Í ljóði eftir Gunnar Dal,
skáld og heimspeking,
og sem hvað mest hefur
ritað um Indland og forna
speki, segir á einum stað:
Úr þessu hvíta blómi
vann býflugan hunang
og köngulóin eitur.
Erindið sýnir vel
að Náttúran á sér
fleiri en eina hlið.
Og að við þurfum
að rækta með okkur
skilning þar á og
umgangast hana af
ástríki og virðingu,
vinna með henni að
eðlilegu jafnvægi.
En náttúruhamfarir
og loftslagsbreytingar
nútímans sýna gjört,
að langur vegur er
frá því að við höfum
unnið með Náttúrunni;
við höfum raunar lengi
unnið gegn henni.
Loftslagsbreytingarnar
og veðurhræringarnar
eru það afgerandi
að ekki er einungis
lífríkjum Jarðar ógnað
heldur þar með líka
hagkerfum og samfélögum.
Alþjóðlega samkomulagið
sem náðist á Parísar-
ráðstefnunni í gær, þann
12.12. um græna framtíð á
plánetunni öllum til handa,
verður vonandi virt og
unnið eftir því af festu með
áherslu á minni orkunotkun
og orkusóun og hóflegri
neysluvenjum jafnt
einstaklinga sem þjóða.
Auka sjálfbærni sem mest.
Markmið samkomulagsins
er að gera hnattrænt átak
til að auka kolefnisbindingu
og vinna gegn losun gróður-
húsalofttegunda. Vinna gegn
2ja gráða hlýnun Jarðar.
Og setja sérstakt fjármagn
í átakið til þróunarlanda
sem fjölmörg eru enn
háð jarðefnaeldsneyti
eins og kola, sbr. Indland.
En miðað við vaxandi
ómennsku og skepnuskap
á mörgum sviðum,
- og eru Íslendingar í
faðmi blárra fjalla þar
engin undantekning -,
þá er rík ástæða til að
standa vel á verðinum.
Eða líkt og Gunnar Dal
veltir fyrir sér í ljóði sínu
um steinana, blómin og
skilningstréð góðs og ills,
þá er maðurinn sjálfur
mesta ógnin í hlutverki
drottnarans. Spurt er:
í hvað munu mennirnir
breyta manninum?
Úr þessu forna grjóti
reistu sumir musteri
og aðrir kauphöll.
Úr þessu hvíta blómi
vann býflugan hunang
og köngulóin eitur.
Og ávextir skilningstrésins
urðu sumum nýtt líf
og öðrum dauði.
Í hvað munu mennirnir
breyta manninum?
(Gunnar Dal 1923-2011;
Raddir morgunsins, 1964).
*
|