Páskar eru tími
þjáningar og upprisu,
heilunar og nýrrar
sýnar hvar hið forna
frósemistákn, eggið,
leikur stórt hlutverk,
táknrænt fyrir mystíska
umbreytingu, nýtt upphaf.
Minnir á að við þurfum
að virkja kraftana, leysa
sköpunar- og heilunaröfl
vitundarinnar úr læðingi,
vekja nýja von.
Íhygli í vöku sem draumi,
er öllum nauðsynleg
til vaxtar og þroska:
að sálarlífið fái tíma
til að vinna úr lífsreynslu
og öðlast merkingarbært
inntak, hvílast og endurnýjast.
Fyrr á öldum var svokölluð
draumleiðsla, - dream incubation -,
þekkt til þess að komast í
djúpt og íhugult draumflæði,
dreyma heilandi drauma
sem m.a. milduðu íþyngjandi
einkenni þjáninga og áfalla.
Nýleg bók um svefn og drauma
Why We Sleep, eftir Matthew
Walker, prófessor í taugavísindum
við Berkeley háskóla í Kaliforníu
og þar áður við Læknadeild
Harvard háskóla, hefur farið sigurför
um heiminn undanfarin misseri
og á óefað sinn þátt í þeirri
byltingu sem er að verða
í skilningi manna á mikilvægi
góðra svefngæða fyrir líf
og heilsu ungra sem aldinna.
Lögð er áhersla á þá endurröðun
í minni sem svefninn veitir í
gegnum úrvinnslu draumlífsins,
á nýjan lærdóm og frjóa og
skapandi hugsun og þá heilun
sem íhygli í draumi getur
haft á úrvinnslu þjáningarfullrar
áfallalreynslu en lengi hefur verið
vitað að svefninn læknað getur.
Í ljóðabók fyrrum Berkeley stúdentsins,
Jóhanns S. Hannessonar, skólameistara
og skálds, Ferilorð frá árinu 1977,
er ljóðið um eplatréð sem átti að höggva
og þá gagnrýnu íhygli sem fær
okkur til að endurskoða og sjá
það sama og áður blasti við
en nú í nýju ljósi með nýja merkingu:
Meðan ég var að leggja öxina á
(þó eplatréð sé fúið, þarf að bíta),
sá ég í hug mér bleikrauð eplablómin
bærast í vorgolunni, en það var aðeins
andartaks hik. Ég fór í gegnum garðinn
og gekk að trénu, fann mér veikan blett,
og reiddi hart til höggs. Þá gaf mér sýn
um hag mín sjálfs. Tréð stendur þarna enn.
*
|