Nú í kjölfar jafndægra
á vori og fulls tungls,
er dagur ljóðsins haldinn
hátíðlegur um heim allan.
Minnir á öll þau góðu
sönglög og texta sem
tónlistarmaðurinn og
Vestmanneyingurinn
Oddgeir Kristjánsson,
(1911-1966), samdi
ásamt fleirum.
Einn textasmiðurinn var
kennarinn, rithöfundurinn,
þýðandinn og blaðamaðurinn
Loftur Guðmundsson,
(1906-1978).
Loftur kenndi um árabil
úti í Eyjum en fluttist
síðan til Reykjavíkur
og vann þar við þýðingar,
ritstörf og blaðamennsku
um áratuga skeið og þýddi
m.a. bækur Hergé um Tinna.
Í tilefni dagsins og með
þrautseigju vonarinnar,
--frelsi blaðamanna
og fjölmiðla í huga--,
birtum við hér ljóð Lofts,
Fyrir austan mána,
við sönglag Oddgeirs.
Bent skal á að
söngkonan góða,
Sigríður Thorlacius,
á til eftirminnilegan
flutning þessa fallega
ljóðs og lags ásamt
Hafsteini Þórólfssyni
og félögum í Tríó Glóðir
á diskinum Bjartar Vonir
með lögum Oddgeirs
frá árinu 2015;
já, það birtir á Fróni!
Er vetrarnóttin hjúpar hauður
í húmsins dökka töfralín
og báran smá í hálfum hljóðum,
við hamra þylur kvæðin sín.
Á vængjum drauma sálir svífa
frá sorg, er dagsins gleði fól
um óravegu ævintýra
fyrir austan mána og vestan sól.
Þótt örlög skilji okkar leiðir
í örmum drauma hjörtun seiðir
ástin heit, sem fjötra alla brýtur
aftur tendrast von, er sárast kól.
Við stjörnu hafsins ystu ósa
í undraveldi norðurljósa
glöð við njótum eilífs ástaryndis
fyrir austan mána og vestan sól.
*
|