Forsíđa   

 25.10.2021
 Fuglar sem veđurvitar: metfé og vćngjaperla í vetrarbyrjun...Á Veturnóttum þetta haustið,
21-22. október--ein helsta hátíðin
í gamla norræna tímatalinu--, var
líkt og fuglarnir í garðinum fyndu
sterkt á sér nýju árstíðina framundan.
Hér áður var talið að það vísaði á
harðan vetur ef þeir hópuðust saman
á jörðu niðri við hýbýli manna.
Í þetta sinn gerðist það þó ekki,
breytingin frá hausti til vetrar var
án stórra átaka en fuglarnir áttu það
til að fljúga á gluggana sem sumir
telja að geti vísað á krapavetur.
Nútímaskýringin sú að þeir séu
blindfullir af berjunum...

Fuglar voru og eru taldir glöggir veðurvitar
en líka gefandi samferðafélagar eins og
sjá má í umfjöllunum í ritum fyrr og nú.
Sjá m.a. nýlega og merka umfjöllun í bók 
séra Sigurðar Ægissonar, Íslensku fuglarnir
og Þjóðtrúin, sem út kom hjá bókaútgáfunni
Hólum fyrir jólin 2020, og sem þessi pistill
styðst við að hluta til.
Guðmundur Friðjónsson, skáld og bóndi
á Sandi í Aðaldal--einstakri fuglaparadís--,
skrifaði fagurlega um Sólskríkjuna,
öðru nafni Snjótittlinginn, í grein í
Sunnanfara 1902:Eg hef horft á þig liðlangan vordaginn
árum saman og veitt þér athygli
sumar og vetur síðan eg kom til vits og ára.
Og alt af ertu metfé mitt og vængjaperla.Þessi smávaxni spörfugl er harðgerðari en
ætla mætti og með ólíkindum hvernig
honum tekst að lifa af harðan, íslenskan vetur.
Ljóst er að nú dvelja ákveðnir hópar sumra
fuglategunda hér allt árið um kring.
Má þar nefna sólskríkjuna, skógarþröstinn,
staran, maríuerluna og auðnutittlinginn.

Þetta haustið voru smáfuglarnir í garðinum
eins og litlar tifandi klukkur í kappi við
tímann að klára síðustu reyniberin
áður en vetraði: á Veturnóttum tók
reyniviðurinn að fella laufið og á fyrsta
Vetrardegi, laugardaginn 23. október,
voru nær öll ber horfin og flestir fuglar
flognir á braut en nokkur pör þó eftir.
Trúlega hyggja þau á vetursetu að vanda...


Guðmundur Finnbogason, heimspekingur
og einn fumkvöðull íslenskra sálarfræða,
(1873-1944), ritaði grein í Eimreiðina 1922,
sem hann nefndi Veðurspár dýranna.
Þar talar hann um að í sumum löndum
séu fuglar ekki síður veðurvitar alþýðu
manna en hér og sumt sömu fuglarnir
og hjá okkur, t.d. þrösturinn, lóan, spóinn,
hrafninn.

