Sólbjartur fimmtudagur
á fullu tungli, svokölluðum
blómamána eða flower-moon
upp á enska tungu:
blóm taka að springa út eitt
af öðru og ein og ein fjóla
kinkar kolli í garðinum.
Þessir sumarboðar fylla
okkur von um hið fagra
og sanna.
Boðskapur sem á vel við
nú í aðdraganda forseta-
kosninga en umræðan hefur
verið ansi lituð af aurburði,
niðurrifstali og tilburðum
til að skrílmenna þjóðina
svo vitnað sé í orðalag
skagfirska bóndans og
skáldsins sem fór til
Vesturheims, yrkti þar og orti,
Stephans G Stephanssonar,
(1853-1927).
En verum þess minnug að
þjóðin velur sinn forseta ...
Í hröðum heimi vaxandi átaka
þjóða á milli, þarf eyríkið við
yzta haf, enn á ný á framsýnum
leiðtoga að halda sem ber
almannahag fyrir brjósti og
hefur þá innsýn og kjark
til að bera að slá á puttana á
valda-og hagsmunaölfum sem
geta afvegaleitt þjóðina að nýju.
En í útvarpsviðtali í morgunþætti
Rásar 1 þann 13. maí sl. við
Guðmund Hálfdánarson,
prófessors í sagnfræði, sem
jafnframt er Jón Sigurðssonar
prófessor, þar sem hann ræddi
um valdsvið og ábyrgðarskyldur
forseta, nefndi hann að forseti
hefði m.a. mátt slá á puttana
á fjármálaöflunum í aðdraganda
hrunsins.
Ennfremur bendir Guðmundur
á löngu tímabæra og þarfa
endurskoðun stjórnarskrár og
mikilvægi þess að taka upp
forsetakaflann líkt og margir
bæði leikir og lærðir hafa gert
og stjórnvöld lofað að ráðast í
en trassað.
Hefur Ólafur Þ Harðarson,
prófessor í stjórnmálafræði,
löngum verið skeleggur
talsmaður slíkra breytinga,
s.s. út frá fjölda meðmælenda
á bak við frambjóðendur til
forseta og annað kosninga-
fyrirkomulag: tvennar kosningar,
seinni umferð milli tveggja efstu
úr fyrri kosninu, eða val í fyrsta
og annað sæti sem dæmi sýna
að gefst vel eins og hjá Írum.
Hvaða land og samfélag
munu komandi kynslóðir erfa?
Í ljóði sínu Herhvöt úr norðri,
yrkir Einar Már Guðmundsson
um eyjuna í hjartanu og herhvöt
unga fólksins að roðfletta myrkrið
og afhausa eymdina:
Þú sem býrð með eyju í hjartanu
og víðáttur geimsins
stétt undir iljunum:
Réttu mér norðurljósin!
Ég ætla að tala við unglinginn
sem heldur á stjörnunum.
Við roðflettum myrkrið
og afhausum eymdina.
(Einar Már Guðmundsson, 1956 -;
Ljóð 1980-1995, Mál og menning, 2002).
#
|