Forsíđa   

 26.10.2022
 Tunglskinsljóđ, sem blćrinn ber; vetur rís í válegri veröld



Nú er vetur genginn í garð
og sumarið kvatt. Þessi tímamót
í náttúrunni líkt og svo mörg
önnur slík tímamót, eru álitin gjöful
til úrvinnslu og drauma. Vegvísar
um ókomna tíð.

Fyrsti Vetrardagur var hinn
22. október og síðan hafa dagar
verið stilltir, bjartir og fagrir;
á kvöldin blika stjörnur og
Norðurljósadýrð. Og snemma í
gærmorgun á nýju tungli, varð
deildarmyrkvi á sólu.




Tunglskinið býr yfir sínum
mögnuðu töfrum, sem vekja
von um sönn kærleikstengsl
en líka eftirsjá eins og segir í ljóðinu
Þín hvíta mynd, eftir góðskáldið,
Tómas Guðmundsson,(1901-1983),
og sem tónskáldið, Sigfús Halldórsson,
(1920ö1996), gerði undurfallegt
lag við og gaf út á albúminu
Fagra Veröld árið 1978.
Ljóðabók Tómasar, Fagra veröld,
hafði komið út 1946.

Ófáir íslenskir söngvarar hafa
spreytt sig á flutningi Þín hvíta mynd.
Má þar nefna Guðrúnu Á. Símonar,
Alfreð Clausen, Ellý Vilhjálms, og nú
síðast, Kristjönu Stefáns og Svavar Knút.


Eins og tunglskinsljóð, sem blærinn ber
úr bleikri firð á vængjum sér,
líður mér um svefninn hægt og hljótt
þín hvíta mynd um svarta nótt,
 kannske var það draumur, sem ég gat ekki gleymt,
en eitt er víst að síðan er í hjarta minu reimt.




Þegar Náttúran skartar sínu
fegursta eins og þessi dægrin
og hægstreymi vetrar tekur
völdin, eru mannlegir harmleikir
og ólýsanleg grimmd í veröldinni,
eitthvað svo úr takti við allt
þetta ljóðræna og draumkennda
sjónarspil.
Náttúran leitar samræmis
fyrir lif í jafnvægi.
Líka í mannheimi.




Á tímum vélvæðingar og
tækniundra og alnetsins,
getum við nú hlustað á okkar
frábæru söngvara flytja
Þín hvíta mynd, s.s. á YouTube.

En á sama tíma hefur því miður
reynst stutt í alvarlega firringu
í tengslum á milli manna og við
aðrar lífverur. Samkennd og meðlíðan
fara minnkandi en ásækni í áhrif
og völd yfir meðbræðrunum
aukast, oft með vélabrögðum.
Narsissmi og siðblinda í sókn.

Merkingarbær tengsl við aðra og
náin tilfinningabönd og félagatengsl,
eru jú það veganesti, sem við
þurfum á að halda til að vaxa og
þroskast og verða að manni
hvar mennska og miskunnsemi
eru leiðarljósin.




Nú um stundir ber svo við að hægt
er að granda öðrum manneskjum
með því að sitja bara við skrifborð
í órafjarlægð og beina þaðan
langdrægum flaugum til að valda
sem mestum skaða á lífi,
innviðum og eignum.
Með akkúrat engin tengsl við
skotmörkin: slíkt gæti truflað
sálarró og hreyft við siðvitund
skotmanna! Standa svo upp
frá dagsverkinu og ganga sæll
til náða eða hvað?

Eitruð valdaklíkan og ofstækisfullir
ráðgjafar í sínum makindum
þar fyrir ofan, stígandi dans við
forherta vopnasala; valdaelíta með
ægivald á fjölmiðlun, beitandi falsfréttum
og upplýsingaóreiðu.
(Ljóst að margir slíkir æðstráðendur
meika ekki dagana nema þunglyfjaðir/
eiturslævðir í sínu alræðisbrjálræði
eins og sagan sýnir. Hiltler var t.a.m.
háður daglegum amfetamínsprautum.
Gat ekki sofið. Skyldi engan undra).




Nýr, firrtur og óhugnanlegur
veruleiki blasir við með tilkomu
nýrra vopna, sem eru að gjörbreyta
heimsmyndinni, umturna gildum
og sverfa illilega að mannlegum
tengslum og reisn.


Vetur rís í válegri veröld.
Gleymum ekki að við eigum
möguleika til að ná áttum
og fóta okkur í þessum
nýja og harða veruleika.
Niðurstaðan á þann veg,
að við megum ekki sofna
á verðinum, baráttu er
þörf, nú sem aldrei fyrr.
 



#





Síđasta frétt 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28  29 30 31 32 33 34 35 36 37 38 39 40 41 42 43 44 45 46 47 48 49 50 51 52 53 54 55 56 57 58 59 60 61 62 63 64 65 66 67 68 69 70 71 72 73 74 75 76 77 78 79 80 81 82 83 84 85 86 87 88 89 90 91 92 93 94 95 96 97 98 99 100 101 102 103 104 105 106 107 108 109 110 111 112 113 114 115 116 117 118 119 120 121 122 123 124 125 126 127 128 129 130 131 132 133 134 135 136 137 138 139 140 141 142 143 144 145 146 147 148 149 150 151 152 153 154 155 156 157 158 159 160 161 162 163 164 165 166 167 168 169 170 171 172 173 174 175 176 177 178 179 180 181 182 183 184 185 186 187 188 189 190 191 192 193 194 195 196 197 198 199 200 201 202 203 204 205 206 207 208 209 210 211 212 213 214 215 216 217 218 219 220 221 222 223 224 225 226 227 228 229 230 231 232 233 234 235 236 237 238 239 240 241 242 243 244 245 246 247 248 249 250 251 252 253 254 255 256 257 258 259 260 261 262 263 264 265 266 267 268 269 Næsta frétt 
© 2007 Draumasetriđ Skuggsjá Hönnun Design EuropA