Tunglið - fylgihnöttur
Jarðar - hefur þegar verið
sótt heim af mannfólkinu.
Og ef til vill svipt dulúð
sinni með heimsókninni?
En Jörðin öðlaðist
alveg nýtt samhengi
í hugum mannfólksins;
blá og fögur að sjá
líkt og fyrstu myndir
tunglfaranna sýndu.
Gjarnan síðan nefnd
Bláa plánetan.
Áfram heldur tunglið
sína rás með sín
kunnu áhrif á sjávarföll
og hræringar í náttúrunni;
á dægursveiflu líkamans,
svefn og drauma.
Í nýafstöðnum júlí voru
tvö full tungl á himni,
hið síðara þann 31. júlí,
eins konar blár máni,
ofurstór og nálægur.
Tungláhrifa og endurskins
á hrynjanda náttúrnnar
gætir víða, og þjóðtrúin
kennir að bláum mána
geti fylgt ýmsar hamfarir.
Hvað sem líður, þá er
óhætt að segja að veðurfar
á Vestfjörðum og á
Norður - og Austurlandi, hafi
verið með sérstæðasta móti
í júlí og alls ekki hásumarlegt.
Ekki laust við að það gæti
upplifunar óraunveruleika
og sálrænna tungláhrifa;
hvaða tími er eiginlega...
Nú ganga draumar og
aðrar forspár glöggra
Veðdurklúbbsmanna á
Dalvík þannig að áttir og
vindar taki að breytast með
nýju tungli þann 14. ágúst nk.
sem kvikna mun í suðvestri.
Þeir telja að þá muni vindáttir
snúast í suðvestlægar áttir
og hitastig fara hækkandi
eftir langdregnar hæðabylgjur
frá Grænlandi undanfarið.
Síðsumar geti því reynst gott
með mögulegum sumarauka.
Talandi um dulúð tungls
og óraunveru allra hluta,
þá yrkir Stefán Hörður Grímsson
eftirminnilega um það þema
í ljóði sínu Endurskin:
Getur það verið
að við lifum
einungis hádag
ellegar blánótt
sem við gleymum?
að allt hitt sem við lifum
sé bara aðdragandi
og endurskin?
Ýmsir fullyrða
að tunglsljós
sé heillandi
og hér verður
engum hallmælt
fyrir þá skoðun.
(Úr ljóðabókinni Tengsl, Mál & Menning, 1987).
*
|