Margt er líkt með eftirhermun í atferli
dýrategunda, manna þar á meðal, en
um það fyrirbæri fjallaði Guðmundur
í doktorsritgerð sinni frá 1911 þar sem
hann gerir hugtakinu samúðarskilningur
góð skil. Okkur hættir ósjálfrátt til þess
að líkja eftir fasi og viðmóti viðmælanda
okkar, brosi hann, brosum við, osfrv.
Skynjun okkar er ekki síður þáttur í
atferli okkar en hugsun, minni og
tifinningar; skynferlun oft ósjálfráð.
Í ævisögu Guðmundar, ritaðri
af Jörgen L. Pind, prófessor í sálfræði,
árið 2006, Frá sál til sálar, má sjá
merka umfjöllun um samúðarskilning.
Spurningar vakna um hvar við
erum stödd með slíkan skilning
í rétthugsun og sefjunartilburðum
á meðal fjölmiðla og samskiptamiðla
nú um stundir?
Guðmundur Finnbogason var forgöngumaður
ásamt Ágústi H. Bjarnasyni, sálfræðingi
og háskólarektor, (1875-1952), að fyrstu
eiginlegu sálfræðirannsókninni, sem var
á sviði drauma og draumgáfu.
Þeir félagar rannsökuðu hæfileika
draumspaks manns á Langanesi,
sem kallaður var Drauma-Jói og
gáfu út á bók 1915. Jói gat séð
ýmislegt í svefni og sagt til um.
Þessi skyggnigáfa í svefni fylgdi
honum frá unga aldri. En Jói
hét fullu nafni Jóhannes Jónsson,
(1861-1943), og var frá Ásseli en
dvaldi frá unglingsaldri á Sauðanesi
á Langanesi, á því mæta prestsetri
hvar séra Jón Bessason, einstakur
drauma-og andans maður, sem
sá í annan heim, hafði búið og
þjónað rúmum tveim öldum fyrr.
En frá honum og séra Bessa,
syni hans, sem skráði sýnir
föður síns, eru aðstandendur
Skuggsjár komnir. Seinni lang-
feðgar tóku þátt í rannsókninni
á Drauma-Jóa með frásögnum
af draumgáfu Jóa.

Guðmundur var brautryðjandi í
skólamálum og lengi ritstjóri
Skírnis og eftir að háskólakennslu
lauk, gerðist hann landsbókavörður.
Hann þýddi m.a. ritverk efir helstu
hugsuði á sviði heimspeki og sálfræða
þess tíma, s.s. William James, sem
kallaður hefur verið faðir bandarískrar
sálfæði. En James ritaði margt merkilegt
um draumlíf okkar mannfólksins og hin
ýmsu stig vitundarinnar.
Margt er hægt að læra af smávinum
vorum, fuglunum, ef þeim er gaumur
gefinn. Og nú í vetrarbyrjun, er það ágæt
leið til að rækta samúð í garð manna
og málleysingja að sinna þeim og hlúa
vel að í vetur.

Jón Prímus, sá ágæti prestur undir Jökli,
minnir bæði Umba og söfnuðinn á
hvernig snjótittlingurinn vesalastur af
öllum hugdettum guðs,
stendur af sér verstu vetrarhörkur:
Hvað sem á dynur, snjótittlingurinn lifir af;
stórhríðarnar eru ekki fyrr um götur geingnar
en hann er orðinn sólskríkja.(Halldór Laxness, 1902-1998;
úr Kristnihald undir jökli, útg. 1968).#

 Síđasta frétt 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30 31 32 33 34 35 36 37 38  39 40 41 42 43 44 45 46 47 48 49 50 51 52 53 54 55 56 57 58 59 60 61 62 63 64 65 66 67 68 69 70 71 72 73 74 75 76 77 78 79 80 81 82 83 84 85 86 87 88 89 90 91 92 93 94 95 96 97 98 99 100 101 102 103 104 105 106 107 108 109 110 111 112 113 114 115 116 117 118 119 120 121 122 123 124 125 126 127 128 129 130 131 132 133 134 135 136 137 138 139 140 141 142 143 144 145 146 147 148 149 150 151 152 153 154 155 156 157 158 159 160 161 162 163 164 165 166 167 168 169 170 171 172 173 174 175 176 177 178 179 180 181 182 183 184 185 186 187 188 189 190 191 192 193 194 195 196 197 198 199 200 201 202 203 204 205 206 207 208 209 210 211 212 213 214 215 216 217 218 219 220 221 222 223 224 225 226 227 228 229 230 231 232 233 234 235 236 237 238 239 240 241 242 243 244 245 246 247 248 249 250 251 252 253 254 255 256 257 258 259 260 261 262 263 264 265 Næsta frétt 
© 2007 Draumasetriđ Skuggsjá Hönnun Design EuropA