Í einu af mögnuðum ljóðum
Jóhanns Sigurjónssonar,
skálds frá Laxamýri,
Sumarnótt, talar hann
um að svefninn sé gull
hins fátæka en segir
m.a. í sama ljóði:
Lát mig enga drauma dreyma...
Draumar eru margs konar,
órar og tál og ekki alltaf
þægilegir en sumir líka ekta
og gefa dreymandanum mikið.
Í ljóðinu Fyrir utan glugga vinar míns,
talar Jóhann um drauma sem silki nætur:
draumsilki rakið dimma nóttin hefur,
deginum fegra uppúr silfurskrínum.
Og á enn öðrum stað, í ljóðinu
Væri ég aðeins einn af þessum fáu,
kveður Jóhann um það að trúa
sínum leiðsludraumum, sem
koma til allra þeirra, sem
lífsins hjartslátt finna.
Svefn og draumar voru skáldinu
sannarlega hugleikin viðfangsefni
eins og eitt þekktasta
vögguljóð á íslenska tungu,
Sofðu, unga ástin mín,
sýnir svo vel, og Halla
syngur til Tótu dóttur sinnar,
í leikriti Jóhanns, Fjalla-Eyvindi.
Í hyllingarlandi drauma og
í spéspegli samfélaga
nútímans og Alnetsins,
eru skilin á milli raunveru
og hliðarveruleika
að verða æ óljósari,
afbakanir normið.
Blekkingar og sefjun
brellumeistara ráðandi
og tengslarof við innra
eðli manns og tilveru,
firrt stef í draumóraveru.
Í dag eru 100 ár liðin frá
andláti Jóhanns, (sumir vinir
kölluðu hann Krumma),
sem ort hefur einhver fegurstu
og dýpstu ljóð á íslenska tungu.
Væri vel við hæfi að hlutast
yrði til um sérstakan ljóða-
og leikritavef innan Landsbókasafns -
Háskólabókasafns í Þjóðarbókhlöðu,
til heiðurs minningu Jóhanns,
og miðla betur núlifandi
sem komandi kynslóðum,
ljóðspeki hans og leiftrandi orðsnilld.
Ljóð sem eldast afar vel og
eru nánast handan tímans
hjá einu af okkar fyrsta nútímaskáldi.
.
Jóhann lét sjálfur glepjast
af stórum hyllingardraumum,
táli og draumórum eins og
viss ævintýramennska,
gróðadraumar og sumar
uppfinningar hans, (s.s. ryklokið,
sem átti að seljast í bílförum
en náði aldrei neinum sölu-
hæðum), eru til marks um.
Breyskur og mannlegur
og í stíl við það sem hann
kallar mannsins saga.
Og þrátt fyrir að kveða í
Sonnettu:
æskan er horfin,
engir draumar lita ókomna
tímans gráu sinuhaga,
þá mælti hann frekar með
að lifa lífinu af ástríðu
en fara í moldina í
gullroða líkkistu eins og
hann segir á öðrum stað.
Þó hef ég aldrei elskað daginn heitar
- eilífðar nafnið stafar barnsins tunga -
fátæka líf! að þínum knjám ég krýp,
áþekkur skuggablómi, er ljóssins leitar,
- leggurinn veldur naumast eigin þunga -
fórnandi höndum þína geisla eg gríp.
(Jóhann Sigurjónsson, skáld frá Laxamýri,
19. júní, 1880 - 31. ágúst, 1919;
úr Sonnettu).
*
|