Tengdu vagn þinn stjörnu -
Hitch your wagon to a star -,
varð bandaríska ljóðskáldinu
Ralph Waldo Emerson, að orði.
Á björtum og íðilfögrum
vetrarsólstöðum þessa árs,
eiga þessi orð vel við þegar
morgunstjarnan Venus skín
skær á suðausturhimni
og fugl syngur sitt ljúfasta lag
í byrjun dags stuttu fyrir
sólarupprás, (þ.e.a.s undir hádegi).
Töfrum slegin Náttúra.
Á svona stundum er erfitt
að segja hvort fagurt sólarlagið,
sé í raun hljóðlát sólarupprás
eða öfugt...
Þrír úlfhundar, móleitir og
samlitir auðri jörðinni,
birtast skælbrosandi
á þjóðveginum og horfa
óttalausir í ljósgeisla
ferðavagnsins/bifreiðar á móti:
líkt og geislandi, ódauðlegar
verur þessa heims og annars;
já, þessi bílferð við sólsetur
síðla dags um Eyfjafjarðarsveit,
líktist allt eins draumi
undir silfurslegnum
bláhimni yfir Uppsalahnjúki
og fölbleikum himni til
norðurs við ystu sjónarrönd
yfir Kaldbaki.
Já, tengjum vagn okkar
stjörnu og ferðumst
óttalaus á vit nýrra tíma,
nú þegar sólin hefur
staðnæmst á himni
eina örskotsstund
og hverfst um sjálfa sig
og klifrar svo smátt og
smátt hærra á himinbaug.
*
|