Forsíđa   

 22.12.2023
 Vetrarsólstöđur: gott ađ sofa á dúnkodda og Dúnstúlkan í ţokunni




Vetrarsólstöður eru í dag undir
kyrrlátum gráhimni, jörð hreinhvít.
Nýfallin lausamjöllin lík æðar-
dúninum sem haldið hefur hita
á landanum í gegnum aldirnar
og verið gæðavara til útfutnings.
Dúntekja austur á Langanesi var 
lengi talin ein sú mesta á öllu 
Norð-Austurlandi ásamt vænni
dúntekju á prestsetrunum á
Skinnastöðum í Öxarfirði og 
Grenjaðarstað í Aðaldal.




Fyrr þennan sólstöðudag, lukum 
við hjá Skuggsjá lestri nýjustu 
bókar Bjarna M. Bjarnasonar,
Dúnstúlkan í þokunni sem Veröld
gefur út. En Bjarni er sá íslenski 
rithöfundur sem hvað mest hefur 
skrifað um drauma í þeim 20
verkum sem þegar hafa verið
gefin út eftir hann.

Óefað hefur Bjarni sjálfur kannað
lendur draumheima frá unga aldri 
líkt og Jóhannes Jónsson í Ásseli 
á Langanesi gerði líka á sínum 
tíma og bókin fjallar um.
Sagt er frá ævi Jóhannesar,
Drauma-Jóa og dúnstúlkunum
sem sáu um dúntekjuna og urðu 
sumar ekki langlífar; unnu sér til húðar.
Slík var sú mikla alúð við dúninn,
æðarfuglinn, eggin og ungana.
Nákvæmnisvinna út í eitt sem þær
inntu af hendi hjá oft á tíðum
hörðum húsbændum. Að ótöldu
ýmsu misjöfnu sem þær gat hent.





Dúnstúlkan í þokunni, gefur næma
innsýn í reynsluheim barnsins Jóa
og hvernig sá heimur mótar hann.
Galdramenn sem hann á ættir til 
eru nefndir til sögunnar og sagt er
frá einni helstu fyrirmynd hans,
Mikael Illugasyni í Skoruvík, afa hans;
vandist því m.a. í uppvextinum að sjá
kallinn tala við hrafnana og gefa nöfn.

Eins kynnist Jói útlöndum í gegnum afa 
og viðskiptum hans við duggara frá Evrópu.
Og dúntekjunni á útnesjum en æðardúnn
í sængur og kodda var góð skiptimynt.
Sagt er frá draumum Jóa frá unga
aldri sem sumir hverjir gátu verið 
virkilega óþægilegir. Jói var sem sagt,
draumskyggnt barn, og ekki allt tekið 
út með sældinni.

Síðar segir frá þjálfun með ýmsum 
grösum og draumstöfum á draumgáfu 
Jóa og upplestri yfir honum úr særinga-
blöðum og galdrabókaslitrum.
Þjálfun sem gerði kleift að segja fram 
drauma og veita svör við spurningum
sem fyrir hann voru lagðar, upp úr svefni. 
Þjálfun á fjarskyggni í svefni.

Langvinn veikindi og erfið hjá Jóa
eru og til umfjöllunar; hann kaus
heldur að vera kallaður aumingi
en niðursetningur.





Bjarni skrifar eftirminnilega um
þokuna á Langanesi og þá
dulúð sem hún sveipar átthaga
söguhetjanna og kallar Tár Guðs.
En himininn er huggari, hvað sem 
líður galdramönnum, geistlegu sem
veraldlegu valdi líkt og fram kemur 
í orðum Jóa þegar hann hughreystir 
dúnstúlkuna sína:




Núna er himininn grár. En stundum er
hann mjög fallegur. Það er gott að horfa
bara á fallega himininn sem maður
hefur séð áður og geymt djúpt í 
hugskotinu, eins og fjársjóð.
Horfa á hann eins og hann sé
yfir manni núna.




Hinn raunverulegi Jói bókarinnar
var sem fyrr segir, oft nefndur
Drauma-Jói og um hann fjallaði 
fyrsta íslenska dulsálfræðirannsóknin 
sem þeir Ágúst H. Bjarnason, rektor 
Háskóla Íslands og Guðmundur Finnbogason,
heimspeki-og sálfræðiprófessor, gerðu 
á draumgáfu Jóa og gáfu út á samnefndri 
bók árið 1915.
En Jói sá fyrir óorðna hluti og fann
týnda hluti og gaf svör í svefni þegar 
talað var til hans.

