Forsíđa   

 04.04.2021
 Páskar - eldar ţróunar og djúpur draumheimur - án verđmiđa




Páskar enn á ný við ysta haf leiða
hugann að því sem ekki er hægt
að setja verðmiða á. En.... :
mannveran hrífst af verðgildi og
verðmiðum hégómleikans eins og
þegar safnarar á 19. öld fóru um
lönd og álfur að leita fágætra og
senn útdauðra tegunda. Allt í lagi
þó tegundir væru uppstoppaðar...

Gott dæmi en sorglegt þar um
er síðasti geirfuglinn í Eldey við
Reykjanes, sá síðasti í heiminum.

Fuglinn sem gat ekki flogið, nefnir
Gísli Pálsson, mannfræðiprófessor,
merka bók um þessa aldauðu tegund.
Bók Gísla kom út hjá Forlaginu sl.
haust og var tilnefnd til íslensku
bókmenntaverðlaunanna.
En síðasti geirfuglinn var drepinn í
Eldey í júníbyrjun 1844, sérpöntun
erlendis frá; þeir voru raunar tveir
þessir síðustu geirfuglar af álkuætt
sem þarna var gengið að. Ófleygir,
spakir og lágu vel við höggi...

Geirfugl hafði verið ofveiddur öldum
saman víða við strendur Norður-
Atlantshafsins, þ.m.t. Ísland,
Grænland og Kanada.
Veiddir til matar og eggjatöku;
allt nýtt svo sem fiður og fjaðrir í fatnað,
beinin jafnvel brennd sem eldiviður.







Íslendingar eignuðust sinn nútíma
geirfugl á uppboði í London árið 1971
eftir landssöfnun og var hann lengst af
í umsjón Náttúrufræðistofnunar Íslands
en er nú varðveittur hjá Náttúruminjasafni
Íslands sem hefur sýningaaðstöðu í Perlunni.
Árið 2009 setti stofnunin á laggirnar
athygliverða og fjölsótta sýningu í
Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu,
nú Safnahúsið, til þess að minnast
100 ára sögu hússins og Náttúrugripa-
safnsins sem þar var lengi hýst.
Nefndist sýningin Að spyrja Náttúruna -
Saga Náttúrugripasafnsins og var í
ritstjórn og umsjón þáv. forstöðumanns
Upplýsingadeildar Náttúrufræðistofnunar,
Ingibjargar Birtu Sig. Bjargar, dýrafræðings
og vísindamiðlara.
En hún hefur lengi unnið að stjórnun
verkefna hjá Skuggsjá.
Skipaði geirfuglinn sérstakan heiðurs-
sess á sýningunni í Safnahúsinu
og er ekki að undra að hann vekti
mikla eftirtekt ungra sem aldinna.
Tignarlegur og fagur; gat orðið allt
að 70cm að hæð og 5 kg. að þyngd.






Eldey geymir bæði líf og leyndardóma.
Enn í dag eru þar einhverjar stærstu
súlubyggðir í heimi sem m.a. má
þakka friðun eyjarinnar árið 1940.
Talið er að árlega verpi þar um
14-16 þúsundir súlupara.
Eyjan var gerð að friðlandi 1974.

Þessi þverhnípti móbergsdrangi
út af Reykjanestá, skammt frá
Höfnum, minnir líka á nauðsyn
þess að læra á umhverfi okkar
og að umgangast það af
virðingu í samvinnu við og
í vináttu við aðrar tegundir
og lífsform. Viðhafa aðgát.

Eldey minnir á ægikrafta þróunar
og viðsjár í Náttúrunni, elda á
Reykjanesi í gegnum aldirnar.
Hættulegust eru sprengigos í sjó
sem hafa komið upp af og til
í jarðsögunni; eitt slíkt varð
á miðöldum sem olli bæði
mannskaða, að talið er, og
falli búsmala allt í Borgarfjörð.
Brennisteinsgufur, koltvísýringsgas
og gosgjóskan varasöm.

Eyjan myndaðist í kringum
1210 til 1211 en nokkru fyrr
höfðu orðið tvö gos í sjó undan
Reykjanesi. Á næstu 570 árum
komu a.m.k. sjö gos í sjó svo
vitað sé til á þessum slóðum.
Og tvö möguleg gos í sjó á 19. öld,
annað við Geirfuglasker, 1879.

