkennst af öfgum í náttúru
og loftslagi og stríðsrekstri í mannheimi. 
Engu er eirt.
Búið að færa öll eðlileg mörk til og storka
heilbrigðri siðvitund: brjóta alla sáttmála.

Þá er og ljóst, að ein mesta hættan 
sem steðjar að mennsku og mildi manna 
og samfélaga á milli, er fals og lygi; 
við látum bæði glepjast og blekkjast.
Okkur skákað til eins og hverjum 
öðrum peðum á taflborði hættulegra 
og lúmskra afla, oft á tíðum án þess 
að vita hverjir raunverulegir 
leikstjórnendur eru.

Miðlun upplýsinga fyrir tilstilli æ
þróaðri tækni, til góðs en líka ills:

upplýsingaóreiða, rógur og álygar; 
meðvitaðar falsfréttir; ófrægingar 
til mannorðsmissis; ljúgvitni og
meingjörð; ásetningur til skaða: 
meinfréttir og djúpfalsanir gervigreindar; 
til marks um öfugþróunina. 
Falsheimur.



Eldhugsun 
hvað dvelur þig?



Svo kveður þjóðskáldið Hannes 
Pétursson, (1931-  ), í ljóði sínu
Stund einskis, stund alls,
í bókinni Stund og staðir frá árinu 
1962 og sem Helgafell gaf út.
Endurútgefin árið 1991.




Vonin er lífseig eins og dæmin 
sanna og langt frá því að vera
öll úti. 
Og ef til vill verður þrá okkar eftir 
raunverulegri merkingu og 
merkingarbærri reynslu, okkur 
til bjargar í heimi hégómans 
og faguryrða falsins í hvaða mynd 
sem þetta kann að birtast.
Þráin eftir merkingu og sannleika.



Brenndu til ösku
þetta aðsetur lyginnar
þetta hreiður hégómans.



Munum að við eigum rödd og tungu.
Og gleymum ekki að undrast.

Tíminn er viðsjár nú um stundir
en tíminn rís nú samt nýr, dag hvern.
Undarleg er dögunin:



Undarleg:
tími merktur tvídrægum vilja og ugg
mettur af ysta myrkri

og þó svo göfugur
þó svo fagur
og þó svo nýr.




Senn dagar af nýju ári.
Hugheil þökk fyrir það gamla.


#

Meira >>
 24.12.2023
 Barnahátíđin mest: gleđilegar jólatíđir



Barnahátíðin mest gengur í garð.

Laðar fram sælar bernskuminningar
barnsins í okkur öllum en minnir um 
leið á að auðsýna mildi og mennsku 
og á skyldur okkar við blessuð börnin
sem eru að vaxa úr grasi.




Síðan fæddi hún fagran son
og í jötu lagði hann.
Allt var undarlegt kringum þau.
Ný stjarna á himni brann
og smám saman myrkrið fór
en þá birtist englakór
sem knékraup barninu ungu.
Og allsstaðar
svo heiðbjart var.
Englarnir sungu.



Það var himnesk englafjöld
þetta aðfangadagskvöld.
Ný hátíð var runnin upp
það var komin jólanótt.
Síðan er hver jólanótt
hvert ár barnahátíðin mest
la la la la barnahátíðin mest.



(Úr Aðfangadagskvöld;
Þorsteinn Eggertsson, 1942- ).




Gleðilegar jólatíðir nær og fjær!


#
Meira >>
 22.12.2023
 Vetrarsólstöđur: gott ađ sofa á dúnkodda og Dúnstúlkan í ţokunni



Vetrarsólstöður eru í dag undir
kyrrlátum gráhimni, jörð hreinhvít.
Nýfallin lausamjöllin lík æðar-
dúninum sem haldið hefur hita
á landanum í gegnum aldirnar
og verið gæðavara til útfutnings.
Dúntekja austur á Langanesi var 
lengi talin ein sú mesta á öllu 
Norð-Austurlandi ásamt vænni
dúntekju á prestsetrunum á
Skinnastöðum í Öxarfirði og 
Grenjaðarstað í Aðaldal.




