Í ljóði sínu Draumar
talar skáldið
Þorsteinn Valdimarsson
um þá gjöf svefnsins
að veita þreyttum hvíld
og leiða börnin í draumi
um lendur stjarna og óska:
Svefn sigrar hali,
svefn er runninn á dali,
hann lokar augum barnanna
og leiðir þau til stjarnanna,
og þar í draumalandi
liggja skeljar í sandi,
kuðungur, perlur og hörpuskel
og allt sem börnin óska sér.
Það er hreint ekki sjálfgefið
að börn nái að sofa rótt og
öðlast góða næturhvíld,
fara á stig djúpsvefnsins
og hvílast á líkama og sál.
Hið sama á við um fullorðna.
Höfum við áður rætt hér
á vefsetrinu um mikilvægi
bættrar svefnheilsu jafnt
hjá ungum sem öldnum.
Góður svefn er gulls ígildi.
Almennar truflanir á svefni
eru einkum tvenns konar
svefnleysi og svefnsækni.
Svefnleysi greinist síðan
í nokkra undirflokka sem eru
streitusvefnleysi, svefnhöfnun,
svefnröskun og svefntruflanir.
Varðandi svefnröskun
hjá börnum og
ungmennum, þá má
í flestum tilvikum rekja
hana til óreglulegs
svefntíma og þess að
svefnvenjur eru að
mótast langt fram
á unglingsár og
eru að vissu leyti
bundnar bæði
persónu og lundarfari.
Nægilegur og
reglubundinn svefn
er þó sú uppskrift
sem gildir fyrir alla.
Óreglulegur háttatími
er oft orsök vítahrings
í svefnmunstrinu,
og eftir löng frí t.d.
getur reynst erfitt
að vinda ofan af slíku,
líkt og margir þekkja.
Þessu fylgir gjarnan
ónógur svefn og getur
þá farið að bera á
einbeitingar- og minnisskorti,
áhugaleysi og dagsyfju.
Þessi sálrænu einkenni
geta svo farið að koma
niður á námi, skerpu
og ákvarðanatöku.
Spenna í samskiptum
á heimili getur aukist
sem eykur síðan aftur
á streitu og kvíða,
úr verður vítahringur.
Í rannsóknum hefur
komið í ljós að um
60-70% barna með
skerta námsgetu hafa
strítt við svefnleysi.
Hér a landi er varlega
áætlað að um 20-30%
barna fram til 5 ára aldurs
glími við svefnvanda.
En góð bjargráð fyrirfinnast!
Hægt er að leita í ágætar
bækur um efnið og inn
á Netið eftir greinum
eða til svefnráðgjafa
á Landsspítala, á
Heilsugæslustöðvar og
Barnadeildir sjúkrahúsa.
Og ráðgast við aðra foreldra.
Kenna má barninu
einfalda slökun og
djúpöndun og hjálpa því
að viðra áhyggjur sínar.
Minnug þess að það
að færa svefnvenjur
til betri vegar krefst
tíma og þolinmæði
af barni og foreldri/um.
Handbækur um svefnvanda
yngri barna eru t.a.m.
Sofðu barnið blíða
í þýðingu Guðrúnar
Höllu Tuliniusar
eftir einn helsta
svefnfræðing Evrópu,
dr. Edward Estiwill,
sem út kom 2005,
og Draumaland,
bók Örnu Skúladóttur,
sérfræðings í barnahjúkrun,
gefin út 2006.
Mestu gildir að átta sig á
hve svefninn er dýrmætur
og að hlúa þarf að honum
hjá börnum og hjálpa
þeim að koma sér upp
hollum svefnvenjum.
Að það að læra að þykja
vænt um rúmið sitt,
hlakka til að fara að sofa
og svífa í draumlönd inn,
séu holl, góð og
eftirsóknarverð lífsgæði.
*
.
|