(Til gamans má geta þess að
Drauma-Jói og við hjá Draumasetrinu
Skuggsjá, eigum sameiginlegan forföður
sem var Ólafur Skorvíkingur Finnbogason,
útgerðarbóndi í Skoruvík á Langanesi, f.1701.
En eins og fyrr segir, kemur Skoruvík mjög 
við sögu í bókinni þar sem Mikael,
útnesjamaðurinn og afi Drauma-Jóa
bókarinnar, hélt til. 
Einnig má nefna að langafi Bjargar, 
forsvarskonu Skuggsjár, Vigfús Jónsson 
á Kúðá í Þistilfirði, var einn þeirra 
sveitunga hins raunverulega Jóa
sem þátt tóku í dulsálfræðirannsókninni 
á drauma-og fjarskyggnigáfu hans).





Dúnstúlka Bjarna er einstaklega vel skrifað
og leikandi lestrarverk. Bókin tekur jú 
á án þess að vera þyngslaleg þó hún fjalli 
á köflum um bág kjör og umkomuleysi
alþýðufólks í hörðum heimi.
En hún segir líka söguna af góðu fólki,
velgjörðarmönnume sem koma inn í líf 
Jóa og dúnstúlkunnar hans og hlúir að þeim,
gerir þeim lífið bærilegra, þessa heims 
og annars.
Ein þeirra er Ólína Jónsdóttir, dúnstúlka
og vinnukona á prestsetrinu á Sauðanesi
þar sem Jói hafði verið vinnumaður frá
unga aldri en tekur síðan að yrkja land 
að Ásseli. Ólína og Magnús maður 
hennar höfðu flutt á Langanesið eftir 
að missa skuldlaust bú og allt sitt í 
Dyngjufjallagosi, börnin þá uppkomin:




Ólína Jónsdóttir. Jú. Ég var sumarið
undarlega þegar þú fylltir það svo af 
dún að við urðum stundum að fara út
bara til að anda. Nýju dúnstúlkurnar 
trúa því ekki hvernig ástandið var þegar
ég segi frá því.




(Það verður að segjast, að Ólína sögunnar 
minnir á skemmtilegan hátt á langömmu
Bjargar úr Þistilfirðinum, Ólínu Ingibjörgu
Jónsdóttur á Grímsstöðum og síðar Kúðá.
Hún þótti mæt kona eins og Indriði
ættfræðingur nefnir. Tók m.a. að sér 
umkomulaus börn þótt barnahópur
hennar hefði verið stór fyrir. En Ólína
á Kúðá og Drauma-Jói voru samtíða
fyrir austan).




Dúnstúlka Bjarna byggir m.a. á heimildum
sem hann aflaði sér er hann skrifaði
meistararitgerð í guðfræði um Drauma-Jóa
fyrir nokkrum misserum. Nú vinnur hann
að doktorsritgerð um draumvísur, þá
aldagömlu draumhefð sem sér víða stað
í reynsluheimi landans fyrr og nú, í 
menningu og þjóðtrú, að ógleymdum
Íslendingasögunum.




Nokkuð magnað gerðist þegar
lokið var við lestur Dúnstúlkunnar
fyrr í dag og kveikt var á útvarpinu.
Verið var að lesa auglýsingar og 
fyrsta auglýsingin sem hljómaði
á öldum ljósvakans, fjallaði um
gæði dúnkodda og hve góðir þeir 
væru fyrir góðan svefn!

Þunn eru skilin heimanna, tíma og rúms. 
Og margt býr í þokunni!

Við hjá Skuggsjá óskum Bjarna innilega 
til hamingju með eðalbók.
Söguhetjan Jói, hertur í eldi reynslunnar
á lendum vöku, svefns og drauma, kemst 
að því hvað sem öllu líður, að ekki væri
með særingum hægt að forðast lífið.




#





Síđasta frétt 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12  13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30 31 32 33 34 35 36 37 38 39 40 41 42 43 44 45 46 47 48 49 50 51 52 53 54 55 56 57 58 59 60 61 62 63 64 65 66 67 68 69 70 71 72 73 74 75 76 77 78 79 80 81 82 83 84 85 86 87 88 89 90 91 92 93 94 95 96 97 98 99 100 101 102 103 104 105 106 107 108 109 110 111 112 113 114 115 116 117 118 119 120 121 122 123 124 125 126 127 128 129 130 131 132 133 134 135 136 137 138 139 140 141 142 143 144 145 146 147 148 149 150 151 152 153 154 155 156 157 158 159 160 161 162 163 164 165 166 167 168 169 170 171 172 173 174 175 176 177 178 179 180 181 182 183 184 185 186 187 188 189 190 191 192 193 194 195 196 197 198 199 200 201 202 203 204 205 206 207 208 209 210 211 212 213 214 215 216 217 218 219 220 221 222 223 224 225 226 227 228 229 230 231 232 233 234 235 236 237 238 239 240 241 242 243 244 245 246 247 248 249 250 251 252 253 254 255 256 257 258 259 260 261 262 263 264 265 266 267 268 269 Næsta frétt 
© 2007 Draumasetriđ Skuggsjá Hönnun Design EuropA