Vonum það besta nú og að
mildi sé áfram yfir nýhafinni
og sögulegri gosvirkninni
á Reykjanesi - í Geldingadölum.






Það hefur lengi verið vitað að:
djúpur er draumheimur, og segir
í fornritum vorum frá trú forfeðranna
á drauma og reynslu þeirra af þeim
til leiðsagnar í vökulífinu.
Segir Landnámabók t.a.m. frá draumi
Björns, sonar Molda-Gnúps Hrólfssonar,
landnámsmanns í Grindavik.
Í draumnum birtist Birni bergbúi
sem bauð honum gagnkvæmt
félag þar sem þeir skyldu líta til með
högum hvor annars. Gekk Björn að
þessum kostum og fórst uppfrá því
vel með allt sitt. Hafur mætti til geita
hans og bar það ríkulegan ávöxt og
efnaðist Björn vel. Var hann eftir það
nefndur Hafur-Björn. Í Landnámabók
segir ennfremur að landvættir hafi
fylgt Birni til þings en bræðrum hans
til veiða og fiskjar, þeim Þórði og Þorsteini.
(Sögðu svo skyggnir einstaklingar,
ófreskir, þess tíma).

Í skjaldarmerki Grindavíkur er svartur hafur...





Eldar Reykjaness birtast í ýmsu,
bæði bókstaflega og táknrænt:
ein ástkærasta söngkona þjóðarinnar,
Elly Vilhjálms (1935-1995), bar raunar
nafnið Eldey! Henný Eldey Vilhjálmsdóttir.
Fædd og uppalin í Höfnum á Reykjanesi
með sjálfa Eldeyna þar skammt undan.
Reykjanesið er sannarlega magnað
bæði fyrr og nú --brú milli heima og
heimsálfa--; þar er alþjóðaflugvöllurinn.
Nú mun söngur Ellyjar óefað hljóma
um veröld víða í nýjustu seríunni af
hinum vinsælu þáttum Grey's Anatomy.
Þar syngur hún lag Eyjamannanna
Ása í Bæ og Oddgeirs Krisjánssonar,
Ég veit þú kemur.

Megi okkur auðnast að feta vegina til góðs
í þeim viðsjám sem nú blasa við í heiminum.
Í kvikmyndinni 79 af stöðinni sem gerð
var eftir sögu Indriða G. Þorsteinssonar,
rithöfundar, (1926-2000), syngur Elly
ljóð Indriða um vegina sem liggja til allra
átta við lag Sigfúsar Halldórssonar,
(1920-1996):




Vegir liggja til allra átta,
á þeim verða skil,
margra er þrautin þungra nátta
að þjást og finna til
og bíða þess að birti á ný
og bleikur morgunn rísi.
Nú strýkur blærinn stafn og þil
stynjandi í garðsins hrísi.




#







Síđasta frétt 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30 31 32 33 34 35 36 37 38 39 40 41 42 43 44 45 46 47 48  49 50 51 52 53 54 55 56 57 58 59 60 61 62 63 64 65 66 67 68 69 70 71 72 73 74 75 76 77 78 79 80 81 82 83 84 85 86 87 88 89 90 91 92 93 94 95 96 97 98 99 100 101 102 103 104 105 106 107 108 109 110 111 112 113 114 115 116 117 118 119 120 121 122 123 124 125 126 127 128 129 130 131 132 133 134 135 136 137 138 139 140 141 142 143 144 145 146 147 148 149 150 151 152 153 154 155 156 157 158 159 160 161 162 163 164 165 166 167 168 169 170 171 172 173 174 175 176 177 178 179 180 181 182 183 184 185 186 187 188 189 190 191 192 193 194 195 196 197 198 199 200 201 202 203 204 205 206 207 208 209 210 211 212 213 214 215 216 217 218 219 220 221 222 223 224 225 226 227 228 229 230 231 232 233 234 235 236 237 238 239 240 241 242 243 244 245 246 247 248 249 250 251 252 253 254 255 256 257 258 259 260 261 262 263 264 265 266 267 268 269 Næsta frétt 
© 2007 Draumasetriđ Skuggsjá Hönnun Design EuropA