Sumri hallar en veðurfegurð
enn mikil eftir gott sumar.
Engjarósin hávaxna sem
blómstraði seint í júní, öllu fyrr
en venjulega líkt og annar
gróður í góðri tíð, stendur
enn tígullega og hafa nú
dumbrauð blómin með
mörgum frævum í kúptum
blómbotni, umbreyst í rauðar
hnetur; aldin líkist jarðaberjum.
Þessi eftirtektarverða og tignarlega
blómplanta af Rósaætt vex
aðallega í mýrlendi og við
vota staði en hefur nú numið
land í skógarbotni í heimagarði.
Hún vex þar nálægt runnum
og Draumsóleyjum í skjóli
Reynitrjáa og Gullregns sem líka
blómstraði viku fyrr en venjulega
þetta sumarið.
Engjarósinni hefur stundum verið
blandað saman við hin fagra
Fjalldalafífil og minnir á
skáldaleyfið sem Jón Helgason,
tekur sér í kvæði sínu Á Rauðsgili:
dumbrauðu höfði, dægrin ljós,
drjúpir hin vota engjarós.
Varðandi nytjar engjarósar hér
á landi, er helst til að taka
að hún þótti henta til litunar
rauðs bands en hefur verið
notuð úti í löndum til þess
að lækna ígerðir eða drekka af
laufum hennar te til að milda
sárindi í maga.
Engjarósin á sér fleiri heiti,
s.s. Blóðsóley, Kóngshattur,
Krosslauf. Einnig Fimmfingrajurt
eftir blöðkunum: ber fimm til
sjö krónublöð, löng, mjó
og skarðtennt.
Hún telst ekki ein af helstu
svefn-og draumplöntum okkar
en gleður sál og sinni með
kyrrlátri og tignarlegri nærveru.
Falleg blómplanta ilmandi
um nætur af Orkídeuætt
sem tengist svefni og draumum
og átti að leggja undir koddann og
sofa á, birtist í garðinum í sumar:
bleikblóma Brönugras á milli
Engjarósanna.
Talið var að tína ætti brönugrasið
á Jónsmessunótt, einkum huga
að rótinni og varðveita hana en
rótin er tviskipt og á gildari endinn
að geta vakið ástir en sá mjórri
tengdist aftur á móti sefun/hreinlífi.
Enda kölluð ýmist Friggjargras
eða Hjónagras eftir notkun hennar
til að örva eða sefa (eins og misklíð
hjóna).
Í þjóðtrúnni voru Baldursbrá,
Freyjugras og Fjögurra blaða
Smári þekktar jurtir sem hægt
var að leggja undir höfuð
sér fyrir svefn og gat mann þá
t.a.m. dreymt þann sem stolið
hafði frá manni.
Garðabrúða og Vallhumall
eru enn í dag aðal svefnjurtirnar.
(Meira um þær síðar og sefandi
áhrif þeirra fyrir bættan svefn).
En hið eina sanna draumgras,
er talin vera Klólelftingin sem
vex allra grasa fyrst á vorin
og fullsprottin í kringum 16. maí.
Þá er gott að tína hana og
leggja inn í Biblíuna og þurrka
fram til haustsins.
Bera siðan í hársrætur fyrir
svefn sextánda sunnudag eftir
Þrenningarhátíð (sem er á haustin
en sjálf hátíðin í byrjun sumars).
Þá getur dreymandinn látið
sig dreyma hvað hann vill!
Talandi um blómplöntur og gleðina
sem þær veita ásamt ýmsum nytjum,
útbreiðslu, nöfnum og sögu,
kemur glæsilegt tæplega 700
blaðsiðna myndskreytt rit
Helga Hallgrímssonar, náttúrufræðings,
um íslenskar blómplöntur og
Skrudda gaf út í sumar, heldur betur
að góðu gagni.
Helgi nefnir rit sitt Foldarskart með
visun í ljóð Jónasar Hallgrímssonar
um blómplönturnar, litglaðan og
gefandi foldargróðurinn:
Smávinir fagrir, foldarskart...
Dreymi þig ljósið,
sofðu rótt!
Helga sé heill níræðum með
þetta frábæra og fallega framlag
til íslenskrar grasafræði!
#
|