Vetrarsólstöður í dag
og sólin lægst á lofti,
dagur stystur í Norðri.
Sól hverfist um
sjálfa sig og fæðist ný.
Og hjól ársins gengur
senn sína hringrás.
Óhætt er að segja
að heimur nútímans
sé myrkvaður.
Miklar viðsjár í veröld
trylltra og spilltra afla
af hendi siðblindra
valdhafa þar sem
börn og sakleysingjar
verða illilega fyrir
barðinu á hermanginu
og öðru mangi með
börn sem söluvöru.
Fyrir rúmum 150 árum
var Rauði krossinn/
Rauði hálfmáninn
settur á laggirnar
og Genfarsáttmálinn
leit dagsins ljós.
Söguleg kaflaskipti,
tilkomin sem andsvar
við árásum á börn
og almenna borgara
og á sjúkrahús.
Víglínumörk virt af
báðum stríðsaðilum.
Nú, þessari einu
og hálfu öld síðar,
eru allar víglínur
færðar til að geðþótta
stríðandi fylkinga,
börn og sjúkrahús
orðin skotmörk í átökum
sem engu eira og
enga mannhelgi virða
hér og hvar um heiminn.
Sýnir hve siðrofið er algjört
og mennska og mannleg
þjáning hlutgerð sem fánýti.
Rakin mannvonska sjálfsögð.
En lengi væntir vonin.
Víða er fólk að vakna
til vitundar um alvarleik
þeirra harmleikja sem
verða fyrir almannaaugum
og að bregðast þurfi við:
já, bregðast þarf við og
hafna þeirri helstefnu
sem náð hefur ríkjum.
Þetta þýðir ódeiga
baráttu í hjörtum manna,
heima fyrir og á heimsvísu.
Von og draumar eu
nátengd, hreyfiafl
breytinga og framþróunar.
Ef von og draumar
eru deydd, þá mun
helstríðið ná að sigra.
Hugsum til barna og hlúum
að vongleðinni sem
þeim er eðlislæg
og ungu lífi nauðsynleg
til vaxtar og þroska,
vongleðinni sem skagfirska
skáldið, Hannes Pétursson,
kveður um í ljóði sínu
um þá fornu hefð að ná
sér í jólatré og helga:
Jólin að koma - og lyngið
er loðið af mjöll.
Vongleði
vængjar skóhælinn okkar.
*
.
|