Fyrr þennan sólstöðudag, lukum 
við hjá Skuggsjá lestri nýjustu 
bókar Bjarna M. Bjarnasonar,
Dúnstúlkan í þokunni sem Veröld
gefur út. En Bjarni er sá íslenski 
rithöfundur sem hvað mest hefur 
skrifað um drauma í þeim 20
verkum sem þegar hafa verið
gefin út eftir hann.

Óefað hefur Bjarni sjálfur kannað
lendur draumheima frá unga aldri 
líkt og Jóhannes Jónsson í Ásseli 
á Langanesi gerði líka á sínum 
tíma og bókin fjallar um.
Sagt er frá ævi Jóhannesar,
Drauma-Jóa og dúnstúlkunum
sem sáu um dúntekjuna og urðu 
sumar ekki langlífar; unnu sér til húðar.
Slík var sú mikla alúð við dúninn,
æðarfuglinn, eggin og ungana.
Nákvæmnisvinna út í eitt sem þær
inntu af hendi hjá oft á tíðum
hörðum húsbændum. Að ótöldu
ýmsu misjöfnu sem þær gat hent.





Dúnstúlkan í þokunni, gefur næma
innsýn í reynsluheim barnsins Jóa
og hvernig sá heimur mótar hann.
Galdramenn sem hann á ættir til 
eru nefndir til sögunnar og sagt er
frá einni helstu fyrirmynd hans,
Mikael Illugasyni í Skoruvík, afa hans;
vandist því m.a. í uppvextinum að sjá
kallinn tala við hrafnana og gefa nöfn.

Eins kynnist Jói útlöndum í gegnum afa 
og viðskiptum hans við duggara frá Evrópu.
Og dúntekjunni á útnesjum en æðardúnn
í sængur og kodda var góð skiptimynt.
Sagt er frá draumum Jóa frá unga
aldri sem sumir hverjir gátu verið 
virkilega óþægilegir. Jói var sem sagt,
draumskyggnt barn, og ekki allt tekið 
út með sældinni.

Síðar segir frá þjálfun með ýmsum 
grösum og draumstöfum á draumgáfu 
Jóa og upplestri yfir honum úr særinga-
blöðum og galdrabókaslitrum.
Þjálfun sem gerði kleift að segja fram 
drauma og veita svör við spurningum
sem fyrir hann voru lagðar, upp úr svefni. 
Þjálfun á fjarskyggni í svefni.

Langvinn veikindi og erfið hjá Jóa
eru og til umfjöllunar; hann kaus
heldur að vera kallaður aumingi
en niðursetningur.





Bjarni skrifar eftirminnilega um
þokuna á Langanesi og þá
dulúð sem hún sveipar átthaga
söguhetjanna og kallar Tár Guðs.
En himininn er huggari, hvað sem 
líður galdramönnum, geistlegu sem
veraldlegu valdi líkt og fram kemur 
í orðum Jóa þegar hann hughreystir 
dúnstúlkuna sína:




Núna er himininn grár. En stundum er
hann mjög fallegur. Það er gott að horfa
bara á fallega himininn sem maður
hefur séð áður og geymt djúpt í 
hugskotinu, eins og fjársjóð.
Horfa á hann eins og hann sé
yfir manni núna.




Hinn raunverulegi Jói bókarinnar
var sem fyrr segir, oft nefndur
Drauma-Jói og um hann fjallaði 
fyrsta íslenska dulsálfræðirannsóknin 
sem þeir Ágúst H. Bjarnason, rektor 
Háskóla Íslands og Guðmundur Finnbogason,
heimspeki-og sálfræðiprófessor, gerðu 
á draumgáfu Jóa og gáfu út á samnefndri 
bók árið 1915.
En Jói sá fyrir óorðna hluti og fann
týnda hluti og gaf svör í svefni þegar 
talað var til hans.

