Tignarlegt var að sjá sólina
brjótast fram úr skýjahulunni
yfir Vatnsdalnum þegar
áð var í Sveinslundi upp
úr hádeginu á suðurleið.
Þingeyrar kúrandi í
skammdegiskyrrðinni.
Sólris varð klukkan11.33
í morgun og sólsetur varð
svo klukkan15.17.
Framundan er lengsta nótt
ársins--gjarnan talin mikil
draumanótt--og stystur dagur
á sólhvörfum á morgun
klukkan 9.21.
Hænufetið er drjúgt þegar
sólin, eftir að standa kyrr
og hverfast síðan um
sjálfa sig á Vetrarsólhvörfum
morgundagsins, tekur
að hjóla ofar á himinbaug.
Hæglátt streymi tengir
okkur við innri mann,
aðra menn, og lífið sjálft.
Í slíku hæglæti náum
við dýpra - inn í eigin
veru og dulúð sköpunar.
Við sjáum skírar og
finnum upphafningu
vitundarinnar í vöku
jafnt sem svefni þar
sem draumarnir eru
ljósir; núvitund eykst
svo og meðvitund um
að vera að dreyma
í skírdreymisflæði.
Lengi væntir vonin um
betri tíð og bættan
almannahag.
Við getum breytt erfiðum
og óttavekjandi draumum
í mildari og betri upplifanir.
Og tekist á við armæðu
daganna með nýrri hugsun.
Náum að sjá nýja kosti
í vöku sem svefni;
eflumst að kjarki og þor.
Erum ekki ein.
Munum að anda og vera
til; hylla landið eins og
Jóhannes úr Kötlum
nefnir í ljóði sínu
Í guðsfriði frá 1970:
þá verða öll orð tilgangslaus
- þá er nóg að anda
og finna til
og undrast
Maðurinn í landinu
landið í manninum
- það er friður guðs.
#
|