Forsíđa   

 29.08.2020
 Gáfađir dagar undir verndandi reynitré



Gáfaðir dagar sem geta gefið svör við öllu,
ritar Nóbelskáldið í Sjálfstæðu fólki.
Gott er að eiga slíka daga því dagar
vorir eru vissulega misgóðir og -gáfaðir.
Höfuðdagurinn 29. ágúst, er lýsandi fyrir
þetta afstæði daganna, hægt að líta á hann
sem gáfaðan dag sem markar tímamót
í Náttúrinni á síðsumri. 
En skuggadagur í Kristni vegna aftöku
Jóhannesar skírara sem sagður var
hálshöggvinn þann dag og heitir
Höfuðdagur eftir þeim verknaði.
Á vorum tímum er Höfuðdagur,
afmælisdagur Akureyrar í Norðrinu.






Talandi um gáfaða daga í ritverki
Halldórs Laxness, þá er skírskotað
til drauma og gáfu þeirra í Sjálfstæðu
fólki út um alla bók og í leiðinni dregin
fram vantrú Bjarts í Sumarhúsum á allt sem
andlegt getur talist--dularöfl tilverunnar--,
gott eða ekki gott. En ást hans og
trúnaður við Náttúruna stendur eftir hvað
sem á bjátar. (Og raunar heitir hann
Guðbjartur fullu nafni!).
Og nú eru uppskerudagar gengnir í garð,
og reynitréin í görðum landsmanna
standa klifjuð rauðum og bústnum
berjum eftir milda sumartíð og fuglar
syngja kátir við berjatínslu, safnandi
í sarpinn fyrir harða vetrarmánuði.






Hér áður var reyniviðurinn talinn helgur
og ekki mátti höggva hann nema af hlytist
skaði. Hann var verndartré fyrir illu og hefur
vaxið hérlendis ásamt birki, blæösp og
gulvíði frá landnámi í það minnsta.
Þetta merka og fagra lauftré er raunar ein
tegund asks, svokallaður fjallaaskur af rósaætt.
Og samkvæmt Gylfaginningu og Völuspá,
er askurinn efniviðurinn í fyrsta manninum
og álmtré í fyrstu konunni: Aski og Emblu.
Goðin fundu þau lítt megandi og
örlögalaus á sjávarströndu og Óðinn
gaf þeim önd og líf og bræður hans
gáfu þeim vit og hræring, ásjónu,
mál, heyrn og sjón.
Merkileg sköpunarsaga þar sem
mannfólkið er komið beint frá Náttúrunni
og gjöfum hennar, trjánum.






Tré og skógar eru lungu Jarðar,
sem ber að vernda og virða og nýta
á sjálfbæran hátt, ætli mannfólkið
að byggja lífvænlega Jörð og sporna
gegn tilkomu alls kyns óáránar, s.s.
alvarlegra sjúkdóma og faraldra.
Að ógleymdum gróðri sjávar, þörunga-
skógum og plöntusvifsbreiðum.
Varðandi verndarmátt reyniviðarins,
má geta þess að ein tegund reyniviðar,
hinn svokallaði Silfureynir, er nú
talið það tré sem bindur hvað mest
koltvísýring og spornar kröftuglega
gegn mengun. Gott og þarft götutré
til kolefnisjöfnunar og er elsta innflutta
tré Reykjavíkur, silfurreynir frá 1884 sem
stendur í Fógategarðinum svokallaða
við Aðalstræti 9.





Segir svo í Völuspá:




Önd þau né áttu,
óð þau né höfðu,
lá né læti
né litu góða;
önd gaf Óðinn,
óð gaf Hænir,
lá gaf Lóður
og litu góða.




#





Síđasta frétt 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30 31 32 33 34 35 36 37 38 39 40 41 42 43 44 45 46 47 48 49 50 51 52 53 54 55 56 57  58 59 60 61 62 63 64 65 66 67 68 69 70 71 72 73 74 75 76 77 78 79 80 81 82 83 84 85 86 87 88 89 90 91 92 93 94 95 96 97 98 99 100 101 102 103 104 105 106 107 108 109 110 111 112 113 114 115 116 117 118 119 120 121 122 123 124 125 126 127 128 129 130 131 132 133 134 135 136 137 138 139 140 141 142 143 144 145 146 147 148 149 150 151 152 153 154 155 156 157 158 159 160 161 162 163 164 165 166 167 168 169 170 171 172 173 174 175 176 177 178 179 180 181 182 183 184 185 186 187 188 189 190 191 192 193 194 195 196 197 198 199 200 201 202 203 204 205 206 207 208 209 210 211 212 213 214 215 216 217 218 219 220 221 222 223 224 225 226 227 228 229 230 231 232 233 234 235 236 237 238 239 240 241 242 243 244 245 246 247 248 249 250 251 252 253 254 255 256 257 258 259 260 261 262 263 264 265 266 267 268 Næsta frétt 
© 2007 Draumasetriđ Skuggsjá Hönnun Design EuropA