(Til gamans má geta þess að
Drauma-Jói og við hjá Draumasetrinu
Skuggsjá, eigum sameiginlegan forföður
sem var Ólafur Skorvíkingur Finnbogason,
útgerðarbóndi í Skoruvík á Langanesi, f.1701.
En eins og fyrr segir, kemur Skoruvík mjög 
við sögu í bókinni þar sem Mikael,
útnesjamaðurinn og afi Drauma-Jóa
bókarinnar, hélt til. 
Einnig má nefna að langafi Bjargar, 
forsvarskonu Skuggsjár, Vigfús Jónsson 
á Kúðá í Þistilfirði, var einn þeirra 
sveitunga hins raunverulega Jóa
sem þátt tóku í dulsálfræðirannsókninni 
á drauma-og fjarskyggnigáfu hans).





Dúnstúlka Bjarna er einstaklega vel skrifað
og leikandi lestrarverk. Bókin tekur jú 
á án þess að vera þyngslaleg þó hún fjalli 
á köflum um bág kjör og umkomuleysi
alþýðufólks í hörðum heimi.
En hún segir líka söguna af góðu fólki,
velgjörðarmönnume sem koma inn í líf 
Jóa og dúnstúlkunnar hans og hlúir að þeim,
gerir þeim lífið bærilegra, þessa heims 
og annars.
Ein þeirra er Ólína Jónsdóttir, dúnstúlka
og vinnukona á prestsetrinu á Sauðanesi
þar sem Jói hafði verið vinnumaður frá
unga aldri en tekur síðan að yrkja land 
að Ásseli. Ólína og Magnús maður 
hennar höfðu flutt á Langanesið eftir 
að missa skuldlaust bú og allt sitt í 
Dyngjufjallagosi, börnin þá uppkomin:




Ólína Jónsdóttir. Jú. Ég var sumarið
undarlega þegar þú fylltir það svo af 
dún að við urðum stundum að fara út
bara til að anda. Nýju dúnstúlkurnar 
trúa því ekki hvernig ástandið var þegar
ég segi frá því.




(Það verður að segjast, að Ólína sögunnar 
minnir á skemmtilegan hátt á langömmu
Bjargar úr Þistilfirðinum, Ólínu Ingibjörgu
Jónsdóttur á Grímsstöðum og síðar Kúðá.
Hún þótti mæt kona eins og Indriði
ættfræðingur nefnir. Tók m.a. að sér 
umkomulaus börn þótt barnahópur
hennar hefði verið stór fyrir. En Ólína
á Kúðá og Drauma-Jói voru samtíða
fyrir austan).




Dúnstúlka Bjarna byggir m.a. á heimildum
sem hann aflaði sér er hann skrifaði
meistararitgerð í guðfræði um Drauma-Jóa
fyrir nokkrum misserum. Nú vinnur hann
að doktorsritgerð um draumvísur, þá
aldagömlu draumhefð sem sér víða stað
í reynsluheimi landans fyrr og nú, í 
menningu og þjóðtrú, að ógleymdum
Íslendingasögunum.




Nokkuð magnað gerðist þegar
lokið var við lestur Dúnstúlkunnar
fyrr í dag og kveikt var á útvarpinu.
Verið var að lesa auglýsingar og 
fyrsta auglýsingin sem hljómaði
á öldum ljósvakans, fjallaði um
gæði dúnkodda og hve góðir þeir 
væru fyrir góðan svefn!

Þunn eru skilin heimanna, tíma og rúms. 
Og margt býr í þokunni!

Við hjá Skuggsjá óskum Bjarna innilega 
til hamingju með eðalbók.
Söguhetjan Jói, hertur í eldi reynslunnar
á lendum vöku, svefns og drauma, kemst 
að því hvað sem öllu líður, að ekki væri
með særingum hægt að forðast lífið.




#
Meira >>
Síđasta frétt  1  2  3  4  5  6  7  8  9  10  11  12  13  14  15  16  17  18  19  20  21  22  23  24  25  26  27  28  29  30  31  32  33  34  35  36  37  38  39  40  41  42  43  44  45  46  47  48  49  50  51  52  53  54  55  56  57  58  59  60  61  62  63  64  65  66  67  68  Næsta frétt 
© 2007 Draumasetriđ Skuggsjá Hönnun Design EuropA