Forsíđa   

 23.05.2021
 Skrúđgrćn klćđi í náttúru og mannlífi: kjólameistarinn, matmóđirin og jóginn í Brekkugötu 3Nú stendur Hönnunarmars yfir
og margt um dýrðir og fer vel
á að minnast eins fyrsta sérlærða
kjólameistarans hér á landi
en áður höfðu karlmenn eingöngu
mátt starfa við iðnina sem klæðskerar.
Þessi kona er Björg Jóhanna Vigfúsdóttir
sem fæddist að Grímsstöðum í
Þisitlfirði 1897 og ólst upp í stórum
systkinahópi á Kúðá í sömu sveit
hjá foreldrum sínum, þeim Vigfúsi
Jósefssyni og Ólínu Ólafsdóttur.
En ævisögu Ólínu ritaði Benjamín
Sigvaldason, rithöfundur og bóksali
á Hverfisgötunni í Reykjavík.
Ólína þótti merk kona á sinni tíð og
veitti mörgum skjól, umhugað um þá
sem áttu um sárt að binda.


Gjarnan er talað um innfædda
Þistilfirðinga sem Þistla en fjörðurinn
heitir í höfuð Ketils Þistils, landnámsmanns
sem nam fjörðinn og átti land á milli
Hundsness og Sauðaness á Langanesi.
Ketill Þistill var í gegnum Sigmund, son sinn og
landnámsmann á Laugarbrekku á Snæfellsnesi,
ættfaðir Guðríðar Þorbjarnardóttur, víðförlustu konu
fyrri alda og móður Snorra, fyrsta norrræna
barnsins sem talið er fætt í Vesturheimi,
sonar hennar og Þorfinns Karlsefnis.


Þistillinn Björg er ein ættmæðra okkar hjá Skuggsjá.
Hún var alla tíð berdreymin og forspá
og sá m.a. fyrir alvarleg veikindi löngu
áður en þau greindust eins og raunin
varð á með hennar eigin veikindi
sem urðu hennar aldurtili síðar
en nú er tæp hálf öld frá andláti hennar.
Mikill dýravinur og elskaði hestana
sína í sveitinni heima en á þeim slóðum
var blátt bann lagt við hrossakjötsáti
enda aldrei á borðum á hennar heimili
eftir að hún sjálf fór að búa; listakokkur
og höfðingi heim að sækja og slógu
margrómaðar fiskbollur hennar allt út,
uppskrift frá æskuheimlinu á Kúðá.
Að ótöldum kleinunum, kaffitertunni með
hvíta kreminu og fagurskreyttu smurbrauðinu.

Hún elskaði tónlist og söng yfir pottunum,
fór í kirkju á sunnudögum til að syngja
og biðja en stundaði líka jóga og var í fyrsta
jógahópnum sem vitað er um hérlendis.
Mikil áhugakona um Indland og austræn fræði.

Ung að árum kom Björg til Akureyrar
til þess að læra kjólameistaraiðnina
hjá Hinrik Bebensee, þýskum klæðskera,
sem rak klæðskerastofu í Brekkugötu 3
í miðbæ Akureyrar, í húsi sem hann reisti
í byrjun 20. aldar. Og sem hann ásamt
mági sínum og síðar eiginmanni Bjargar,
Sveini Bjarnasyni, framfærslufulltrúa,
byggði áfram við, m.a. þriðju hæðina, þá efstu.
En Sveinn var framfærslufulltrúi Akureyrarbæjar
í tvo áratugi, eða frá 1935 til 1955, og
hafði skrifstofu sína, kontórinn, í húsinu.


Brekkugata 3 við Ráðhústorg á Akureyri,
er einstakt hús, ekki bara sem reisulegt
hátimbrað aldamótahús heldur líka vegna
alls þess lífs, atvinnu og menningar sem
verið hefur þar frá fyrstu tíð:
gróskumikið sambland af starfi iðnmeistara
og nema, verslunar-og viðskiptajöfra á fyrstu
hæðum og starfsmanna en hýbýli íbúa á efri
hæðum og kostgangara að koma og fara.
Húsið iðaði af fólki á öllum aldri og öllum
gerðum--allar skoðanir vel þegnar--,
og þar bjuggu breskir offíserar á stríðsárunum.


Kjólameistarinn Björg hafði hvað mest yndi
af að veita liðsinni við saum á íslenska
þjóðbúningnum og gerði það allt fram á
síðustu æviár á heimili sínu í Brekkugötu 3.
Eins hafði hún einstakt auga fyrir handbragði
og efnum og gæðum þeirra og hreifst lítt af
gerviefnum sem þá voru farin að koma fram.
Um það voru hún og helsta vinkona hennar,
Halldóra Bjarnadóttir, frá Ási í Vatnsdal,
frænka Sveins, sammála. En Halldóra
var tíður gestur í Brekkugötunni og
starfaði í 10 ár sem skólastjóri Barnaskóla
Akureyrar--Barnaskóla Íslands--og kom
þar á fót kennslu í handavinnu sem margir
sáu nú ekki beint tilgang í þar sem heimilin
gætu séð um þá hlið!
Halldóra helgaði síðan tóvinnu og textíl ævi
sína og eftir hana liggur geysimikið safn handverks,
vefnaðar og ýmissa textílmuna sem hún safnaði
og sjá má á Heimilisiðnaðarsafninu á Blönduósi en
þar er sérstök stofa tileinkuð henni, Halldórustofa.

(Nú um Hvítasunnuna var opnað skemmtilegt rými
á Textílsetrinu í Kvennaskólanum á Blönduósi
fyrir ýmsar textílgreinar tengdar listsköpun og
menningu. Og verður spennandi að fylgjast með
framgangi þess).


