Lengstur sólargangur
í dag og sumarsólstöður
á nyrsta stað sólbaugsins.
Og Jónsmessan á næsta
leiti þegar dýrin tala og
döggin endurnýjar krafta...
Ungviðið fagnar léttleika
tilverunnar og finnur sér
ýmsa dægradvölina eins og
að liggja í grængresinu og
lesa í skýin og sjá úr þeim
alls kyns myndir; ferðast
með skýi til fjarlægra staða.
Að lesa í skýin og láta sig
dreyma, er ungviðinu í blóð
borið um alla jarðarkringluna.
En nú hefur verið hrist svo
óþyrmilega upp í veröldinni
og alþjóðakerfinu, - dagleg
sjokk meðferð í gangi -,
að hættan er stóraukin á
að þessi iðja ungviðisins
að láta sig dreyma um
heima og geima, fái ekki
að vera í friði frekar en margt
annað sem börn þurfa á
að halda til að vaxa og dafna.
Helst að taka þau líka
frá foreldrum sínum
og geyma í búrum...
Sjálfhverfur og hömlulaus
valdhafi, sem draumfræðingar,
heimspekingar, geðlæknar og
sálfræðingar vestanhafs kalla
Rocket man - Eldflaugamanninn,
er nefnilega kominn á kreik
með ekki síður ískyggilegan
þjóðaröryggisráðgjafa sér við hlið.
Valdhafinn hefur einn yfirráð
yfir kjarnorkuvopnakóðunum
hjá voldugasta ríki heims.
Kjarnaflaugum, sem hæglega
gætu rústað lífi og limum,
náttúru og heimsmenningu
á einu örskoti, skotið niður
skýin og himininn - og draumana.
Kjarnorkuváin er því miður raunveruleg.
Draumar breyta heimi,
satt er það, en sumir
eru bara svo háskalegir
og brjálsemi farin að lita
dagana og næturnar:
gjafir drauma rústaðar.
Dreymum fyrir betri
heimi fyrir börn alls staðar
- og látum í okkur heyra.
Skýin yfir jörðinni
leikvangur drauma
myndir þeirra skuggar og skin
og borgirnar allar
(Snorri Hjartarson, 1906-1986).
*
|