Forsíđa   

 27.11.2023
 Óskastjarnan og tilgerđarkćti samtímans


Jörð skelfur og fyrirboðar
birtast í draumsýnum; haft
er samband við Veðurstofu og
Almannavarnir eins og við höfum
áður gert hér hjá Skuggsjá í
gegnum árin. En Skuggsjá
fagnar 20 ára afmæli nú í
nóvember.
Má segja að ákveðin mildi hafi 
verið yfir atburðum á Reykjanesi 
miðað við þá ógnarkrafta sem 
hafa verið að leysast úr læðingi 
þar allt frá 2020 og nú síðast,
í stóra skjálftanum 10. nóv. sl.
í nágrenni Grindavíkur.

En eyðileggingin og óvissan í 
kjölfarið, missir húsa og heimila 
og hvort fólk eigi afturkvæmt til 
búsetu og starfa í sínu góða
samfélagi, eru stórar og
þungar tilvistarspurningar.

Vonarbænir fyrir bættum hag 
og betri tíð til handa Grindvíkingum.





Á fullu tungli þessa mánudags
í mildri skammdegisstillu þegar 
náttúruvá steðjar að hér heima
og menn brytja/drita niður hvern
annan úti í heimi og eira engu, 
ekki heldur börnum, rifjast
upp orð skáldsins frá Arnarholti, 
Sigurðar Sigurðssonar, lyfsala,
(1879-1939), um vora óskastjörnu, 
hugans sálarsýn, í sorg, í draumi, 
eða vonarbænum.

Arnarholt í Stafholtstungum er sá
bær sem Sigurður kenndi sig við
hvar hann starfaði sem sýsluskrifari
ungur maður. Hann var fóstursonur
Björns M. Ólsen, rektors Lærða
skólans í Reykjavík, fæddur í 
Danmörku en missti Sigurð föður 
sinn og samstarfsmann Björns,
aðeins 5 ára að aldri.






Sigurður er sannarlega eitt af
draumskáldum okkar og sér
þessa víða stað í ljóðum hans.
Ófáar eru tilvísanirnar í svefn 
og drauma: draumsins myndir
geymast æ; sjá draumsins helgu,
hljóðu vé; kom draumsins
guð og gefðu hvað þú vilt...

Eitt þekktara ljóða Sigurðar
fjallar um líknargæði svefns 
og drauma og heitir Nótt:



Sefur sól hjá ægi,
sígur höfgi yfir brá.
Einu ljúflingslagi
ljóðar fugl og aldan blá.
Þögla nótt, í þínum örmum
þar er rótt og hvíld í hörmum - 
hvíldir öllum oss.



Og í hinu magnaða ljóði Lágnætti 
við Laxfoss, talar Sigurður um
þann sem þarf að dreyma og gleyma:



Sof rótt á meðan, veröld víð og breið,
og vek ei neinn, sem þarf að dreyma'
og gleyma.



En orðhákurinn sem Sigurður var,
talar líka um tilgerðarkæti sem
aldarhátt en hann var maður
tveggja tíma/alda. Þann kvíða 
og streitu sem einkenndi samtíma 
hans í eftirsókninni eftir hjóminu,
forgengilegum hlutum. Enn
einkennandi fyrir andblæ daganna.

Tilgerðarkæti sem skapar vissa 
aftengingu við það sem er og
villir sýn á raunveruleg verðmæti,
mildi og mennsku. 
Gefum óskastjörnunni og
vonarbænunum svigrúm fyrir
góðvild og samhjálp.



#






Síđasta frétt 1 2 3 4 5 6  7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30 31 32 33 34 35 36 37 38 39 40 41 42 43 44 45 46 47 48 49 50 51 52 53 54 55 56 57 58 59 60 61 62 63 64 65 66 67 68 69 70 71 72 73 74 75 76 77 78 79 80 81 82 83 84 85 86 87 88 89 90 91 92 93 94 95 96 97 98 99 100 101 102 103 104 105 106 107 108 109 110 111 112 113 114 115 116 117 118 119 120 121 122 123 124 125 126 127 128 129 130 131 132 133 134 135 136 137 138 139 140 141 142 143 144 145 146 147 148 149 150 151 152 153 154 155 156 157 158 159 160 161 162 163 164 165 166 167 168 169 170 171 172 173 174 175 176 177 178 179 180 181 182 183 184 185 186 187 188 189 190 191 192 193 194 195 196 197 198 199 200 201 202 203 204 205 206 207 208 209 210 211 212 213 214 215 216 217 218 219 220 221 222 223 224 225 226 227 228 229 230 231 232 233 234 235 236 237 238 239 240 241 242 243 244 245 246 247 248 249 250 251 252 253 254 255 256 257 258 259 260 261 262 Næsta frétt 
© 2007 Draumasetriđ Skuggsjá Hönnun Design EuropA