Fyrsti dagur Vetrar á fullu tungli
og Venus skín skært sem bæði
morgun-og kvöldstjarna.
Og með kvöldinu verður deildarmyrkvi
á tungli; ekki ýkja langt síðan
sólmyrkvi varð á nýju tungli
þann 14. október sl.
En hefur einhver fyrir því að líta upp?
Nú leita margir í hæglæti ljóðsins.
Ljóðlistin heilar og veitir svölun
þessi dægrin þegar alls kyns
hörmungar og mannleg hermdarverk
undir himninum, ólýsanleg grimmd,
dynja á sakleysingjum, ungum sem öldnum,
og búið er að gjaldfella mennskuna.
Árásaraðilar óttast greinilega ekki
reiði himnanna eins og haft var á orði
á fyrri tíð um veröld víða:
Það er fullt af undarlegri illsku
á reiki um jörðina, segir á einum stað.
Svefn raskaðist verulega hjá mörgum
víða um heimsbyggðina í kófinu
og hvað þá nú fyrir þolendur ofbeldisverka
og mannréttindabrota, stanslausra ógna
og árása, í heimi þar sem þróunin er til
aukinnar bókstafshyggju, vopnavalds og
alræðisstjórnunar. Engu er eirt.
Hver sefur í slíku ástandi og hvað með
hvíldir og úrvinnslu svefns og drauma
til endurnýjunar líkams-og sálarkrafta?
Lausnir eru fáar og tæki til að vinna
að friðsamlegum lausnum og sambúð
ólíkra þjóða og hópa, enn fábrotin.
Fjármagnið fer ekki í þá veru nema
nú verði gerð bragarbót á.
Við hljótum að geta leyst þessar
stóru þversagnir sem við blasa
án vopnavalds, grimmdarverka
og eyðileggingar með spunameistara
á bak við tjöldin sem sundra og eitra.
Þurfum ekki að vera sammála og
þó við séum ósammála, þurfum
við ekki að meiða og deyða
hvert annað. Engin lausn í því.
Allir þurfa að eiga sitt heima og
halda voninni um miskunnsemi
og kærleika í mannlegu samfélagi.
Voninni um að komast af og lifa
í friði undir himninum.
Árið 2021, gaf JPV út þýðingar
Hjörleifs Sveinbjörnssonar, á
ljóðum frá Tang tímanum í Kina,
Meðal hvítra skýja en Tang
tímabilið stóð frá 618 til 907 og er
talið eitt mesta blómaskeið í sögu
og menningu Kína fyrr og síðar.
Áður, eða 2008, hafði Hjörleifur þýtt
sýnisbók kínverskrar frásagnarlistar,
Apakóngur á Silkiveginum, sem JPV
gaf líka út.
Í ljóði sínu Hugsað um kyrra nótt,
kveður eitt höfuðskáld Tang tímans,
Li Bai (Li Po), um einfaldleikann og
sitt heima sem hann saknar
undir skæru tungli:
Við rúmið mitt skín tunglið skært,
mér finnst sem það sé hrím á jörð.
Ég lyfti höfði og lít tunglið,
ég lýt höfði og hugsa heim.
#
|