Nú kveðjum við árið sem er að líða.
Það hefur einkennst af öfgum í náttúru
og loftslagi og stríðsrekstri í mannheimi.
Engu er eirt.
Búið að færa öll eðlileg mörk til og storka
heilbrigðri siðvitund: brjóta alla sáttmála.
Þá er og ljóst, að ein mesta hættan
sem steðjar að mennsku og mildi manna
og samfélaga á milli, er fals og lygi;
við látum bæði glepjast og blekkjast.
Okkur skákað til eins og hverjum
öðrum peðum á taflborði hættulegra
og lúmskra afla, oft á tíðum án þess
að vita hverjir raunverulegir
leikstjórnendur eru.
Miðlun upplýsinga fyrir tilstilli æ
þróaðri tækni, til góðs en líka ills:
upplýsingaóreiða, rógur og álygar;
meðvitaðar falsfréttir; ófrægingar
til mannorðsmissis; ljúgvitni og
meingjörð; ásetningur til skaða:
meinfréttir og djúpfalsanir gervigreindar;
til marks um öfugþróunina.
Falsheimur.
Eldhugsun
hvað dvelur þig?
Svo kveður þjóðskáldið Hannes
Pétursson, (1931- ), í ljóði sínu
Stund einskis, stund alls,
í bókinni Stund og staðir frá árinu
1962 og sem Helgafell gaf út.
Endurútgefin árið 1991.
Vonin er lífseig eins og dæmin
sanna og langt frá því að vera
öll úti.
Og ef til vill verður þrá okkar eftir
raunverulegri merkingu og
merkingarbærri reynslu, okkur
til bjargar í heimi hégómans
og faguryrða falsins í hvaða mynd
sem þetta kann að birtast.
Þráin eftir merkingu og sannleika.
Brenndu til ösku
þetta aðsetur lyginnar
þetta hreiður hégómans.
Munum að við eigum rödd og tungu.
Og gleymum ekki að undrast.
Tíminn er viðsjár nú um stundir
en tíminn rís nú samt nýr, dag hvern.
Undarleg er dögunin:
Undarleg:
tími merktur tvídrægum vilja og ugg
mettur af ysta myrkri
og þó svo göfugur
þó svo fagur
og þó svo nýr.
Senn dagar af nýju ári.
Hugheil þökk fyrir það gamla.
#
|