Forsíđa   

 17.11.2013
 Dul og draumar í lífi tónskáldkonu



Eitt merkt tónskáld í
 íslenskum tónskáldahópi,
var prestsdóttirin
Guðrún Böðvarsdóttir,
frá Rafnseyri við Arnarfjörð.

Guðrún samdi m.a.
fallegt lag við
útfararsálminn kunna
Ég kveiki á kertum mínum,
við texta Davíðs Stefánssonar,
skálds frá Fagraskógi.

Hún samdi líka bæði
 lag og texta við verkið
Ég er að byggja bjarta höll
sem nýverið hefur heyrst
í flutningi kammerkórsins
Hymnodiu á Akureyri í
stjórn Eyþórs Inga Jónssonar,
organista Akureyrarkirkju.

Óhætt er að segja
að þegar í lifanda lífi
varð Guðrún kunn
fyrir tónskáldagáfu
sína en ekki síður
einstaka draumgáfu
og dulskyggni.

Þessi fallegu tónverk
sem hér eru nefnd,
eru raunar tilkomin
eftir andlát Guðrúnar
og flokkast undir
drauma af látnum
- vitjunardrauma -
og er sá draumflokkur
mjög þekktur hérlendis
 frá fyrstu öld byggðar.

Dreymdi móður Guðrúnar,
Ragnhildi Teitsdóttur, að
Guðrún birtist sér í draumi
skömmu eftir andláti sitt,
og semdi lögin og
 segði sér textann
jafnhraðan sem
Ragnhildur náði að skrifa
niður með syni sínum
þegar hún vaknaði.

Ragnhildur gaf síðar
út bókina Dul og draumar
árið 1944, nokkrum árum
eftir lát Guðrúnar sem lést
af berklum - Hvíta dauða -
 rúmlega þrítug að aldri.

Guðrún bjó bæði yfir
dulsýn og dulheyrn í vöku
sem draumi strax í bernsku
og fjalla margir draumar
hennar um ýmislegt
sem hún sér og heyrir
í handanheimum en birta
líka sterka náttúrusýn,
lífstrú og lífsvilja.

Eyfirska skáldkonan
Aðalbjörg Sigurðardóttir,
var samtímakona Guðrúnar,
og sjálf einnig þekkt sem
draumsjáandi frá unga aldri.

Hún lýsti baráttuþreki Guðrúnar
andspænis óblíðum örlögum
á þann veg að mátt hefði líkja
Guðrúnu við sjaldgæft hvítt blóm,
sem staðið hafi svo styrkum
rótum í lífi jarðar,
að hinn hvíti dauði
hafi ekki gengið með fullnaðarsigur
af hólmi fyrr en eftir 17 ára baráttu.

Á einum stað segir Guðrún svo frá:


Allt í einu heyri ég rödd
hjá mér er segir:
hvort vildir þú heldur
vera grasið sem vex
hér upp, eða rótin. -

Ó, nú liggur mikið við, að
ég svari rétt, hugsaði ég.

Svo hugsaði ég með
sjálfri mér. Já, grasið
vex hér upp, nýtur sólar
og regns - nýtur lífsins.
En svo koma líka kuldar,
og þá fölnar það og deyr,
þolir ekki mótlætið.

En rótin, hún lifir þrátt fyrir allt.
þar er lífið, kjarninn.
Ég vil vera rótin, sagði ég.

Þú hefur valið rétt, svaraði röddin.

Draumurinn var ekki lengri.


(Guðrún Böðvarsdóttir,
Dul og draumar, 1944;
Ljósheimar, rafbók, 2011).



*



Síđasta frétt 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30 31 32 33 34 35 36 37 38 39 40 41 42 43 44 45 46 47 48 49 50 51 52 53 54 55 56 57 58 59 60 61 62 63 64 65 66 67 68 69 70 71 72 73 74 75 76 77 78 79 80 81 82 83 84 85 86 87 88 89 90 91 92 93 94 95 96 97 98 99 100 101 102 103 104 105 106 107 108 109 110 111 112 113 114 115 116 117 118 119 120 121 122 123 124 125 126 127 128 129 130 131 132 133 134 135 136 137 138 139 140 141 142 143 144 145 146 147 148 149 150 151 152 153 154 155 156 157 158 159 160 161 162 163 164 165 166 167 168 169 170 171 172 173 174 175 176 177 178 179 180 181  182 183 184 185 186 187 188 189 190 191 192 193 194 195 196 197 198 199 200 201 202 203 204 205 206 207 208 209 210 211 212 213 214 215 216 217 218 219 220 221 222 223 224 225 226 227 228 229 230 231 232 233 234 235 236 237 238 239 240 241 242 243 244 245 246 247 248 249 250 251 252 253 254 255 256 257 258 259 260 261 262 263 264 265 266 267 268 269 Næsta frétt 
© 2007 Draumasetriđ Skuggsjá Hönnun Design EuropA