Kjólameistarinn Björg var velfróð um marga hluti
og mikil andans manneskja og heimili hennar
var einstaklega gestkvæmt, gestir komu til lengri
eða styttri dvalar bæði að austan, ættmenn og vinir
af æskuslóðunum í Þisltifirðinum en líka að vestan,
ættmenn og vinir Sveins úr Húnavatnssýslunum.
Og alltaf var sunnudagskaffi að morgni og Opið hús.
Talandi um vinina og áhugann á andlegum málum,
þá var ein vinkona Bjargar oft gestkomandi að sunnan,
Guðrún Waage, miðill, sem uppgötvaði snemma
stórmerka hæfileika Einars á Einarsstöðum í Reykjadal,
(1915-19987), og veitti þjálfun. Einar er af mörgum talinn
einn mesti huglæknir og andans jöfur okkar Íslendinga
og þó víðar væri leitað. Lesa má um fágæta mannkosti
og lækningahæfileika Einars í ýmsum skrifum, m.a.
Sigurjóns Björnssonar, sálfræðiprófessors og fyrsta
deildarforseta Sálfræðideildar Háskóla Íslands sem nú
stendur á níræðu og er enn að skrifum og þýðingum.
Einstakur kennari og djúphuga fræðimaður; honum
sé heil þökk fyrir leiðsögnina um lendur sálarfræða.


Segja má að textíll og jóga og matarmenning,
lifi enn í dag góðu lífi í Brekkugötu 3 hvar
Björg upphaflega lærði kjólameistara-
iðnina, saumaði íslenska búninginn,
söng yfir pottunum og iðkaði jóga.
Hún var einstaklega skemmtileg kona.
Nú er jóga kennt í tengibyggingu hússins
upp að bakhúsinu og að svokölluðu Afatúni,
en þessar viðbætur byggði Bjarni, sonur Bjargar.
Mikilvirkur múrarameistari og athafnamaður sem
fæddist í Brekkugötunni og ólst þar upp til fimmtugs
eins og við afkomendur hans stríddum honum oft á!

Í Brekkugötu 3a tengibyggingu, er jógasetrið Ómur.
Þar áður var þar hönnunargalleríið Hvítspói en
húsnæðið og galleríið hefur verið í eigu Önnu
Gunnnarsdóttur, textíllistakonu. Faðir hennar,
Gunnar Hjartarson, athafnamaður og síðar
bankastjóri, og Bjarni áttu í samstarfi um inn-
og útflutning lengi vel, og var sá rekstur staðsettur
í Brekkugötu 3. Skóverslunin Leðurvörur var lengi
á neðstu hæð Brekkugötunnar en kjallarinn hafði
verið grafinn út af Bjarna; má segja að húsið sé
síðan á fjórum hæðum. Nú er þar konditóríkaffihúsið
Sykurverk. Og gistiíbúðir til skemmri eða lengri
útleigu á efri hæðum, gömlu íbúðahæðunum.

Dóttir Önnu og eiginmanns hennar, indverska
gjörgæslu-og svæfingalæknisins, Girish Hirlekar,
Anita Hirlekar, sýnir nú á Hönnunarmarsi
í Kiosk á Granda, stórglæsileg klæði og litrík
úr efnum gerðum á staðnum og með
handgerðum munstrum sem minna á
eitthvað sem er ekta og flæðandi af lífi.
Líkt og náttúran sjálf sé mætt á svæðið!
Aníta lærði í Central St Martins, listaháskólanum
í London, og hefur unnið til fjölda verðlauna.
Formóðir okkar Björg átti sér marga uppáhaldsstaði
í Noðurþingi, einn þeirra var Ásbyrgi. Við vorum
ekki há í loftinu þegar hún sagði okkur frá tilurð þess
og þjóðsögunni um Sleipni, hest Óðins. Að Sleipnir
hafi átt að stíga fast niður fæti þegar hann var á ferð
sinni um lönd og höf og að Ásbyrgi væri hóffar hans,
eyjan í miðjunni, far eftir hóftunguna.

Eitt efitirlætisskáld ömmu Bjargar var Einar Benediktsson,
(1864-1940). Hann bjó eitt sinn að Byrgi í Ásbyrgi og segir svo í
einu af sínum fegurstu kvæðum Sumarmorgunn í Ásbyrgi:

Alfaðir rennir frá austurbrún
auga um hauður og græði.
Glitrar í hlíðinni geislarún,
glófaxið steypist um haga og tún.
Signa sig grundir við fjall og flæði,-
faðmast í skrúðgrænu klæði.


#
Síđasta frétt 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30 31 32 33 34  35 36 37 38 39 40 41 42 43 44 45 46 47 48 49 50 51 52 53 54 55 56 57 58 59 60 61 62 63 64 65 66 67 68 69 70 71 72 73 74 75 76 77 78 79 80 81 82 83 84 85 86 87 88 89 90 91 92 93 94 95 96 97 98 99 100 101 102 103 104 105 106 107 108 109 110 111 112 113 114 115 116 117 118 119 120 121 122 123 124 125 126 127 128 129 130 131 132 133 134 135 136 137 138 139 140 141 142 143 144 145 146 147 148 149 150 151 152 153 154 155 156 157 158 159 160 161 162 163 164 165 166 167 168 169 170 171 172 173 174 175 176 177 178 179 180 181 182 183 184 185 186 187 188 189 190 191 192 193 194 195 196 197 198 199 200 201 202 203 204 205 206 207 208 209 210 211 212 213 214 215 216 217 218 219 220 221 222 223 224 225 226 227 228 229 230 231 232 233 234 235 236 237 238 239 240 241 242 243 244 245 246 247 248 249 250 251 252 253 254 255 256 Næsta frétt 
© 2007 Draumasetriđ Skuggsjá Hönnun Design EuropA