Árið 2016 líður nú
í aldanna skaut.
Árið þegar heimurinn
- og er Ísland þar
engin undantekning -
var vakinn harkalega
af lúmskum blekkinga-
svefni rányrkjuauðræðis,
inn í firrtan nútíma
grimmra stríðsátaka og
hryðjuverka vargaldar,
siðrofs sem engu eirir.
Inn í tilveru sem telur
alls um sjö þúsund
og fjörgur hundruð
milljónir Jarðarbúa
hvar einungis eitt
prósentið á meirihluta
allra gæðanna...
Árið þegar einkunnarorð
alþjóðahjálparsamtakanna
Lækna án landamæra:
stríð hafa vissar leikreglur,
voru skekin að grunni
og svívirt ásamt öllum
eðlilegum mannréttindum.
Ár vélunar; árið sem
kallað hefur verið ár
post-human rights og
post-truth staðreynda,
sem falskar fréttir eru
ein birtingarmyndin á.
Já; lævís og lipur lygin
hefur selt sig vel og
litar þá heimsmynd
sem við nú vöknum til
með vafasömum stjórnar-
og stríðsherrum yfir öllu
og allt um kring.
En árið 2016 var
líka ár vöknunar;
það skerpir vit og þor
að sjá nauðsyn þess
að takast á við vélun og
vitfirringu í heimi hér.
Barátta að hefjast og
eru von og draumar
hnattrænt hreyfiafl
í slíkri sókn: ljá okkur
rödd andmæla.
Lengi væntir vonin,
segir gamalt máltæki.
Páll Ólafsson kveður svo
í ljóði sínu um vonina:
Vonin styrkir veikan þrótt,
vonin kvíða hrindir.
Vonin hverja vökunótt,
vonarljósin kyndir.
Ljóð og draumar eru
að sækja í sig veðrið
á þessum viðsjárverðu
tímum og ný og öflug
ljóðlist sem andsvar við
ómennsku, er að
líta dagsins ljós, ekki
síst meðal skáldkvenna
á átakasvæðum.
Um vonina og frelsið
og þrána eftir friði og
einföldum lífsgæðum,
yrkir sýrlenska skáldkonan
Maram al - Masra
í bók sinni Barefoot
Souls frá árinu 2015:
All that I need
is a room,
a room with a window
through which space can penetrate -
the moon
the sun
and the stars...
the conversation of the world.
A room where I can await
the arrival of cherry time,
where I can dream of happiness,
redraw my smiles.
A room
that would house
my freedom.
*