Saga Náttúrugripasafnsins og var í
ritstjórn og umsjón þáv. forstöðumanns
Upplýsingadeildar Náttúrufræðistofnunar,
Ingibjargar Birtu Sig. Bjargar, dýrafræðings
og vísindamiðlara.
En hún hefur lengi unnið að stjórnun
verkefna hjá Skuggsjá.
Skipaði geirfuglinn sérstakan heiðurs-
sess á sýningunni í Safnahúsinu
og er ekki að undra að hann vekti
mikla eftirtekt ungra sem aldinna.
Tignarlegur og fagur; gat orðið allt
að 70cm að hæð og 5 kg. að þyngd.
Eldey geymir bæði líf og leyndardóma.
Enn í dag eru þar einhverjar stærstu
súlubyggðir í heimi sem m.a. má
þakka friðun eyjarinnar árið 1940.
Talið er að árlega verpi þar um
14-16 þúsundir súlupara.
Eyjan var gerð að friðlandi 1974.
Þessi þverhnípti móbergsdrangi
út af Reykjanestá, skammt frá
Höfnum, minnir líka á nauðsyn
þess að læra á umhverfi okkar
og að umgangast það af
virðingu í samvinnu við og
í vináttu við aðrar tegundir
og lífsform. Viðhafa aðgát.
Eldey minnir á ægikrafta þróunar
og viðsjár í Náttúrunni, elda á
Reykjanesi í gegnum aldirnar.
Hættulegust eru sprengigos í sjó
sem hafa komið upp af og til
í jarðsögunni; eitt slíkt varð
á miðöldum sem olli bæði
mannskaða, að talið er, og
falli búsmala allt í Borgarfjörð.
Brennisteinsgufur, koltvísýringsgas
og gosgjóskan varasöm.
Eyjan myndaðist í kringum
1210 til 1211 en nokkru fyrr
höfðu orðið tvö gos í sjó undan
Reykjanesi. Á næstu 570 árum
komu a.m.k. sjö gos í sjó svo
vitað sé til á þessum slóðum.
Og tvö möguleg gos í sjó á 19. öld,
annað við Geirfuglasker, 1879.
Vonum það besta nú og að
mildi sé áfram yfir nýhafinni
og sögulegri gosvirkninni
á Reykjanesi - í Geldingadölum.
Það hefur lengi verið vitað að:
djúpur er draumheimur, og segir
í fornritum vorum frá trú forfeðranna
á drauma og reynslu þeirra af þeim
til leiðsagnar í vökulífinu.
Segir Landnámabók t.a.m. frá draumi
Björns, sonar Molda-Gnúps Hrólfssonar,
landnámsmanns í Grindavik.
Í draumnum birtist Birni bergbúi
sem bauð honum gagnkvæmt
félag þar sem þeir skyldu líta til með
högum hvor annars. Gekk Björn að
þessum kostum og fórst uppfrá því
vel með allt sitt. Hafur mætti til geita
hans og bar það ríkulegan ávöxt og
efnaðist Björn vel. Var hann eftir það
nefndur Hafur-Björn. Í Landnámabók
segir ennfremur að landvættir hafi
fylgt Birni til þings en bræðrum hans
til veiða og fiskjar, þeim Þórði og Þorsteini.
(Sögðu svo skyggnir einstaklingar,
ófreskir, þess tíma).
Í skjaldarmerki Grindavíkur er svartur hafur...
Eldar Reykjaness birtast í ýmsu,
bæði bókstaflega og táknrænt:
ein ástkærasta söngkona þjóðarinnar,
Elly Vilhjálms (1935-1995), bar raunar
nafnið Eldey! Henný Eldey Vilhjálmsdóttir.
Fædd og uppalin í Höfnum á Reykjanesi
með sjálfa Eldeyna þar skammt undan.
Reykjanesið er sannarlega magnað
bæði fyrr og nú --brú milli heima og
heimsálfa--; þar er alþjóðaflugvöllurinn.
Nú mun söngur Ellyjar óefað hljóma
um veröld víða í nýjustu seríunni af
hinum vinsælu þáttum Grey's Anatomy.
Þar syngur hún lag Eyjamannanna
Ása í Bæ og Oddgeirs Krisjánssonar,
Ég veit þú kemur.
Megi okkur auðnast að feta vegina til góðs
í þeim viðsjám sem nú blasa við í heiminum.
Í kvikmyndinni 79 af stöðinni sem gerð
var eftir sögu Indriða G. Þorsteinssonar,
rithöfundar, (1926-2000), syngur Elly
ljóð Indriða um vegina sem liggja til allra
átta við lag Sigfúsar Halldórssonar,
(1920-1996):
Vegir liggja til allra átta,
á þeim verða skil,
margra er þrautin þungra nátta
að þjást og finna til
og bíða þess að birti á ný
og bleikur morgunn rísi.
Nú strýkur blærinn stafn og þil
stynjandi í garðsins hrísi.
#