Forsíđa   

 29.08.2021
 Draumar í Gísla sögu Súrssonar og örlögin: nú falla vötn öll til Dýrafjarđar. Og Blábankinn...



Höfuðdagurinn 29. ágúst ár hvert,
minnir okkur á hve örlögin geta
ýmist verið blíð eða óblíð en þann
dag er talið að Jóhannes skírari
hafi verið hálshöggvinn.


Margir fornkappar vorir féllu í
valinn af hendi óvildarmanna og
á stundum hreinna íllvirkja, hlutu
sinn skapadóm eins og í Gísla sögu
Súrssonar þar sem sagt er frá
örlögum kappans og síðar útlagans,
Gísla Súrssyni. Hann hafði sett
niður bú sitt að Hóli í Haukadal
í Dýrafirði undir tignarlegum Kaldbaki,
hæsta fjalli Vestfjarða, (988m),
krúnudjásni vestfirskra fjalla.

Hinn knái og hugvitssami Gísli,
duldist óvildarmönnum sínum víða
fyrir vestan, svo sem í Geirþjófsfirði
innst í Arnarfirði; á Barðaströnd og úti
í Breiðafjarðareyjum.

Í heimsmynd fornmanna var hefndarskyldan
heilög í frændgarði og fóstbræðralagi
og er hún sterkt minni í sögu Gísla.
Fræg eru orð eins helsta fjandmanns Gísla,
Barkar digra um Ingjaldsfíflið í Hergilsey,
sem Gísli þóttist vera til þess að villa um
fyrir óvinunum þannig að nú voru þau
tvö í eyjunni: enda deilist það
heldur víðara.





Gísli var draumamaður og sá ýmislegt
fyrir í draumum sínum og ræddi við
sína góðu konu, Auði Vésteinsdóttur,
sem líka var draumspök. Hann kvað
vísur um draumreynslu sína. Gísli átti
sér draumkonur tvær. Aðra hræddist
hann og voru svefnfarir oft harðar.
Iðulega óttaðist hann að falla í svefn
en hreystimennið, sem hann var,
gekkst við myrkfælni sinni.

Gísli hafði erfiðar svefnfarir næturnar
áður en lokaáhlaupið var gert á hann
á Einhamri í Geirþjófsfirði hvar hann
hné í valinn eftir frækilega vörn
með iðrin úti, sem hann hafði safnað
saman undir skyrtu sinni og bundið
fyrir með reipi og haldið áfram að berjast
hreystilega og drengilega til hinstu stundar.

Óhætt er að segja að Gísla saga
Súrssonar sé sú fornsagnanna, sem
einna besta grein geri fyrir draumum
og svefnförum. Er sagan um margt
borin uppi af trú Gísla á forspá
drauma sinna og eru lýsingar á
erfiðum svefnförum og draumsýnum
í samræmi við þekkta sammannlega
reynslu.


Gísli var vitur maður og draumamaður mikill
og berdreymur, segir í sögu hans.




Í Gísla sögu er sagt frá viðvörunar-
draumum, og að Gísli hafi eitt sinn látið
illa í svefni tvær nætur í röð. Hann tók
þessa draumboða sem forspár um
yfirvofandi hættu tengdri Vésteini,
fóstbróður sínum og mági. Áður hafði
Gísli  reynt að sjá til þess Vésteinn
yrði varaður við að koma í Haukadal.
Í eitt skiptið, hittu sendiboðar Gísla,
Véstein á Gemlufallsheiði, sem er heiðin
milli Önundarfjarðar um Bjarnardal
í Dýrafjörð. 

En Vésteinn lét kylfu ráða kasti,
lét skeika að sköpuðu og hélt
för sinni áfram þrátt fyrir viðvaranir.
Fór svo að hann náði í Haukadal en
var veginn þar í svefni.
Af hvers hendi eða hverra, er svo
stóra spurningin.
Eftir Vésteini er í þessu samhengi
höfð hin fleyga setning:
nú falla vötn öll til Dýrafjarðar.


Líkt og í náttúrunni þegar ár og lækir falla sína
leið niður brattann og ljúka ferð sinni til ósa,
er því eins farið með mannfólkið, öllu er afmörkuð
stund. Samkvæmt slíkri heimsmynd, fær enginn
umflúið sinn skapadóm.





Dýrafjörður geymir mörg djásnin, bæði í
náttúru og mannlífi. Eitt af því, sem einkennir
staðhætti, sögu og menningu, er magnaður
fjársjóður hafdjúpanna, lífsbjörg margra.
Á fyrri tíð voru margir útvegsbændur á þessum
slóðum, bæði í Haukadal og á Þingeyri þar sem
þorpsmyndun hófst snemma. Samskipti og
vöruskipti við útlönd voru umtalsverð, ekki
síst við Frakkland. Gjarnan var talað um
svokallaða Haukadalsfrönsku, mállýsku, sem
varð til á milli íslenskra og franskra sjómanna.



Nú er unnið að því að draga úr fólksfækkun og
efla nýsköpun og atvinnulíf á Vestfjörðum,
m. a. í Dýrafirði, í gegnum byggðaþróunar-
verkefni Byggðastofnunar, Brothættar byggðir.
VerkefnÞingeyrar nefnist Öll vötn til Dýrafjarðar
og leiddi til stofnunar Nýsköpunar og samfélags-
miðstöðvar á Þingeyri árið 2017, sem hlaut
nafnið Blábankinn.



Nýr bankastjóri Blábankans á Þingeyri er
Birta Bjargardóttir, vísinda-og menningarmiðlari
frá Bath háskóla á Bretlandi, en hún hefur
lengi komið að verkefnum Skuggsjár.
Hjartanlegar hamingjuóskir til Birtu með þetta
mjög svo þarfa og skemmtilega starf á Þingeyri!



Að ganga sinn llífsveg í takt við náttúruna
og eðlilega framvindu lífsins, krefst árvekni
á vegferðinni sem endranær.
Sé örlagabraut vor fyrirfram vörðuð,
- öll vötn falla til Dýrafjarðar -,
er óskandi að við höfum þó heilmikið
um það að segja hvernig við fetum hana.



#









Síđasta frétt 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30 31 32 33 34 35 36 37  38 39 40 41 42 43 44 45 46 47 48 49 50 51 52 53 54 55 56 57 58 59 60 61 62 63 64 65 66 67 68 69 70 71 72 73 74 75 76 77 78 79 80 81 82 83 84 85 86 87 88 89 90 91 92 93 94 95 96 97 98 99 100 101 102 103 104 105 106 107 108 109 110 111 112 113 114 115 116 117 118 119 120 121 122 123 124 125 126 127 128 129 130 131 132 133 134 135 136 137 138 139 140 141 142 143 144 145 146 147 148 149 150 151 152 153 154 155 156 157 158 159 160 161 162 163 164 165 166 167 168 169 170 171 172 173 174 175 176 177 178 179 180 181 182 183 184 185 186 187 188 189 190 191 192 193 194 195 196 197 198 199 200 201 202 203 204 205 206 207 208 209 210 211 212 213 214 215 216 217 218 219 220 221 222 223 224 225 226 227 228 229 230 231 232 233 234 235 236 237 238 239 240 241 242 243 244 245 246 247 248 249 250 251 252 253 254 255 256 257 258 259 260 261 262 Næsta frétt 
© 2007 Draumasetriđ Skuggsjá Hönnun Design EuropA