Regnbogar hafa sótt
okkur heim í meira
mæli en oft áður
nú í haustbyrjun.
Að kvöldi jafndægra
þetta haustið, birtist
tvöfaldur regnbogi
á kvöldhimni yfir
regnvotum Borgarfirði,
ekki amalegt það.
Brú eða bifröst á
milli heima...
Draumar vorir litast
af slíku endurkasti
náttúrunnar: sannkallaðir
regnbogadraumar fyrir
friði í harki og hamingju,
(eða óhamingju), hins
daglega veraldarvafsturs.
Fegruð og dulúð
himinskauta vekur
upp heimspekilegar
vangaveltur um
skil heimanna og
eru nútímafræðimenn
farnir að efast um
að skil heima og vídda
séu jafn skörp og oft
hefur verið haldið fram.
Þessar nýju hugmyndir
byggja á því að al-
heimi megi líkja við
stóra afsteypu eða
eftirhemun - simulation -,
nokkurs konar gangverk,
fylki, eða matrix, (í anda
Matrix myndanna), sem
stærðfræðin stjórni og
gagnabitar upplýsinga streymi:
við lifum í sýndarveruleika.
Hvort einhver arkítekt
stjórni svo alheimi,
er enn önnur spurning.
Hugmyndir þessar
eru æði súrrealískar
og draumkenndar
og bera vissan keim
af vísindaheimspeki
og vísindaskáldskap
en eru langt frá
því nýjar af nálinni.
Alheimi hefur iðulega
verið líkt við fagurt og
flókið stræðfræðilíkan.
Ítalski stjörnufræðingurinn
Galileo Galilei, sem með
sinni leiftrandi snilld,
kom sér undan ofsóknum
Rannsóknarréttarins:
og hún snýst nú samt,
líkti náttúrunni við bók,
sem skrifuð væri á
tungumáli stærðfræðinnar.
Það skyldi þó
aldrei vera að við
séum ekkert annað
en litil megabæt?
En breytir það svo
sem einhverju?
Eins og hæfileika okkar
til að hrífast og telja
bæði fyrirbærið og
upplifunina ekta?
Hreyfiafl þróunar
í gegnum blekkingu
til uppljómunar?
Möguleikinn að vera
ótengdur gangverkinu,
vera unplugged fylkinu?
*
|