Nú um stundir eru grös og blómplöntur,
byrkningar, mosar, fléttur og þörungar
að ógleymdum sveppum, (sem teljast
ekki lengur plöntur), á sínum hápunkti,
eða að nálgast hann á næstu vikum.
Heyannir á miðsumri og senn að ljúka.
Náttúrufræðingurinn og skáldið úr
Svefneyjum á Breiðafirði,
Eggert Ólafsson, (1726-1768),
orti um fögur grösin og kærkominn
sumargróandann og hafði
á orði að þá langaði engan
út um heim að blína.
Sæt og fögur grösin gróa,
gleðja kindur, naut og jóa,
engjar tún og auðnir glóa
eftir boði skaparans
út um sveitir Ísalands;
Okkur er gjarnt að leita langt yfir skammt
og sjáum ekki það sem við blasir eins og
þær dásemdir grasa móður Jarðar
sem vaxa í nánasta umhverfi:
Krossanesborgir skammt utan Akureyrar
við þjóðveg 1 rétt utan við Byko,
er mikið gósenland plantna og fugla.
Og rölt um borgirnar hin ágætasta
fræðslustund fyrir unga sem aldna
í bæði grasafræð og fuglafræðii.
Borgirnar eru nú friðlýstur fólkvangur.
Í gegnum aldirnar hafa grös og
blómplöntur veitt líkn og þraut
í veikindum og björg í bú og
margvíslegar aðrar nytjar, s.s.
til litunar.
Ein slík planta sem sjá má
í Krossnesborgum, er kennd við
stakk Maríu meyrjar, Hlíðarmaríustakkur,
og kallast Alchemilla á latnesku.
Lækningajurt sem læknað getur ýmsa
kvenlega kvilla eins og tíðaverki og
talin auka frjósemi.
Daggardropar á blöðunum hafa verið
kallaðir tár Maríu og reyndu alkemistar
fyrri alda að vinna gull úr þeim!
Þjóðtrúin segir að setji maður Maríustakk
undir koddann sinn, komi það í veg
fyrir martraðir og gefi góða drauma.
Gulmaðra er önnur algeng jurt sem
sjá má í Krossanesborgum.
Hún var líka kölluð Gullmaðra eða
Maríusængurhjálmur - Lady's Bedshaw,
á fyrri tíð. En talið var að ilmandi
gulmaðra hefði verið lögð í jötu
Jesúbarnsins.
Seyði hennar var hressandi og
kallaði Eggert Ólafsson gulmöðruna,
Ólúagras en haft var að orðatiltæki:
maðran örþreyttum léttir lúa.
Góðar grasa- og draumastundir!
#
|