Einstök bók um drauma
- Dormiens Vigila -
kom fyrir sjónir
almennings nýverið,
draumadagbók
eðalhöfundarins
Bjarna Bjarnasonar.
Kærkomin bók í
miðjumoði íslenskrar
afþreyingarmenningar
og samsuðu síbyljunnar.
Bjarni nefnir bókina
eftir einum draumnum
Nakti vonbiðillinn
en bókin birtir 64
skráða drauma allt frá
bernsku til ársins 2008.
Eru draumarnir bæði
dagsettir og staðsettir
og gerast ýmist
í 101 Reykjavík,
á æskuslóðunum
á Eyrarbakka, eða
í Evrópulöndum.
Höfundur gerir ekki
tilraun til að túlka
draumana eða bæta
við þá, og verður
frásögnin fyrir vikið
einkar trúverðug.
Leikur skapandi
ímyndunarafls fer
um víðan völl
í draumum Bjarna.
Og þegar að er gáð
eins og í draumnum
af nakta vonbiðlinum,
birtist djúpur óður
til lífsins og þess
sem mestu máli
skiptir og sterk tengsl
við allt lifandi
þar sem menn,
dýr og náttúra
eiga samtal.
Þá leikur tónlist
og söngur í
draumum Bjarna
og stórt hlutverk.
Við birtum hér
tvo drauma frá
æskuheimilinu
að Einarsnesi
í Skerjafirði
en sama hús var
líka eitt sinn
heimili aðstandenda
Draumasetursins
Skuggsjár.
Einarsnesi 76, 1973:
Ég er átta ára,
staddur utan við
ryðgað bárujárnshús
- heimili móður minnar
í Skerjafirði.
Vart er stætt fyrir roki.
Ég finn hvernig
hviðurnar hrifsa
í klæðin þegar
ég geng niður
hallann að bílskúrnum.
Í garðinum uppgötva
ég að ég get svifið
í vindinum
haldi ég í eitthvað.
Ég lyftist upp
eftir rennunni í
átt að þakinu.
Að lokum held
ég laust með annarri
hendi í þakrennuna.
Ef ég sleppi sogast ég
með hviðunum
út í heim.
París, 17. apríl, 1997:
Á æskuheimili mínu
í Skerjafirði situr
gulhvítur köttur
með mannleg augu
á stól við
hliðina á mér.
Þegar ég klappa
honum, grípur
hann með
framloppunum
um hönd mína.
Í gegnum hlýja
mýktina finn
ég votta fyrir
flugbeittum klóm.
Ég tala til hans
góða stund og
kemst að því að
hann getur sagt
bæði já og nei.
Ég spyr: Viltu túnfisk?
Já, segir hann.
(Bjarni Bjarnason,
Nakti Vonbiðillinn;
Uppheimar, 2012,
bls. 7og 65).
*
|