Forsíđa   

 20.05.2018
 Ljúfir leiđsludraumar og ţjóđfrćđi á LaxárbökkumÞessa Hvítasunnu þegar
veðurguðir storma yfir,
og árnar sveiflast eins og
silfurband um dali, leita
leiðsludraumar skáldsins
frá Laxamýri á hugann,
(en stormur í draumi er talinn
tákna umrót í lífi eða tilfinningum,
erfiðleika að sigrast á og upprisu;
í þjóðtrúnni voru óviljugir
hestar fyrir stormi, eða að ríða
dökkum hesti en einnig
þurrt hey í göltum):
Ef ég aðeins gæti
unnið stórar þrautir,
stigið föstum fæti
fram á huldar brautir,
gæti ég rakið lífsins leyndu þætti,
látið hjörtun slá með orðsins mætti,
tryði ég mínum ljúfu leiðsludraumum.
Laxá í Aðaldal streymir
dreymandi fram allt frá
upptökunum í Mývatni,
til fagurra hólma og árósa
til sjávar norðan Laxamýrar,
hvar Jóhann Sigurjónsson,
skáld, höfundur að einu
fyrsta íslenska nútímaljóðinu,
Sorg, fæddist árið 1880.
Laxá í Aðaldal:
lífæð og drottning dalsins.
Allra fallvatna drottning.
Íslensk þjóðfræði eiga
Hallfreði Erni Eiríkssyni,
(1932-2005), sem sótt
hafði menntun til Tékklands
og Írlands, mikið að þakka.
Hallfreður starfaði í áraraðir
við Stofnun Árna Magnússonar,
- áður Handritastofnun Íslands -,
og skráði gífurlegt magn af
frásögnum af fólki og fyrirbærum
um land allt ásamt frásögnum
Vestur-Íslendinga í Kanada,
en þær skráði hann með konu sinni,
Olgu Maríu Franzdóttur.
Þessar frásagnir voru hljóðritaðar
og eru ein merkasta heimild um
þjóðhætti, þjóðtrú og drauma,
flokka drauma og handanheims
reynslu, en líka tónlistararf,
einkum rímur, sem fyrirfinnst
hér á landi og þó víðar væri leitað.
Á meðal þeirra eru merkar
draumfrásagnir frá byggðunum
við Laxá og af andlegri reynslu.
Lesa má um þessar sagnir
á vef Ísmús, www. ismus. is
En Ísmús - íslenskur músík
og menningararfur - er
gagnagrunnur, sem Tónlistarsafn Íslands
og Stofnun Árna Magnússonar í
íslenskum fræðum, reka saman.
Hallfreður átti ófáar ferðirnar
til veiða á bökkum hinnar
seiðmögnuðu Laxár en
jarðvegurinn á bakkanum
við fornbýlið Hofsstaði,
hefur reynst varðveita afar vel
mögnuð sannindi um fyrstu
spor þjóðar, búskapar- og
lifnaðarhætti, og mögulegan
átrúnað á yfirnáttúruleg öfl.
Ef forfeðurnir féllu með
sæmd, var þeim vís
eilífðarbústaður í öðrum heimi...
En teikn á lofti nútímans
og falsraddir ýmsar, benda
á mögulegt fall í vansæmd:
að draumbliki hafi verið
slegið í augu þjóðar...
Tími að eignast rödd og vakna!
Og finna hjartslátt lífsins:

Líkt og leiftrið bjarta
loftið regnvott klýfur,
eða óspillt hjarta
ástin fyrsta hrífur,
þannig skáldin allt í einu vinna
alla þá, sem lífsins hjartslátt finna,
væri ég aðeins einn af þessum fáum.
(Jóhann Sigurjónsson, 1880-1919;
Úr: Væri ég aðeins einn af þessum fáu;
Ljóðabók Jóhanns Sigurjónssonar; AB, 1994).

*


Síđasta frétt 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30 31 32 33 34 35 36 37 38 39 40 41 42 43 44 45 46 47 48 49 50 51 52 53 54 55 56 57 58 59 60 61  62 63 64 65 66 67 68 69 70 71 72 73 74 75 76 77 78 79 80 81 82 83 84 85 86 87 88 89 90 91 92 93 94 95 96 97 98 99 100 101 102 103 104 105 106 107 108 109 110 111 112 113 114 115 116 117 118 119 120 121 122 123 124 125 126 127 128 129 130 131 132 133 134 135 136 137 138 139 140 141 142 143 144 145 146 147 148 149 150 151 152 153 154 155 156 157 158 159 160 161 162 163 164 165 166 167 168 169 170 171 172 173 174 175 176 177 178 179 180 181 182 183 184 185 186 187 188 189 190 191 192 193 194 195 196 197 198 199 200 201 202 203 204 205 206 207 208 209 210 211 212 213 214 215 216 217 218 219 220 221 222 223 224 225 226 227 228 229 230 231 232 233 234 235 236 237 238 239 Næsta frétt 
© 2007 Draumasetriđ Skuggsjá Hönnun Design EuropA