Nú hnígur rás tímans
senn í aldanna skaut
og árið 2024 kveður.
Ár sem einkennst hefur
af ótrúlegum sviptingum
bæði á innlendum sem
erlendum vettvangi.
Og uppgangi stækkandi
hóps mannkynshrotta
um víða veröld þar sem
almennir borgarar og börn
eru álitin sjálfsagður
fórnarkostnaður.
Þróunin virðist því miður
víða vera í átt til
fasisma og aukins trúar-
og pólitísks ofstækis.
Rétttrúnaður og bókstafs-
hyggja inntak daglegs lífs.
Gervigreindin í höndum
slíkra afla, er óhugnanleg
tilhugsun, jafnvel staðreynd.
Nema hún fari að herma
eftir yfirvaldinu og taki
sjálf yfir...
En óbilandi seigla í krafti
réttætis og sannleika, trúar
á mildi og mennsku, sigrar
um síðir, eins og dæmin
sanna. Hér heima er m.a.
brýnt að ráðast í uppfærslu
áratuga gamalla laga
í samræmi við nútíma-
skilning á lýðréttindum
og verndun almannahags
og náttúru.
Úrelt, gömul lög eiga ekki
að vera stjórntæki yfirvalda.
Alþingi er jú fyrst og fremst
löggjafarsamkunda.
Vonir og draumar
eru nátengd og fela í sér
fræ nýrrar sköpunar og
lausna ef við gefum þeim
rými í daglegu lífi. Gefa
okkur sólarsýn:
Þegar að fögur heims um hlíðir
heilög sólin loftið prýðir,
lifandi hauður, vötn og víðir,
voldug er hennar sýn,
þá hún vermir, hún skín.
(Bjarni Gissurarson.
Um samlíking sólar.17. öld).
Veganestið út í nýjan dag,
er að skerpa meðvitund
og halda vöku okkar í
öllu amstrinu, ná að
vera stjórnendur í eigin lífi.
Láta ekki endalaust áreiti
misgóðrar fjölmiðlunar
og ofurvald neysluhyggju,
yfirtaka daglegt líf og
svipta okkur sjálfræði.
Brain rot var orð ársins
hjá Oxford University Press
og ekki að undra.
Heilaroti...
Náttúran lætur ekki að sér
hæða frekar en fyrri daginn
og heldur sína rás. Birtir
líknandi leyndardóma þegar
við gefum henni gætur.
Nú hefur t.a.m. verið sýnt
fram á að sú athöfn
að faðma tré, tree-hugging,
fara í skógarbað, leysir úr
læðingi heilandi efnaskipti,
bæði fyrir tré og menn.
Verum minnug orða
heimspekingsins og
ameríska lífskúnstnersins,
Henri David Thoreau,
(1817-1862), sem ritaði í
Walden, (Life in the Woods),
árið 1854:
Í villtri náttúrunni er fjöregg
heimsins falið.
(Thoreau er talinn orðasmiðurinn
að baki brain rot sem hann notaði
í Walden--heilaroti--og tók þá
hliðstæðu af potato rot).
#
|