Forsíđa   

 31.12.2019
 Deigla tímans og seigla draumsins um nýjan heim



Enn á ný segir tíminn til sín
og byrjar brátt nýja hringrás,
sama hvort okkur líkar
betur eða verr; raunar höfum
við bara ekkert um það að segja,
Náttúran er við stjórnvölinn.
Afstæði tímans og rúmsins er
hollt fyrir þröngt sjónarhorn vort:
nú klukkan 16 þegar þessi pistill
er ritaður, berst kveðja
úr framtíðinni til árs og friðar,
miðnætti í Suðaustur Asíu,
og nýtt ár runnið upp hinum
megin á hnettinum!




Árið 2019 sem nú kveður,
markar lok heils áratugar
og einkennist um margt af
umróti og ólgu, allt að upplausn
í samfélögum, og minni sem
stærri einingum innan þeirra
og þeirra á millum; hefur á
stundum verið martröð likast.
En friðarviljinn er lífsseigur,
og víða er frábært mannúðar-
og hjálparstarf unnið eins og
við hér á Fróni fengum
sannarlega að reyna í
nýliðnum náttúruhamförum.




Hamfarahlýnun, og einhverjir
mestu þjóðflutningar í sögunni,
ásamt stafrænu byltingunni,
munu umbylta samfélögunum
eins og við þekkjum þau; þessi
þróun er að verða æ skarpari.
Aftur er það Náttúran sem
lætur ekki að sér hæða en
það vald sem Herrar Jarðar
hafa tekið sér, gæti, ef fram
heldur sem horfir, leitt til enn
frekari hörmunga, eyðileggingar,
endanlegs hruns vistkerfa og
fjölbreyttra menningarheima.




Sömuleiðis, er hættan af hningun
mennskunnar mikil, og af því
refsileysi, (impunity), lygum og
falsi, sem víða ræður ríkjum.
Það að telja sig komast upp
með allt, og raunar gera það,
sýnir að mannfólkið hefur glatað
sjónum á sín leiðarljós; margir
taka þetta mynstur sem gefnu,
sjá sér jafnvel hag að því, eða
gefast upp fyrir ofureflinu, og
hver reynir að bjarga sér.
Víða hættulegir einstaklingar
við stjórnvölinn, sem þrífast
í slíkum jarðvegi, hafa átt
sinn þátt í að skapa hann,
viðhalda og stjórna.
Að ótöldu hermanginu...
Eignasamþjöppun og
ójöfnuður hefur aukist.




Þjóðirnar tala gjarnan um
manngæsku, mildi og trúna
á réttlátan framgang mála,
dharma--fairness of conduct--,
sem gunnstoðir samfélaganna,
og slá varðborg þar um.
En getur ríkjandi eitrað mynstur
valdníðslu, græðgi og mismununar,
nokkuð annað en endað með
ósköpum svo andstætt sem
það er lögmálum þróunarinnar
og lífsins sjálfs?





Tíminn gefur svörin,
segir gömul speki.
Og svörin eru oft margræð
jafnvel óræð. Hver hefði
t.a.m. trúað að Asperger
unglingsstúlka myndi
hrista jafn vel upp í heims-
byggðinni og raunin er,
og fá ungt fólk um heim
allan til liðs við málstað
Jarðarinnar og vernd
hennar og viðhald?
Minnir á hið óræða og
undursamlega skapandi
afl drauma sem geta
umbreytt bæði manni
og öðrum ef á er hlustað.




Í stóra samhenginu hvað
heimsbyggðina snertir,
--m.a. vegna alþjóða-
samvinnu og viðskipta--,
hefur dregið úr ólæsi,
barnadauða, fólksfjölgun,
og sárustu örbirgðinni.
Menntun kvenna sækir
á, og heilbrigði er betra.
Já, það er deigla og
seigla í gangi, sem er
að fleyta okkur inn á
nýjan áratug á vit nýrra
vona og drauma þar sem
miklu skiptir að dreyma
saman um betra lif til
handa Plánetunni og öllum,
sem hana byggja. Á ferð
Jarðar í samfélagi stjarna
og vetrarbrauta á hverjum
merkar uppgötvanir eru
að eiga sér stað sem munu
óefað kollvarpa ríkjandi
heimsmynd.
Nýr draumur...




#





Síđasta frétt 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30 31 32 33 34 35 36 37 38 39 40 41 42 43 44 45 46 47 48 49 50 51 52 53 54 55 56 57 58 59 60 61 62 63 64 65 66 67 68  69 70 71 72 73 74 75 76 77 78 79 80 81 82 83 84 85 86 87 88 89 90 91 92 93 94 95 96 97 98 99 100 101 102 103 104 105 106 107 108 109 110 111 112 113 114 115 116 117 118 119 120 121 122 123 124 125 126 127 128 129 130 131 132 133 134 135 136 137 138 139 140 141 142 143 144 145 146 147 148 149 150 151 152 153 154 155 156 157 158 159 160 161 162 163 164 165 166 167 168 169 170 171 172 173 174 175 176 177 178 179 180 181 182 183 184 185 186 187 188 189 190 191 192 193 194 195 196 197 198 199 200 201 202 203 204 205 206 207 208 209 210 211 212 213 214 215 216 217 218 219 220 221 222 223 224 225 226 227 228 229 230 231 232 233 234 235 236 237 238 239 240 241 242 243 244 245 246 247 248 249 250 251 252 253 254 255 256 257 258 259 260 261 262 263 264 265 266 267 268 269 270 Næsta frétt 
© 2007 Draumasetriđ Skuggsjá Hönnun Design EuropA