Á nýju tungli dagsins,
þegar trén hafa fellt
laufskrúð sitt og
mæta hljóðlát vetri,
er tími til að dreyma
og þreyja skammdegið.
Gefa ímyndunaraflinu
lausan taum og svífa
inn í heima og geima
á vængjum sönggyðjunnar:
fljúga um loftið draumablátt.
Tré eru kyngimagnaðar
lífverur, sem geta náð
háum aldri og búa yfir
margslungnum töfrum.
Tré voru í hávegum höfð
meðal forferða vorra,
Kelta, og var á þeim
sumum mikil helgi.
Hver mánuðru markaðist
af nýju tungli í tímatali Kelta
og bar ákveðið trjáaheiti.
Skáldið kjarnyrta frá
Galmaströnd í Eyjafirði,
Davíð Stefánsson,
frá Fagraskógi, yrkir
um fuglana, sem
hann ungur tálgaði úr
furutré út við sjó,
eða úr smiðjumó
heimahaganna.
Galmaströndin er í
vestanverðum Eyjafirði,
norðan Hörgárdals.
Ströndin er kennd við
Galma landnámsmann.
Um er að ræða strandlengjuna
og undirlendið milli Reistarár
í suðri, (raunar Reiðholts),
til Fagraskógar í norðri
og Þorvaldsdalsár.
Úr furutré, sem fann ég út við sjó,
Ég fugla skar og líka úr smiðjumó.
Í huganum til himins oft ég svíf,
Og hlýt að geta sungið í þá líf.
(Davíð Stefánsson, 1895-1964;
Svartar fjaðrir, 1919;
úr Kvæðið um fuglana).
*
|