Þessa fyrstu daga íslensks
og sólbjarts vors, er þjóðin
skekin að dýpsta grunni.
Hefur orðið fyrir þungu
siðferðilegu áfalli.
Ekki einasta bresta
vonardraumar, heldur
reynast þeir hreinir
og klárir táldraumar.
Draumurinn um fagurt
þjóðlíf í faðmi blárra
fjalla að engu orðinn.
Landið var fagurt og frítt
en gullið sýnu fegurra
í aflöndum útvalinna...
Féfléttur eða féflettur?
Stór munur þar á en
munar bara einni
örlagaríkri kommu.
Llíkt og með núllin í
milljón, trilljón, skrilljón
og á krónu með gati.
Virkar býsna súrrealískt
en er hvorki leikur
né óraunvera í lífi
vinnandi og stritandi.
Himinn og haf á aðstöðu
og kjörum í þjóðfélaginu.
Var einhver að tala um
orma á gulli, dreka?
Brellur og blekkingar?
Hrunið eins og hver
annar sýndarveruleiki,
í þessu samhengi
sviðsettra féflétta en
raunveruleg martröð
féfletta meðaljóninum.
Það var nefnilega
vitlaust gefið allan
tímann og tröllska
- tröllskapur - ríkjandi.
Enda skortur á réttarvitund
og réttarbótum til handa
almenningi hrópandi dæmi.
Að ekki sé minnst á okur.
En sei, sei, nei,
ekki nóg að eiga
multí monní í felum
á kostnað hinna og
alls samfélagsins
heldur þarf að hafa
völd og sitja sem
fastast, vera númer
heima og heiman.
Kannski kóngur?
Skemmtilegur veruleiki,
að vakna til eða þannig
en gleymum ekki
veruleikans köldu ró.
Er ekki tækifærið einmitt
núna til að endurreisa
hinn siðræna sáttmála
og raunsatt lýðveldi?
Eða mun það gleymast
eina ferðina enn að:
Í draumi sérhvers manns
er fall hans falið?
*
|