Nýverið kom út hjá Veröld bók
um hina ævafornu list
að lesa í táknfræði drauma,
Nýja Draumaráðningabókin
eftir Símon Jón Jóhannesson.
En Símon Jón er velkunnur af
fyrri verkum um draumaráðningar og
ennfremur ýmislegt annað
fovitnilegt innan þjóðfræðinnar.
Margar skoðanir eru á draumaráðningum
meðal lærðra og leikra
og hefur svo verið lengi.
Einkum greinir menn á um
hvort draumar geti
birt ókomna tíð og þannig
verið til viðvörunar og leiðsagnar.
Spurning er þó hvort fólk þurfi ekki
að kynna sér sjálfa táknfræðina,
sama hvaða draumkenningu
það að öðru leyti aðhyllist.
Táknfræði drauma er ævaforn
og er Daníel spámaður Gamla Testamentisins
af mörgum álitinn upphafsmaður
hennar hér á Vesturlöndum.
Til er aldagamalt draumaráðningahandrit
nefnt eftir honum, Pseudo Daniel,
sem síðari tíma draumráðningar
eru taldar byggjast á.
Skuggsjá leggur áherslu á
að kynna það nýjasta á sviðinu
og eftirláta lesendum síðan
að skapa sér sína skoðun á
inntaki ólíkra túlkana og kenninga.
Draumkenning Sigmund Freud er t.a.m.
byggð á innra sálarlífi einstaklingsins
og hvað draumar segja um það;
draumar skv. þessu eru ekki fyrirboðar
um ókomna tíð eða hluti
heldur birta þeir á líkingamáli
óskir og þarfir dreymandans.
Og er draumtúlkun Freud
byggð á að lesa bæði í ytra byrði
drauma og dulið inntak þeirra.
Meira um það síðar.
Nýja Draumaráðningabókin er frábrugðin
eldri draumráðningabókum íslenskum
að því leyti að hún flokkar saman
í yfirflokka ýmis kunn draumþemu
út frá heildarmerkingu,
hughrifum og geðblæ þeirra
eins og veðurfar og náttúruöfl; ferðalög og farartæki og landslag og umhverfi.
Fylgir sem sé ekki stafrófsröð
draumtákna eins og lengst af
hefur tíðkast bæði hér og erlendis,
þ.e. að hafa öll tákn sem byrja á A
í fyrsta kafla og svo koll af kolli.
Innan tiltekinna draumþema
í Nýju Draumaráðningabókinni eru
síðan mörg algeng draumtákn túlkuð.
Dæmi um slíkar túlkanir innan
draumþemanna veðurfar og náttúruöfl
eru draumtáknin háflóð og brim.
Háflóð fyrir velgengni og
brim fyrir miklum afla (hjá sjómönnum).
Þessi þróun að vinna með drauma
út frá megindraumþemum
og síðan skoða undirflokkana,
sjálf draumtáknin og merkingu þeirra
fyrir heildarsamhengi draumsins,
er í góðu samræmi við
það sem sést hefur síðari misserin
í erlendum draumráðningabókum
frá þekktum höfundum í táknfræðum
draumreynslu og draumlífs.
Má þar helst nefna breska rithöfundinn
og þerapistann Pamelu Ball og
tímamótaverk hennar frá árinu 2008:
The Illustrated Dream Dictionary - What dreams reveal about you and your life.
'
|