Hátíð í bæ:
jafndægrishringur móður
náttúru heldur tryggð
við allt sem lífsanda dregur
og minnir okkur á
að vinna með jörðinni
en ekki á móti henni.
Vorjafndægur í dag og
sól beint yfir miðbaugi
jarðar klukkan 16:15.
Dagur jafnlangur nóttu
hvar sem er á jörðu.
Vorið komið samkvæmt
náttúrunnar hrynjanda
með nýju tungli sem kviknaði
í suðri sl. laugardag en slíkt
laugardagstungl var talið
vita á gott hér á fyrri tíð.
Megi svo vera enn í dag.
Blessun fylgir endurnærandi
svefni á ljúfum vornóttum
og ljær draumum vængi...
Söngelska skáldið og Dalamaðurinn,
Jón frá Ljárskógum í Laxárdal,
einn stofnenda MA-kvartettsins,
sem ungur lést úr berklum,
(1914-1945), kvað um vornóttina
og miskunn svefnsins, sem svæfir
glaumsins klið og gefur frið:
Kom, vornótt og syng þitt barn í blund.
Hve blítt þitt vögguljóð og hlý þín mund
ég þrái þig.
Breið þú húmsins mjúku verndarvængi,
væra nótt, yfir mig.
Þú draumljúfa nótt, fær mér þinn frið
firr þú mig dagsins háreysti og klið,
ó, kom þú fljótt!
*
|