Fjólur þessa sumars gleðja
sál og sinni að venju og vanda.
Sjösofendadagur enn á ný
og maestro hefði orðið 95 ára
í dag, öðlingurinn sá, sem sagði
skilið við stjórnmálin þegar
frjálshyggjan hélt innreið sína.
Hann óttaðist að hið hógværa
og smáa, kjör þeirra, sem
minna mega sín, yrði fótum
troðið í slíkri markaðsránhyggju;
síðar kölluð rányrkju-kapítalismi.
Lífskúnstnerinn umræddi,
Bjarni Sveinsson, fæddist á
Sjösofendadegi 1929, og var
gjarnan kenndur við Brekkugötu 3
á Akureyri hva rhann fæddist
og bjó í hálfa öld.
Hann var einlægur tónlistarunnandi
og ófáar voru stundir bernskunnar
hjá systkinunum með honum
við grammófóninn spilandi
aríur heimstónmenntanna.
Tónskáldið Þórarinn Jónsson,
(1900-1974), var Bjarna kært.
Ungur reri Þórarinn til fiskjar frá
æskustöðvunum í Mjóafirði.
Sagt er að hann hafi:
krotaði nótur með nagla á
bátsþiljurnar og árablaðið
þegar blað og býantur var
ekki við höndina.
Þórarinn lærði tónsmíðar í
Berlín og dvaldi þar um
25 ára skeið, leitandi
tónsins hreina. Greind hans
og snjallt tilsvar, kom honum
inn í námið í Berlín en þegar
átti að hafna umsókn hans
sökum skorts á æðri skólagöngu,
varð honum að orði:
Hafið er minn háskóli.
Og komst þá umsvifalaust inn!
Eitt þekktasta sönglag Þórarins
er Fjólan sem hann samdi
líka textann við:
Heiðbláa fjólan mín fríða,
fegurð þín gleymist mér seint.
Hjartkæra blómið mitt blíða,
bros þitt er saklaust og hreint.
Fjólur í draumi nætur, hafa
löngum verið taldar fyrir góðu;
taldar táknrænar fyrir
hógværð, andlegheit,
fölskvalausa gleði og mildi.
En líka feimni. Verða seint
settar í lógó frjálshyggjunnar.
Hvað sem svo gervigreindin
mun segja þar um þegar
hún er nú í auknum mæli
að halda innreið sína í
fræðin, líka draumfræðin.
Ekki alslæmt en því er þó
ekki að neita að það er orðið
ansi vélrænt og tætingslegt
að sjá svörin á netinu.
Gúgglið hefur misst eitthvað;
töfrana?
Eigi að síður:
Góðar fjólustundir í
vöku sem draumi...
#
|